Viðskiptaráð Íslands

Kjaraskútan

Harla ólíklegt er að hræðsluáróður og dómsdagsyfirlýsingar á opinberum vettvangi muni skila sér í farsælli samningagerð milli aðila vinnumarkaðarins í lokuðum fundarherbergjum á næstu vikum og mánuðum. Þó vissulega þurfi að standa vörð um hagsmuni þeirra sem að borðinu koma ættu allir að vera sér meðvitaðir um að finna þarf einhvers konar snertiflöt þar sem samningsaðilar fá einhverju haldið en öðru sleppt til að skapa sátt. Kúnstin er að gera það á þann veg að aðilar gangi sáttir frá borði – án þess að hagkerfið taki kollsteypu í kjölfarið.

Eins og sakir standa er tónninn harðari nú en oft áður og við gætum horft fram á erfiðari viðræður en í kjaralotum síðastliðinna áratuga eða allt frá þjóðarsáttarsamningunum árið 1990. Á meðan vinnuveitendur bíða nánast með hnút í maganum yfir því sem koma skal veltir starfsfólk fyrir sér hvað kröfur stéttarfélaganna raunverulega munu þýða fyrir þeirra eigin efnahag. Víst er að þetta er fyrir löngu orðið aðalumræðuefnið á kaffistofum landsins.

Líkt og í öðrum þjóðmálum er manni nánast hrint út í að skipa sér í fylkingu – með eða á móti – annars telst maður ekki gjaldgengur í umræðu dagsins. Hvað ef maður finnur sig ekki í þessum fylkingum? Hvað ef þessi alvarlegu mál horfa öðruvísi við manni?

Við erum í raun öll farþegar á sama báti, kjaraskútunni, sem haga þarf seglum eftir vindi til að tryggja áframhaldandi ferð. Ekki getur ætlunin verið að skemma þann góða meðbyr sem okkur hefur hlotnast undanfarin ár? Þó við hægjum kannski á um nokkra hnúta, þá er það okkar allra að samstilla bönd og trissur til að halda áfram siglingunni – og horfa til allra mögulegra leiða og lausna sem sagan hefur kennt okkur að reynist vel. Þenji maður seglin of hátt eða kippi of hart í vitum við að voðinn er vís.

Forsvarsmenn fyrirtækja landsins eru ekki í vígahug þegar kemur að kjaraviðræðum – heldur vilja þeir flestir hag starfsfólks síns sem bestan innan þess ramma sem rekstur þeirra leyfir. Gott og öflugt starfsfólk er það dýrmætasta sem fyrirtæki eiga og því er það þeirra hagur að fólk uni sér vel og sé sátt við sín kjör.

Aftur á móti er vert að benda á að launakostnaður fyrirtækja er mjög hár og erfitt getur reynst fyrir starfsfólk að setja sig í spor atvinnurekenda, sem bera ábyrgð á rekstrinum. Um 65% af verðmætasköpun fyrirtækja fer í launakostnað og af þeim kostnaði er það ekki nema önnur hver króna sem skilar sér í vasa launþegans. Hinn helmingurinn fer annars vegar í lífeyrisframlag, tryggingagjöld, orlof og önnur hlunnindi sem atvinnurekandi greiðir ofan á laun og hins vegar í skatt- og lífeyrisgreiðslu starfsmannsins. Hvernig væri þess í stað að huga að leiðum til að hækka laun eftir skatt og tryggja hærri greiðslur í vasa launaþega?

Útborguð laun mætti hækka með því að lækka tekjuskatt, hækka persónuafslátt og lækka útsvar. Lækkun tryggingagjaldsins, sem er enn í hæstu hæðum þrátt fyrir afar lágt atvinnuleysi, myndi óneitanlega skapa aukið svigrúm atvinnurekenda til að greiða hærri laun. Þá mætti ennfremur endurskoða fyrri hækkanir lífeyrisgreiðslna en ýmislegt bendir til þess að iðgjöld séu of há. Þau samsvara nú meira en einum sjöunda af heildartekjum launþega. Við það bætist oft séreignasparnaður og hlutfall lífeyrisgreiðslna þá orðið einn fimmti af tekjum.

Margar leiðir má skoða til að bæta hag launþega – en taka verður tillit til afar takmarkaðs svigrúms atvinnurekenda til að koma til móts við þær kröfur sem lagðar hafa verið fram. Siglum ekki í strand heldur kappkostum við að fanga áfram vindinn saman.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 15. nóvember 2018

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024