Viðskiptaráð Íslands

Lifandi hundur er öflugri en dautt ljón

„Efnahagsvandi okkar Íslendinga er fólginn í þeirri fáránlegu skoðun launþegasamtakanna og foringja þeirra, að kjarabætur séu fólgnar í miklum krónutöluhækkunum. Stefna og baráttuaðferðir launþegasamtakanna, allt frá því kommúnistar fóru að láta á sér bera eftir 1930, hafa ekki verið í neinu samræmi við staðreyndir lífsins og eðli okkar þjóðfélags. Þessar aðferðir spilla hinum sönnu farsældarmálum alþýðu.“

Eitt helsta viðfangsefni kjaraviðræðnanna verður hvernig eigi að verja kaupmáttinn í landinu. Sumir fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar segja lausnina vera að hækka nafnlaun til að mæta verðlagshækkunum og hækkandi vöxtum. Hér er ekki verið að fara ótroðnar slóðir. Í bókinni Í stormum sinna tíða er haft eftir dr. Benjamín H. J. Eiríkssyni hagfræðingi:

„Efnahagsvandi okkar Íslendinga er fólginn í þeirri fáránlegu skoðun launþegasamtakanna og foringja þeirra, að kjarabætur séu fólgnar í miklum krónutöluhækkunum. Stefna og baráttuaðferðir launþegasamtakanna, allt frá því kommúnistar fóru að láta á sér bera eftir 1930, hafa ekki verið í neinu samræmi við staðreyndir lífsins og eðli okkar þjóðfélags. Þessar aðferðir spilla hinum sönnu farsældarmálum alþýðu.“

Að þessu sögðu er rétt að staldra við og líta blákalt á stöðuna. Efnahagslífið tók mun betur við sér í kjölfar heimsfaraldurs en búist var við. Væntingar um krappan efnahagssamdrátt gengu ekki eftir að fullu. Á þessum grunni hefur náðst mikill árangur á vinnumarkaði. Launavísitala Hagstofunnar hefur hækkað um 24% frá undirritun kjarasamninga 2019 og einnig dregið verulega úr atvinnuleysi.

Alls staðar nema á Íslandi

Þegar þróun launa frá undirritun lífskjarasamninga er skoðuð í alþjóðlegu samhengi sést hve góður árangurinn hefur í raun verið. Hækkun launa er ríflega þrefalt meiri hérlendis en að meðaltali á Norðurlöndunum á mælikvarða launa í framleiðslugreinum, sem gjarnan er notaður í alþjóðlegum samanburði. Ef litið er til lengra tímabils er svipaða sögu að segja, laun í framleiðslugreinum hafa hækkað um tæplega 7% að jafnaði á ári. Það er margföld hækkun miðað við helstu samanburðarlönd.

Hvers vegna hafa laun á Íslandi hækkað svo langt umfram laun hjá nágranna- og viðskiptaþjóðum? Líkt og kom fram í Kjarafréttum Eflingar nýverið hækka nafnlaun að jafnaði í takt við verðbólgu og framleiðnivöxt til lengri tíma litið. Af launaþróun síðasta áratugar mætti halda að framleiðni hérlendis hafi aukist margfalt umfram önnur þróuð ríki.

Raunin er hins vegar sú að framleiðni hefur vaxið hóflega síðustu ár eða um 1,3% árlega að jafnaði, sem er aðeins eilítið umfram samanburðarþjóðir. Yfir sama tímabil hefur verðbólga verið hófstillt, eða tæp 3%, sem er þó meira en í samanburðarlöndum. Laun hafa því hækkað talsvert umfram svigrúm framleiðnivaxtar og verðbólgu. Ísland sker sig að þessu leyti algjörlega úr hópi nágrannaþjóðanna. Laun hækka sem sagt í takt við framleiðni og verðlag í þróuðum ríkjum, en ekki á Íslandi. Eða hvað?

Hádegisverðurinn er aldrei ókeypis

Staðreyndin er sú að þegar laun hækka umfram þetta svigrúm kemur að endanum að skuldadögum. Afleiðing þessara miklu launahækkana hérlendis er sú að aukinn þrýstingur er á innlendar verðlagshækkanir og eftirspurn. Hér er verðstöðugleika fórnað. Til að bæta gráu ofan á svart hefur sú staða kallað á aðhald af hálfu Seðlabankans til að vega gegn undirliggjandi verðbólguþrýstingi. Endurspeglast aðhaldið í hærri stýrivöxtum, sem voru yfir hlutlausum vöxtum yfir tímabilið.1 Reikningurinn birtist því í aukinni verðbólgu og hærra vaxtastigi, sem dregur úr kaupmættinum.

Ástæða þess að verðbólga og vextir voru ekki hærri en raun ber vitni, þrátt fyrir miklar launahækkanir, eru hagfelld ytri skilyrði hér áður, viðskiptakjarabati til ársins 2018 og uppgangur í ferðaþjónustu. Það var mikil mildi. Nú er staðan breytt og erlendir liðir sem áður unnu gegn innlendum kostnaðarhækkunum eru nú sjálfstæður verðbólguvaldur. Við erum ekki lengur með þessi spil á hendi og getum því ekki leikið sama leikinn aftur núna.

Róum öll í sömu átt

Í komandi kjaraviðræðum er markmið okkar allra að standa vörð um þann mikla árangur sem náðst hefur. Þar sem ytri skilyrði sem áður reyndust okkur hagfelld leggjast nú á sömu sveif og innlend verðbólga verður að taka mið af því. Haga skal seglum eftir vindum.

Það er grundvallarmisskilningur að hægt sé að kreista fram aukinn kaupmátt með pennastriki. Hann verður aðeins varanlegur ef laun haldast í hendur við verðmætasköpun og framleiðni. Við semjum okkur ekki frá grundvallarlögmálum efnahagslífsins. Í þessu er sígandi lukka best.

Gunnar Úlfarsson

Jóhannes Stefánsson

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 26. september 2022.

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024