Markmiðin göfug, áhrifin öfug

Innviðaráðherra birti grein í Morgunblaðinu í gær og gagnrýndi Viðskiptaráð fyrir úttekt á efnahagslegum áhrifum þingmála síðasta vetrar. Úttektin sýndi að heildaráhrif þingmála ríkisstjórnarinnar voru lítillega jákvæð. Af einstökum ráðuneytum höfðu þingmál innviðaráðuneytisins hins vegar neikvæðustu áhrifin.

Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Ráðherra virðist ósáttur við að við höfum litið „undir húddið“ á þingmálum hans. Í stað þess taka því sem gefnu að yfirlýst markmið þingmálanna myndu nást greindum við raunveruleg áhrif þeirra. Sú greining leiddi í ljós misræmi þar á milli.

Þrjú þingmál valda dræmri útkomu innviðaráðuneytisins: ný húsaleigulög, sem fækka íbúðum í útleigu, ný skipulagslög, sem hægja á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, og gjaldfrjálsar skólamáltíðir, sem skerða aðgengi og rýra gæði. Í öllum tilfellum eru áhrif þingmálanna önnur en markmiðin.

Ný húsaleigulög fækka leiguíbúðum

Tökum ný húsaleigulög sem dæmi. Yfirlýst markmið þeirra er að auka húsnæðisöryggi leigjenda. Til að ná því markmiði leggja lögin nýjar kvaðir á þá sem vilja leigja út íbúðarhúsnæði. Sá sem leigir út íbúð ræður til dæmis ekki lengur leiguverðinu. Nú ákveður opinber nefnd leigufjárhæðina með bindandi úrskurði ef leigjandinn óskar þess eftir að undirrita leigusamning.

Þessi kvöð veldur því að hluti þeirra sem hefðu leigt út íbúðir sínar hætta við það. Sá sem greiðir fastar afborganir af íbúð en ræður ekki leiguverðinu sjálfur sér fram á tap ef úrskurður nefndarinnar verður honum óhliðhollur. Fyrir vikið fækka lögin íbúðum í útleigu og valda því að færri leigjendur fá húsnæði.

Þá er holur hljómur í staðhæfingu ráðherra um sérhagsmuni. Í úttekt okkar eru áhrif þingmála á efnahagslífið í heild metin. Mál innviðaráðuneytisins í vetur eiga það hins vegar flest sammerkt að leggja nýjar álögur eða byrðar á almenning í því skyni að bæta hag fámennari hópa.

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir rýra gæði

Dæmi um slíkt mál eru gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Börn tekjulægri foreldra nutu þeirra nú þegar, svo þingmálið felur í sér fjárstuðning til tekjuhærri foreldra. Hér ekki um lágar fjárhæðir að ræða, því máltíðirnar skipta tugum þúsunda á dag. Opinber hallarekstur er því aukinn varanlega og reikninginn þarf að greiða í formi hærri verðbólgu eða skatta.

Önnur áhrif gjaldfrjálsra skólamáltíða verða að draga úr aðgengi og rýra gæði máltíðanna. Þegar eitthvað er gert ókeypis verður eftirspurnin alltaf meiri en framboðið. Þá þarf að takmarka aðgengi með öðrum hætti, yfirleitt með skömmtunum. Grunnskólar með takmörkuð fjárráð munu síðan óhjákvæmilega leitast við að lækka kostnað vegna þessara máltíða í sínum rekstri, nú þegar tekjur vegna þeirra hafa verið fjarlægðar.

Engin velsæld án efnahags

Ráðherra klykkir út á því að hann einbeiti sér ekki aðeins að efnahagslegum þáttum heldur líka „velsæld fyrir öll.“ En velsæld er ekki til án kröftugs efnahagslífs. Hagvöxtur hefur jákvæð áhrif á hamingju, heilsu, menntun, fátækt, dýravelferð, vellíðan barna, frið og nær alla aðra þætti sem eru eftirsóknarverðir. Innviðaráðuneytið færði okkur í ranga átt á þessum mælikvörðum með þingmálum sínum í vetur.

Í stað þess að skjóta sendiboðann hvet ég innviðaráðherra til að gera betur næsta vetur. Það verður best gert með þingmálum sem hafa jákvæð áhrif - en ekki bara göfug markmið. Við munum framkvæma úttektina aftur að ári liðnu og ég vona að efnahagsleg áhrif þingmála ráðuneytisins verði jákvæðari þá.

Björn Brynjúlfur Björnsson
framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. júlí 2024.

Tengt efni

Brotið gegn jafnræði í grunnskólum

Misræmi er á milli skólaeinkunna úr íslenskum grunnskólum, en nemendur með sömu ...
19. júl 2024

Þrjár áréttingar um grunnskólamál

Umsögn Viðskiptaráðs um áform stjórnvalda um endanlegt afnám samræmdra prófa ...
24. júl 2024

Spákaupmaðurinn ríkissjóður

Í stað þess að draga saman seglin í aðgerðum og stuðla að þannig lægra ...
26. júl 2024