Viðskiptaráð Íslands

Meira fyrir minna  - öllum til hagsbóta

Þrátt fyrir að við stöndum frammi fyrir miklum áhrifum af COVID-19 á allt samfélagið er um tímabundna áskorun að ræða og því mikilvægt að missa ekki sjónar af langtíma viðfangsefnum í rekstri hins opinbera.

Á undanförnum mánuðum höfum við verið rækilega minnt á það mikilvæga hlutverk sem hið opinbera gegnir á mörgum sviðum. Rétt eins og kórónuveirufaraldurinn lenti sem höggbylgja á atvinnulífinu hefur hann haft í för með sér gríðarlegar áskoranir fyrir alla starfsemi og innviði hins opinbera. Þetta á ekki síst við um þá starfsemi sem felst í félagslegu öryggisneti og mikilvægri grunnþjónustu.

Framleiðni er lykilorðið

Framundan eru svo fleiri áskoranir og það er í þessu ljósi sem Viðskiptaráð Íslands hefur gefið út ritið „Hið opinbera: Meira fyrir minna“. Að mörgu leyti stendur hið opinbera styrkum fótum, en því má ekki gleyma að ávallt þarf að leita tækifæra til að bæta þá mikilvægu þjónustu sem það veitir. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar illa árar. Í ritinu er lögð áhersla á það hvernig bæta megi verklag, nýta tækni og aðlagast breytingum í samfélaginu hratt og örugglega.

Framleiðni er þar lykilorðið. Aukin framleiðni er grunnforsenda allra framfara, en engu að síður heyrist það orð of sjaldan þegar rætt er um hið opinbera. Í samkeppnisrekstri fyrirtækja er slíkt ekki í boði þar sem sá sem dregst aftur úr í framleiðni mun einfaldlega verða undir í samkeppni, missa viðskipti og að endingu leggja upp laupana. Annað gildir um hið opinbera sem býr ekki við sama aðhald neytanda.

Vandasöm meðferð skattfjár

Ekki er þar með sagt að hið opinbera þurfi ekki að sníða sér stakk eftir vexti. Jafnvel má segja að gera ætti ríkari kröfu um framleiðni til hins opinbera en einkafyrirtækja í ljósi þess að starfsemi þess er fjármögnuð af skattgreiðendum. Líkt og fram kemur í ritinu eru merki um að hið opinbera hafi dregist aftur úr þegar litið er til framleiðni.

Fleira dregur úr hvata til aukinnar framleiðni hins opinbera, til dæmis sífelldur þrýstingur um aukin fjárframlög úr ríkissjóði. Þetta bera umsagnir um fjárlög glögglega með sér. Eðlilegt er að reglulega komi aukin fjárframlög í tiltekna málaflokka til skoðunar, en hafa ber í huga, líkt og í öðrum rekstri, að aukin útgjöld jafngilda ekki alltaf auknum árangri og á sama tíma gæti þurft að draga úr þeim á öðrum stöðum. Sjaldan heyrast hugmyndir um slíkt og oft er gengið út frá því að tekjuöflunarleiðir hins opinbera séu óendanlegar. Á Íslandi er skattheimta nú þegar með mesta móti í alþjóðlegum samanburði svo lítið svigrúm er fyrir aukna tekjuöflun ríkis og sveitarfélaga. Við blasir að eina leiðin til að svara ákalli um aukin útgjöld er með því að auka skilvirkni í rekstri hins opinbera.

Leiðarljós hins opinbera til framtíðar

Til að auka framleiðni hjá hinu opinbera þarf að ráðast í fjölbreyttar aðgerðir. Í skýrslu Viðskiptaráðs eru settar fram margvíslegar tillögur eins og um hækkun lífeyrisaldurs, sameiningar og breytt tekjumódel sveitarfélaga, aukin samvinna einka- og opinberra aðila, innleiðing stafrænna lausna og forgangsröðun í þágu grunnþjónustu, svo eitthvað sé nefnt.

Þrátt fyrir að við stöndum frammi fyrir miklum áhrifum af COVID-19 á allt samfélagið er um tímabundna áskorun að ræða og því mikilvægt að missa ekki sjónar af langtíma viðfangsefnum í rekstri hins opinbera. Tíminn til að ræða og rýna í hlutverk hins opinbera er ekki aðeins núna, heldur nú sem endranær. „Hið opinbera: Meira fyrir minna“ er innlegg Viðskiptaráðs Íslands í þá umræðu.

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 22.október 2020

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024