Viðskiptaráð Íslands

Minni sporslur - meiri laun

Deilur um launakjör hafa verið meginstef fjölmiðlaumræðu síðastliðin tvö ár. Um leið og kjarabaráttu einnar starfstéttar lýkur tekur barátta þeirrar næstu við. Allir eru sammála um að óbreytt ástand sé ótækt og engum til heilla. Engu að síður gengur illa að stilla saman strengi og ekki sér enn fyrir endann á átökunum. Ein af meginorsökum þessarar stöðu er skortur á upplýsingum og samræmi í launafyrirkomulagi. Væntingar samningsaðila byggjast oft á ólíkum forsendum og samanburður á milli ólíkra hópa er erfiður. Við slíkar aðstæður verður alltaf erfitt að ná sátt á vinnumarkaði. Til að draga úr þessum vanda þyrfti að einfalda og samræma launafyrirkomulag eftir fremsta megni. Þannig mætti tryggja aukna sátt um forsendur og réttmæti ólíkra launakrafna.

Semja um sinn hlutinn hvor
Fyrir starfsmenn skipta útborguð mánaðarlaun mestu máli. Vinnuveitendur horfa hins vegar á heildarkostnað vegna launa og launatengdra gjalda. Á milli þessara tveggja stærða er ansi breitt bil. Auk beinna launa greiða vinnuveitendur tryggingagjald og mótframlag til lífeyris. Því til viðbótar njóta starfsmenn orlofsréttinda og annarra fríðinda sem ekki koma fram á launaseðli. Til að geta greitt starfsmanni 500 þúsund krónur í grunnlaun þarf því að leggja út sem nemur 740 þúsund krónum á mánuði. Eftir lögboðnar skatt- og lífeyrisgreiðslur nema grunnlaunin um 340 þúsund krónum. Viðkomandi starfsmaður fær því innan við helming af launakostnaði vinnuveitanda útborgaðan. Undir slíkum kringumstæðum er ekki undarlegt að upplifun þessara tveggja aðila sé ólík. Þeir eru í raun að semja um sinn hlutinn hvor. Hægt er að draga úr þessum mismun með lækkun tryggingagjalds, tekjuskatts og útsvars samhliða afnámi samningsbundinna eingreiðslna.

Grunnlaun eða heildarlaun?
Stéttarfélög vísa gjarnan til grunnlauna í stað heildarlauna í sinni hagsmunabaráttu. Þannig eru grunnlaun ýmist borin saman við sömu stéttir erlendis eða samanburðarstétt innanlands. Flækjustig kjarasamninga fer sívaxandi og slíkur samanburður er því oft villandi. Hlutdeild grunnlauna í heildarlaunum skiptir þar lykilmáli. Á Íslandi er hlutdeildin lág í alþjóðlegum samanburði vegna hlutfallslega hárra álags- og yfirvinnugreiðslna. Jafnframt er hlutdeildin afar ólík á milli starfsstétta. Ef umræða um kjaramál á að geta farið fram á upplýstum grunni þarf að breyta þessu. Þannig er endurskoðun launakerfa eitt af lykilskrefunum í átt að aukinni sátt á vinnumarkaði. Í stað þess að freistast til að ljúka samningum með ógagnsæjum viðbótarréttindum ætti að stefna að auknu vægi grunnlauna. Þannig verður samanburður einfaldari og minna svigrúm fyrir talnaæfingar. Til lengri tíma eykur það traust á vinnumarkaði og er öllum til hagsbóta. 

Almenn epli – opinberar appelsínur
Að lokum er borin von að sátt ríki á vinnumarkaði án þess að réttindi opinberra og almennra starfsmanna verði samræmd. Ef litið er með heildstæðum hætti á starfskjör kemur í ljós að opinberir starfsmenn njóta margvíslegra réttinda sem launþegum á almennum vinnumarkaði standa ekki til boða. Þar ber helst að nefna tvöföld lífeyrisréttindi, ríflegri orlofsog veikindarétt, meira starfsöryggi, hagstæðara fæðingarorlof og víðtækari rétt til endur- og símenntunar. Engin málefnaleg rök liggja til grundvallar þessum umframréttindum. Þau torvelda hins vegar samanburð á launakjörum og eru þannig til þess fallin að afvegaleiða umræðu um kjaramál. Nýjar fregnir af samkomulagi SALEKhópsins um jöfnun lífeyrisréttinda þessara tveggja hópa marka vonandi fyrsta skrefið af fleirum í þá átt. Í því samhengi veldur þó vonbrigðum að KÍ og BHM skuli ekki hafa undirritað umrætt samkomulag. 

Aukið gagnsæi og traust
Ofangreindar tillögur skapa grundvöll fyrir hærri útborguðum grunnlaunum og upplýstari umræðu um kjaramál. Til að hrinda þeim í framkvæmd þarf framlag allra aðila vinnumarkaðarsins: hins opinbera, stéttarfélaga og almennra vinnuveitenda. Þær þurfa ekki að vera á kostnað einnar starfstéttar umfram aðra en myndu auka bæði gagnsæi og traust í kjaraviðræðum framtíðarinnar. Með það í huga væri um verðug skref í átt að varanlegum stöðugleika á vinnumarkaði að ræða.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember 2015, bls. 31

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024