Nær öll verkalýðsfélög landsins standa nú í verkfallsaðgerðum eða hafa boðað slíkar aðgerðir á komandi vikum. Ástæða boðaðra verkfalla eru kröfur um allt að 50% nafnlaunahækkanir á þriggja ára tímabili, sem hvorki viðsemjendur verkalýðsfélaganna hjá hinu opinbera né á almennum vinnumarkaði hafa samþykkt.
Haldi fram sem horfir er líklegt að samningar um verulegar nafnlaunahækkanir verði niðurstaðan. Verkfallsrétturinn veitir launþegum sterka samningsstöðu þar sem fæst fyrirtæki þola að starfsemi þeirra stöðvist í lengri tíma. Til marks um það hafa Samtök atvinnulífsins þegar lagt fram tilboð um 23,5% hækkun dagvinnulauna yfir þrjú ár en því tilboði var hafnað. Til samanburðar er það mat Seðlabanka Íslands að svigrúm til launahækkana nemi um 11% á sama tímabili.
Launahækkanir umfram svigrúm munu óhjákvæmilega leiða til aukinnar verðbólgu. Nýverið birtist grein eftir aðalhagfræðing Seðlabankans þar sem áhrif 30% nafnlaunahækkunar á næstu þremur árum voru áætluð. Niðurstaðan var sú að verðlag myndi hækka um 15% til viðbótar við nýjustu spá bankans. Verðbólga færi þannig yfir 7% á ári samanborið við 2,5% á ári ef samið væri um launahækkanir innan þess svigrúms sem er til staðar.
Tekjulágir berskjaldaðir gagnvart verðbólgu
Yfirskrift baráttudags verkalýðsins í ár var „jöfnuður býr til betra samfélag“ og endurómaði það sjónarmið í ræðum forsvarsmanna flestra verkalýðsfélaga á deginum. Hið þversagnakennda er að kröfugerðir verkalýðsfélaganna eru til þess fallnar að draga úr jöfnuði á sama tíma og forsvarsmenn þeirra gera kröfu um aukinn jöfnuð.
Ástæða þess er að tekjulægri einstaklingar eru berskjaldaðari gagnvart verðbólgu en þeir tekjuhærri. Tekjulágir verja hærri hluta launa sinna í neyslu, sem verður sífellt kostnaðarsamari eftir því sem verðlag hækkar. Tekjuháir hafa aftur á móti svigrúm til að leggja fyrir og fjárfesta í eignum sem veita þeim vörn gagnvart verðbólgu. Verðbólga kemur sér því verr fyrir þá tekjulægri og dregur þannig úr jöfnuði.
Neikvæð áhrif verðbólgu á jöfnuð eru mikil hérlendis samanborið við önnur ríki. Samkvæmt útgjaldatölum frá Hagstofu Íslands ver tekjulægsti fjórðungur Íslendinga ríflega helmingi hærra hlutfalli ráðstöfunartekna sinna í neyslu en sá tekjuhæsti. Aðstöðumunur þessara hópa þegar kemur að því að verja sig gagnvart verðbólgu er því mikill. Auk þess er verðtrygging útbreidd hérlendis. Geta tekjuhærri einstaklinga til að verja sig með beinum hætti gagnvart verðbólgu, til dæmis með fjárfestingu í verðtryggðum skuldabréfum, er því meiri en í mörgum öðrum ríkjum.
Barátta forstöðumanna verkalýðsfélaga fyrir auknum jöfnuði með ríflegum nafnlaunahækkunum getur vart talist skynsamleg. Slíkar hækkanir munu leiða til aukinnar verðbólgu sem vinnur gegn því markmiði. Standi vilji til að auka jöfnuð í samfélaginu væri líklegra til árangurs að að líta til þeirra aðferða sem önnur Norðurlönd hafa beitt. Þar hafa hóflegar nafnlaunahækkanir og lág verðbólga stutt við markmið um aukinn jöfnuð og stöðugt vaxandi kaupmátt á undanförnum áratugum.
Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist í Markaðnum, miðvikudaginn 13. maí