Hagsmunir af því að fæla ekki enn frekar burt erlenda fjárfestingu eru mikilsverðir og ótvíræðir.
Nýsköpun er samnefnari þess sem bætir samfélagið. Nýsköpun á sér stað í öllum atvinnugreinum, hún leysir samfélagsleg vandamál, hún skapar störf, er meginforsenda framleiðniaukningar, verðmætasköpunar og samkeppnishæfni þjóða. Jákvæðar breytingar hafa átt sér stað á síðustu árum í starfsumhverfi nýsköpunar á Íslandi og viðhorfi til mikilvægi þeirra. Því ber að sjálfsögðu að fagna.
Nýleg könnun sýnir þó að þrátt fyrir að aðilar í nýsköpunarfyrirtækjum séu jákvæðir fyrir framtíð nýsköpunar á Íslandi, telur meirihluti þeirra Ísland ekki vera ákjósanlegan stað fyrir fyrirtæki í örum vexti, eða alþjóðleg nýsköpunarfyrirtæki. Þar skiptir fjármögnunarumhverfið miklu. Nýsköpunarfyrirtæki eru að keppast um fjármagn á alþjóðlegu sviði og of mikilvægur þáttur í því að tryggja þeim frjósaman jarðveg er að greiða götu erlendrar fjárfestingar.
Þrátt fyrir að erlend fjárfesting sé nauðsynleg nýsköpun í atvinnulífinu, fjölgun útflutningsstoða og svo mætti lengi telja, mætti halda að stjórnvöld vinni gagngert gegn erlendri fjárfestingu. Við stöndum illa í alþjóðlegum samanburði og nú liggur fyrir frumvarp frá forsætisráðuneytinu um erlenda fjárfestingu sem, verði það að lögum, mun hafa umtalsverð og skaðleg áhrif.
Hlutfall beinnar erlendrar fjárfestingar af vergri landsframleiðslu, sem var ríflega 30% í fyrra, mælist svo lágt að Ísland skipar 61. sæti af 63 ríkjum í úttekt IMD háskólans á samkeppnishæfni ríkja fyrir árið 2022. Til samanburðar var hlutfallið um 56% af meðaltali innan OECD og 48% í heiminum öllum. Hlutirnir hafa jafnframt verið að þróast til verri vegar undanfarin ár en bein erlend fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu hefur dregist saman á Íslandi..
Það er ólíklegt að þetta sé tilviljun. Hömlur á erlenda fjárfestingu hér á landi eru um þrefalt meiri en gengur og gerist meðal OECD-ríkja. Aðeins tvö OECD-ríki búa við meiri hömlur en Ísland - Nýja-Sjáland og Mexíkó. Jafnframt ríkja meiri hömlur hér á landi í öllum atvinnugreinaflokkum, að fjölmiðlum undanskildum. Í ofanálag er þátttaka erlendra fjárfesta á íslenska hlutabréfamarkaðnum afar lítil.
Hvað segir þetta okkur? Jú, að það er mun erfiðara fyrir fyrirtæki hérlendis, einkum á fyrstu stigum, að sækja sér erlent fjármagn en fyrir samkeppnisfyrirtæki í nágrannalöndum.
Frumvarpi forsætisráðuneytisins er ætlað að gera stjórnvöldum kleift að tryggja að fjárfestingar erlendra aðila hérlendis raski ekki þjóðaröryggi. Allir ættu að geta fallist á að slíkt markmið sé gott og gilt. Undir þeim formerkjum eru þó lagðar til verulegar takmarkanir á alla erlenda fjárfestingu í fjölmörgum fyrirtækjum. Í núverandi mynd eru þær takmarkanir það víðtækar að verði frumvarpið að lögum verður stór hluti alþjóðlegrar fjárfestingar í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum leyfisskyld. Fjárfestingar í fyrirtækjum sem hafa lítið sem ekkert með þjóðaröryggi og mikilvæga innviði að gera. Þá eru fleiri takmarkanir í frumvarpinu, sem eru til þess fallnar að hafa fælandi áhrif á erlenda fjárfestingu, til að mynda þriggja mánaða tímafrestur ráðherra til að veita fjárfestingu heimild. Það getur varla verið markmið ríkisstjórnarinnar, sem hefur annars lýst yfir miklum stuðningi við nýsköpun og lagt áherslu á að styrkja hana, að valda slíku tjóni sem frumvarp þetta boðar.
Hagsmunir af því að fæla ekki enn frekar burt erlenda fjárfestingu eru mikilsverðir og ótvíræðir. Umgjörð erlendrar fjárfestingar hérlendis er nú þegar óhagfelld og hefur orðið til þess að slík fjárfesting er óvíða minni meðal þróaðra ríkja en á Íslandi. Frumvarp forsætisráðuneytisins eykur enn á þann vanda. Því er mikilvægt að frumvarpinu verði breytt og að valin verði leið sem feli ekki í sér stórkostlegar hindranir, ætli stjórnvöld ekki að horfa fram á flótta nýsköpunarfyrirtækja frá landinu og varanlegan skaða fyrir íslenskt samfélag.
Greinin birtist fyrst á vb.is 21. nóvember 2022.
Agla Eir Vilhjálmsdóttir er lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.