Viðskiptaráð Íslands

Nýtum góðærið til nýsköpunar

Í málefnasáttmála ríkisstjórnarinnar kemur orðið „nýsköpun“ fyrir á átján stöðum. Þessi áhersla kemur líklega ekki á óvart enda er öllum ljóst að sköpun nýrra verðmæta er grundvallarforsenda áframhaldandi velmegunar og velsældar í samfélaginu. Enn fremur eykst stöðugt umræða um svokallaða fjórðu iðnbyltingu sem líkleg er til þess að umturna atvinnuháttum á mörgum sviðum, með tilheyrandi óvissu og umbreytingu á atvinnuháttum.

Ísland er vitaskuld ekki eina landið sem stendur frammi fyrir þeirri framtíðaróvissu sem tækniframfarir bera með sér. Ríkisstjórnir víða um lönd keppast við að sníða stefnu sína þannig að hún leggi sem traustastar stoðir undir efnahags- og atvinnulíf þjóðanna.

Í Danmörku hefur forsætisráðherra til að mynda komið á fót svokölluðu „Disruptionrådet“ – eins konar straumhvarfaráði, sem hefur það hlutverk að vera samstarfs- og samvinnuvettvangur til að tryggja að Danmörk verði samkeppnishæf í stafrænum heimi.

Í Eistlandi hafa yfirvöld gengið svo langt að skilgreina sig sem „stafræna þjóð“ til þess að undirstrika að öll opinber ákvarðanataka skuli taka mið af kröfum hins stafræna samfélags. Eistlendingar bjóða til dæmis upp á svokallaða stafræna búsetu (e-residency) sem gerir netfyrirtækjum kleift að skrá starfsemi sína þar í landi óháð landfræðilegri legu, öll samskipti hins opinbera við borgarana eru á stafrænu formi og 95% allra heilbrigðisupplýsinga hafa verið færð á stafrænt form með tilheyrandi hagræði. Eistnesk stjórnvöld hafa enn fremur verið fljót að tileinka sér nýjustu tækni, til dæmis í öryggismálum gagna, þar sem þeir nýta dulkóðunaraðferðina blockchain. Eistlendingar skera sig að því leyti verulega frá þeirri staðalmynd sem gjarnan er um ríkisvald að það sé ætíð nokkrum skrefum á eftir nýjustu þróun.

Eins og dæmin frá Danmörku og Eistlandi sýna hefur hugtakið „nýsköpun“ smám saman vaxið úr því að vera innantómt skrautyrði stjórnmálamanna í raunverulegan áttavita sem allir þurfa að taka mið af. Áherslan á hugtakið nýsköpun í stjórnarsáttmálanum íslenska bendir eindregið til þess að sama hugsun hafi skotið rótum meðal íslenskra stjórnmálamanna og að einlægur vilji sé til þess að tryggja að Íslendingar verði ekki eftirbátar annarra þjóða í undirbúningi fyrir þær tækni- og samfélagsbreytingar sem eru yfirstandandi.

Fyrirtæki sem byggja á þekkingu og sköpun munu standa undir sívaxandi hluta verðmætasköpunar í heiminum, og það verður í þannig fyrirtækjum sem áhugaverðustu og bestu störfin verða til. Þess vegna leggja flestar þjóðir áherslu á að skapa hvata og umhverfi sem auðveldar slíka starfsemi, til að mynda með endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði. Til þess að tryggja að fyrirtæki, sem geta verið staðsett hvar sem er í heiminum, velji starfsemi sinni vettvang á Íslandi þarf umgjörð nýsköpunarstarfsemi að vera samkeppnishæf. Þar skiptir meðal annars miklu máli að fjárhagslegir hvatar laði þau að frekar en fæli frá.

Flest þau ríki sem við eigum í samkeppni við hafa gripið til þess ráðs að bjóða upp á endurgreiðslur til fyrirtækja sem leggja stund á rannsóknir og þróun. Þetta gera íslensk stjórnvöld einnig, en þó í töluvert minni mæli en mörg önnur ríki. Ef Ísland á að vera samkeppnishæfur vettvangur fyrir stór nýsköpunarfyrirtæki þarf að afnema hámark á slíkum endurgreiðslum þróunarkostnaðar (sem nú er 300 milljónir), og ef Ísland vill vera ákjósanlegur staður fyrir sprotafyrirtæki þarf að hækka það hlutfall kostnaðar sem fæst endurgreiddur (er nú 20%).

Efnahagsaðstæður á Íslandi eru nú með allra besta móti. Slíkt góðæri þarf að nýta til þess að tryggja þær undirstöður sem hægt er að treysta á þegar í harðbakkann slær. Rétti tíminn til þess að standa við hin góðu fyrirheit stjórnarsáttmálans er því núna.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 1. febrúar 2018

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024