Ólympíuleikar í loftslagmálum

"Ísland er ekki lítið land. Ísland er stórasta land í heimi," sagði Dorrit Moussaieff, fyrrum forsetafrú, þegar íslenska landsliðið í handbolta tryggði sér silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í  Peking. Ódauðleg setning, ekki síst vegna þess að hún grípur á einlægan hátt vilja okkar til að skara fram úr og keppa við fjölmennari þjóðir á alþjóðasviðinu. 

María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs

Það er ekkert að því að vilja standast alþjóðlegan samanburð og reyndar eitthvað sem við eigum alla jafna að keppast að sem þjóð. En samanburðurinn verður að vera sanngjarn og forsendur sambærilegar svo keppnin sé jöfn. Þessu hafa íslensk stjórnvöld klikkað á þegar kemur loftslagsmálum. 

Sérstaða landsins ekki virt 

Þrátt fyrir að hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á landi sé með því hæsta sem þekkist í heiminum stilla sumir okkur upp sem umhverfis- og loftslagssóðum, aðallega vegna þess að losun á mann er talin há. Þetta sjónarhorn tekur hins vegar ekki tillit til þess að Íslendingar eru fámenn framleiðsluþjóð. Ef losun á hverja einingu landsframleiðslu væri svipuð hjá öðrum þjóðum og hún er hjá okkur, væri markmiðum heimsbyggðarinnar um samdrátt í losun þegar náð. Við erum nefnilega framúrskarandi umhverfisvæn þegar litið er til losunar miðað við þjóðartekjur og framleiðslu. Verðmætasköpun, sem er undirstaða velferðar, er nær hvergi grænni en á Íslandi. 

Því miður hafa stjórnvöld ekki tryggt að sérstaða landsins sé virt í alþjóðlegum loftslagsskuldbindingum. Þvert á móti virðumst við gefa þessa sérstöðu eftir, bæði hvað varðar fjarlægð landsins frá meginlandi Evrópu og einstaka aðstæður okkar. Þar sem ekki er tekið tillit til íslenskra aðstæðna við mótun loftslagsmarkmiða, og þar sem hlutfall endurnýjanlegrar orku er hér margfalt hærra en t.d. innan ESB, eru möguleikar okkar til að draga úr losun takmarkaðri. Þetta leiðir til þess að markmiðum verður aðeins náð með því að leggja þyngri byrðar á íslenskt samfélag en annars staðar. 

Keppni um nýjar kvaðir 

Þessu til viðbótar hyggjast íslensk stjórnvöld ganga lengra en aðrar þjóðir. Við ætlum ekki aðeins að uppfylla Parísarsamkomulagið um 40% samdrátt, né heldur láta duga að fylgja ESB og Noregi um 55% heildarsamdrátt í losun og kolefnishlutleysi árið 2050. Við ætlum að draga meira úr svokallaðri samfélagslegri losun og ná kolefnishlutleysi árið 2040.  

Til að ná þessum markmiðum hafa stjórnvöld nú lagt fram 150 nýjar aðgerðir í loftslagsmálum. Aðgerðirnar eiga flestar sammerkt að auka óhagkvæmni, leggja á nýjar álögur eða þyngja reglubyrði. Það dugir því ekki að við undirgöngumst sömu skuldbindingar og nágrannaþjóðirnar. Hér þarf að setja sérreglur og viðbótarkvaðir sem þyngja róðurinn fyrir íslenskt atvinnulíf.  

Tökum þátt á réttum forsendum 

Samkeppnishæfni er grundvöllur blómlegs atvinnulífs á Íslandi. Án þess er ekki hægt að fjárfesta í endurnýjanlegri orku, hagkvæmari innviðum eða grænni tækni. Áform stjórnvalda, sem fela í sér nýjar kvaðir, skatta og takmarkanir á athafnafrelsi, hægja á frekari framþróun og þyngja byrðar þeirra sem standa undir lífskjörum í landi þar sem verðmætasköpun er þegar umhverfisvæn. 

Ef fram heldur sem horfir munu íslensk fyrirtæki ekki aðeins búa við skerta samkeppnishæfni og íþyngjandi regluverk, heldur einnig þurfa að kaupa losunarheimildir fyrir verulega fjármuni. Á sama tíma er græn orka að verða uppseld vegna skorts á nauðsynlegri uppbyggingu framleiðslu og dreifingar. Afleiðingin er að við brennum dýru og óumhverfisvænu jarðefnaeldsneyti að óþörfu. 

Það er sjálfsagt að einstaklingar og fyrirtæki setji sér metnaðarfull markmið í umhverfis- og loftslagsmálum. Þá þarf aðkoma stjórnvalda að byggja á íslenskum hagsmunum, taka mið af okkar aðstæðum og leggja ekki óþarfa byrðar á íslenskt samfélag. Lengi má gott bæta og við getum vel verðskuldað gull í loftslagsmálum - ef við keppum á réttum forsendum 


María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. ágúst 2024

Tengt efni

Nýjar tillögur starfshóps gegn gullhúðun

Tillögur starfshóps miða að því að auka gæði lagasetningar við innleiðingu ...
19. jún 2024

Umsögn um valkosti og greiningu á vindorku

Umsögn Viðskiptaráðs um valkosti og greiningu á vindorku - skýrslu starfshóps, ...

Icelandic Economy 2F 2023

Viðskiptaráð hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic Economy. ...
28. apr 2023