Ákveðins misskilnings gætir í umræðu um samkeppnismál þegar fullyrt er að einsleitni í verði á vörum og þjónustu sé til marks um samráð. Í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku sakaði verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ lágvöruverðsverslanir engu að síður um „þögult samráð“ þar sem verðlagning þeirra á vörum er svipuð. Ásakanir um samráð eru ekki léttvægar og því ætti að fara varlega í slíkar yfirlýsingar.
Einsleitt verð getur vissulega verið einkenni samráðs - en það er líka einkenni virkrar samkeppni. Þetta er kannski ekki auðskilið og því ágætt að reyna að taka einfalt dæmi. Ímyndum okkur markað þar sem samkeppni ríkir, t.d. um sölu á kaffi. Dag einn taka seljendur sig saman og semja um að hækka verðið til að auka hagnað hvers og eins. Niðurstaðan verður sú að allir á markaðinum selja kaffið á sama háa verðinu. Allir verða að spila með í samráðinu til að halda verðinu uppi því ef einn lækkar verðið að þá hópast allir kaffineytendur þangað og hinir tapa.
Hvað ef heilbrigð virk samkeppni ríkti á þessum sama kaffimarkaði en ekkert samráð? Það nákvæmlega sama myndi gerast, þ.e. kaffiverð væri svipað eftir samkeppnisaðilum en þó lægra en ef um samráð væri að ræða. Sá sem myndi verðleggja kaffið of hátt myndi fljótlega tapa öllum sínum viðskiptavinum til þeirra sem lægra verð hefðu. Í heilbrigðri samkeppni er niðurstaðan því svipuð og ef um samráð væri að ræða, þ.e. verðið helst einsleitt. Eðli markaða er ólíkt svo að einsleitni í verði getur verið misjafnt - en niðurstaðan er engu að síður sú sama: Einsleit verðlagning segir lítið sem ekkert um hvort samráð sé til staðar.
Til að geta sagt nokkuð um samráð, þögult eða ekki, eða hversu virk samkeppni er þarf að setja verðlagningu í samhengi við afkomu, launakostnað, fjármagnskostnað, markaðsaðstæður og fleira. Jafnvel þó slíkar upplýsingar liggi fyrir nægja þær ekki sem sönnun fyrir samráði. Í þessu samhengi má þó nefna að hagnaður á íslenskum smásölumarkaði var 4% af tekjum árið 2016 skv. Hagstofunni, launakostnaður fyrirtækja hefur hækkað um 36% á fjórum árum, fjármagnskostnaður á Íslandi er meiri en í nágrannalöndunum og samkeppni fer frekar harðnandi með innreið erlendra aðila og aukinni netverslun.
Þannig virðist ekkert tillit tekið til ofangreindra þátta í fullyrðingum og röksemdafærslu fulltrúa ASÍ. Í fyrrnefndri frétt bendir fulltrúi ASÍ enn fremur á að innkoma Costco hafi sannað að um þögult samráð sé að ræða þar sem svigrúm hafi verið til verðlækkana. Vert er að benda á að styrking krónunnar skilaði sér í lægra vöruverði til neytenda ári áður en Costco opnaði en innfluttar mat- og drykkjarvörur lækkuðu um 10,5% frá ársbyrjun 2016 þar til Costco opnaði 2017. Síðan þá hefur verðið aftur á móti hækkað um 1%. Fleira kemur til, þar á meðal fyrrgreindir þættir sem þrýsta þó frekar verði upp á við ef eitthvað er. Því er ekki að sjá að einhverskonar samráð hafi haldið aftur af verðlækkunum – þvert á móti.
Viðskiptaráð hefur í yfir heila öld stutt virka samkeppni og jafnan samkeppnisgrundvöll fyrirtækja á Íslandi. Í raun finnast fáir sem eru mótfallnir samkeppni, enda er hún mikilvægt afl framfara og bættra lífskjara allra. ASÍ og Viðskiptaráð eru að öllum líkindum í meginatriðum sammála um þetta. Aðhald neytenda er líka af hinu góða og eðlilegur hluti af virkri samkeppni. Það réttlætir þó ekki að hrópa samráð séu verð einsleit.
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, þann 15. september 2018.