Viðskiptaráð Íslands

Samhljómur

Eftir vel heppnað Viðskiptaþing í síðustu viku, þá kom orðið „samhljómur“ upp í huga mér, þegar ég mat hvaða hughrif dagurinn veitti mér. Samhljómur sem margir hafa kallað eftir og loksins fannst mér við vera að nálgast að slá sama tóninn. Ég hef ítrekað í ræðum mínum og ritum – rætt um að láta af sundurlyndispúkanum – enda finnst mér sundurlyndi sóun á orku hjá lítilli þjóð eins og okkar. Ég skynjaði slíka samfélagssátt strax við upphaf stjórnarmyndunarviðræðanna, þar sem m.a. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, kom fram af auðmýkt með því að tala um að hennar flokkur endurspeglaði 17% fylgi á Alþingi Íslendinga, og því þyrfti að vinna saman – og öll vitum við niðurstöðuna af því.

En aftur að Viðskiptaþingi og þeim samhljómi sem ég skynjaði þar. Í ræðu minni var mér tíðrætt um nýsköpun í víðasta skilningi – nýsköpun sem varðar okkur öll. Við þurfum öll að horfa til umhverfis okkar og velta fyrir okkur hvernig við getum breytt hefðbundnum aðferðum og hefðbundnum leiðum í nýjar leiðir með nýsköpun. Enda hef ég þá trú að í þeim miklu breytingum sem við erum að ganga í gegnum – þar sem hægt væri að leysa 50% þeirra starfa sem nú er sinnt í dag, með tækni sem nú þegar er til, skv. Mckinsey – þá liggi í því stórkostleg tækifæri til framtíðar. Auðvitað þurfum við að vera meðvituð um þær miklu breytingar sem eru að eiga sér stað og áhrif þeirra á mörg störf, huga þarf því að endurmenntun þeirra sem mest munu finna fyrir þeim. Mér fannst áhugaverð dæmi sem báðir fyrirlesarar okkar á Viðskiptaþingi nefndu, en það var að skapa sameiginlega framtíðarsýn þvert á þjóðfélagið um þau tækifæri sem liggja í þessum breytingum – því ef það er ekki gert er hætta á misvægi í samfélaginu sem getur hindrar alla framfarir. Við þurfum að huga að því hvernig við ætlum að mennta fólk til framtíðar- og þar fannst mér Lilja Alfreðsdóttir sýna leiðtogahæfileika, þegar hún nefndi í pallborðsumræðum á Viðskiptaþinginu að hún vildi að Ísland yrði í fremstu röð hvað varðar menntun eftir 10 ár. Það er metnaðarfullt markmið sem alveg er hægt að ná, ef viljinn er til staðar. Við þurfum einnig að upphefja sérkenni okkar sem þjóð – þar kemur dugnaðurinn og eljan sterkt inn, sem og hugmyndaauðgi. En skv. Andrew McAfee þá þarf til framtíðar hugmyndaauðgi, að kunna að leysa flókin vandamál, að hafa ástríðu og að geta lesið úr tölum. Tölvur eru víst fyrir löngu búnar að taka fram úr okkur þegar kemur að flóknum stærðfræðiþrautum.

Annað sem ég fann samhljóm um var hvað fjölbreytileikinn skiptir miklu máli – bæði kom forsætisráðherra inn á þetta í sinni ræðu sem og ég í minni. Allar rannsóknir á þessu sviði – meðal annarra frá Mckinsey – leiða til þeirrar niðurstöðu að fjölbreytileiki skili hagsæld og arðsemi. Ég hef talað um fjölbreytileika á mörgum sviðum – aldur, kyn, þjóðerni, rekstarform og atvinnugreinar. Hugum því að fjölbreytileikanum til framtíðar. Þá komum við nöfnurnar báðar að #metoo byltingunni – ég velti fyrir mér hvers vegna konur innan viðskipta hefðu ekki komið fram undir merkjum #metoo – og kastaði þeirri spurningu til salarins hvort að það gæti verið útfrá þeirri staðreynd að eingöngu 8% kvenna stýra 400 stærstu fyrirtækjum landsins – sem er ekki mikill fjölbreytileiki. En við hjá Viðskiptaráði getum þó verið sátt með að við jukum fjölbreytileikann í stjórn ráðsins – núna eru fleiri atvinnugreinar sem eiga sæti í stjórn, meiri breidd hvað varðar stærð fyrirtækja og við fórum úr 27% hlutfalli kvenna yfir í 47% - mikil ánægja með það.

Gott Viðskiptaþing er að baki – þar sem stjórnvöld voru hvött til þess að huga að stefnumótun Íslands til framtíðar og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kynnti þrjú verkefni sem öll lúta að slíkri stefnumótun. Hið fyrsta er tvíþætt og ætlað Samráðsvettvangi um aukna hagsæld – þar sem vettvangnum er annars vegar ætlað að gera aðgerðaráætlun um áhrif 4. iðnbyltingarinnar á íslenskt atvinnulíf og vinnumarkað og hinsvegar sérstök umfjöllun Samráðsvettvangsins um kolefnalaust Ísland árið 2040. Þá mun Vísinda- og tækniráð fjalla um þátt vísinda og horfa til menntunar, grunnrannsókna og hvernig við getum aukið nýsköpun. Að lokum mun framtíðarnefnd Alþingis fjalla um Íslands til framtíðar m.a. með þróun löggjafar og fleira.

Viðskiptaráð mun ekki láta sitt eftir liggja með að horfa til framtíðar og höfum við sett stefnuna á fjórar framtíðarlinsur, stafrænu linsuna, mannauðslinsuna, umhverfislinsuna og tengslalinsuna. Okkur finnst því ánægjulegt að slíkum verkefnum sé ýtt úr vör. Ég hef því aldrei verið bjartsýnni fyrir hönd þessarar þjóðar – samhljómur er málið.

Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 22. febrúar, 2018

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024