Viðskiptaráð Íslands

Skítur er afbragðs áburður

Stuttu eftir vodka-blautan hádegisverð með Yeltsin, á þeim tíma sem Rússar neituðu að yfirgefa Eystrasaltsríkin, sagði nýkrýndur forseti Eistlands, Lennart Meri: „Ástandið er skítt en við ætlum að nýta það sem áburð inní framtíðina“. Miðað við raunir Eistlands á þessum tíma er óhætt að segja að Lennart Meri hafi séð glasið hálf fullt.

Frá því hann lét þessi orð falla árið 1992 og til dagsins í dag hefur orðið ríkuleg spretta í Eistlandi. Landið er orðið suðupunktur nýsköpunar með flest sprotafyrirtæki miðað við höfðatölu í Evrópu. Þau eru driffjöður stafrænnar stjórnsýslu þar sem 99% af allri opinberri þjónustu er rafræn og kaus tæpur helmingur þjóðarinnar rafrænt í síðustu kosningum. Allt þetta segja þau að hafi sparað ígildi 800 ára af skriffinsku. Takk fyrir pent. Og kannski er rúsínan í pylsuendanum að tróna í efsta sæti PISA-könnunar OECD 2019. Svo þrátt fyrir yfirstandandi heimsfaraldur má fullyrða að í stóru myndinni er framtíðin björt í Eistlandi.

En hver ætli séu innihaldsefnin í þessum áhrifaríka eistneska áburði? Með takmarkaðar náttúruauðlindir var ákveðið að búa þannig um jarðveginn að hann væri sem næringarríkastur fyrir einstaklingsframtakið. Má þar nefna flatan tekjuskatt, niðurfellingu opinberra gjalda, aðhald í kostnaði hins opinbera og auðvelda stofnun og rekstur fyrirtækja. Innan menntakerfisins hefur frelsið svo að miklu leyti verið sett í hendur kennarans frekar en staðreyndarlærdóm aðalnámskrár. Eins og við þekkjum t.d. frá Finnlandi.

Þegar við erum að upplifa mesta samdrátt á Íslandi í 100 ár ætla ég ekkert að skafa af því, ástandið er skítt! En núna er þá kannski tækifærið til að fara leið Eista og nýta það sem áburð inn í framtíðina. Glasið okkar getur líka verið hálf-fullt.

Steinar Þór Ólafsson, sérfræðingur hjá Viðskiptaráði Íslands.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 27.08.2020.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024