Um árabil hafa almenningur, stéttarfélög, atvinnulífið og stjórnmálaflokkar kallað eftir því að Ísland byggi upp fjölbreyttari útflutningsgreinar sem eru ekki háðar náttúruauðlindum og geta skapað vel borgandi og verðmæt störf. Viðskiptaráð hefur kallað þessar atvinnugreinar alþjóðageirann og var lögð sérstök áhersla á hann á nýlafstöðnu Viðskiptaþingi, Hugsum stærra: Ísland í alþjóðasamkeppni. Jafnframt var gefin út skýrsla sem sýnir svart á hvítu að þrátt fyrir þennan vilja og ýmsar framfarir þarf að gera miklu betur. Alþjóðageirinn hefur aðeins vaxið um tæp 3% árlega síðasta áratug sem er rétt svo nægur vöxtur til að halda í við hagvöxt.
Spyrja má hvers vegna ekki hafi tekist betur til þrátt fyrir þennan sýnilega áhuga. Vantar að athafnir fylgi orðum? Skortir skilning? Skortir stefnu? Líkega má finna skýringarnar með því að svara þessum spurningum. Til dæmis virðist oft sem áhrif lagasetningar á alþjóðageirann gleymist. Gott dæmi er fyrirliggjandi lagafrumvarp um gjaldeyrislög þar sem lagt er til að ráðherra geti með reglugerð komið á fjármagnshöftum líkt og lögð voru á árið 2008. Fjármagnshöft eru eitur í beinum erlendra fjárfesta en fjármagn, tengingar og reynsla frá þeim er nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að byggja upp sérhæfða hugvitsdrifna starfsemi sem keppir á alþjóðamörkuðum. Jafnvel þótt allir geri ráð fyrir að þetta sé algjört neyðarúrræði, virkar þetta sem rautt ljós í augum erlendra fjárfesta.
Eins og skýrsla Viðskiptaráðs sýnir þurfa margir þættir að ganga upp til að hægt sé að byggja upp enn öflugri alþjóðageira sem raunverulega breikkar útflutningsstoðir Íslands. Til að ná betri árangri þurfa stjórnvöld að marka sér skýra stefnu sem þarf að spanna breytt svið, allt frá menntakerfi og grunnþjónustu við íbúa yfir í umgjörð fjármálakerfisins. Ráðast þarf í framhaldinu í markvissar aðgerðir og má þá benda á að í fyrrnefndri skýrslu má finna tillögur alþjóðahóps Viðskiptaráðs í 22 liðum um rekstrarumhverfi, mannauð og fjárfestingar.
Lykilatriðið er að stefnan sé í forgangi hjá stjórnvöldum og að unnið sé að henni þvert á stofnanir og ráðuneyti. Þetta þarf ekki að þýða að aðrir málaflokkar líði fyrir breyttar áherslur enda vill svo til að það sem gagnast alþjóðageiranum er hagfellt fyrir samfélagið í heild. Til dæmis er mikilvægt að hér sé rekið gott mennta- og heilbrigðiskerfi svo að fólk sjái ástæðu til að búa og starfa á Íslandi, en einn af flöskuhálsum alþjóðageirans er skortur á erlendum sem innlendum sérfræðingum. Það er líka gríðarlega mikilvægt fyrir sjálfa grunnþjónustuna að til staðar séu fjölbreyttar og kröftugar útflutningsgreinar sem eru forsenda nægra skatttekna og öflugs kaupmáttar almennings og starfsfólks í opinbera geiranum.
Í ljósi alls ofangreinds og metatvinnuleysis er ljóst að uppbygging hugvitsdrifins útflutnings í alþjóðageiranum er eitt stærsta ef ekki stærsta hagsmunamál Íslands og mun hafa afgerandi áhrif á hagsæld. Í komandi alþingiskosningum er því eðlilegt að gera kröfu til að flokkarnir sýni vel á spilin um það hvernig þeir ætla að tryggja að ótakmörkuð tækifæri alþjóðageirans gangi okkur ekki úr greipum.
Sveinn Sölvason, formaður alþjóðahóps Viðskiptaráðs Íslands og fjármálastjóri Össurar
Greinin birtist fyrst í Viðskiptamogganum 9. júní 2021.