Nú á 25 ára afmæli EES-samningsins hefur umræða um þennan mikilvægasta alþjóðasamning Íslands aldrei verið meiri. Það er gott – samningurinn er ekki hafinn yfir gagnrýni og umræðan er nauðsynleg til að stuðla að sem bestri framkvæmd samningsins og að hún sé í samhengi við aðra stefnumótun stjórnvalda.
Kostir EES ótvíræðir
Kostir EES-samningsins eru margir. Hann veitir íslenskum almenningi og fyrirtækjum í 350 þúsund manna hagkerfi tækifæri til að eiga viðskipti við og vera í tengslum við fólk og fyrirtæki í 500 milljóna hagkerfi. Sýnt hefur verið að samningurinn örvi viðskipti og stuðli að aukinni samkeppni, almenningi til góðs. Ennfremur er samningurinn grundvallarforsenda þess að mörg, ef ekki öll, íslensk fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni geti starfað hér á landi. Um þetta er nánar fjallað víða, t.d. í umsögn Viðskiptaráðs um þriðja orkupakkann.
Heimatilbúnir gallar
En fátt er svo með öllu gott að ekki boði nokkuð illt. Flókið og áhrifamikið fyrirbæri eins og EES-samningurinn hefur óhjákvæmilega galla. Hagsmunir Íslands og Evrópska efnahagssvæðisins í heild geta t.d. stangast á, sem sýnir að íslensk stjórnvöld og hagsmunaaðilar þurfa að stunda öfluga hagsmunagæslu á vettvangi EES og ESB.
Þó að þriðji orkupakkinn sé jákvætt og nauðsynlegt skref er umræðan um hann víti til varnaðar. Fjölmiðlaumræða um orkupakkann var bókstaflega engin fyrr en árið 2018 samkvæmt Fjölmiðlavaktinni. Það er einu ári eftir að sameiginlega EES-nefndin færði hann undir EES-samninginn og níu árum eftir að pakkinn var innleiddur í ESB. Það er svipað og ef lagafrumvarp færi rólega, þegjandi og hljóðalaust í gegnum Alþingi án umsagna og umræðu en svo færi öll umræða af stað þegar blekið á lögunum væri þornað á Bessastöðum. Væri orkupakkinn slæmur, sem hann er ekki, er lærdómurinn því augljós: Hagsmunagæsla í tengslum við EES-samstarfið þarf að vera markvissari og öflugri. Bregðast þarf mun fyrr við ef kalla þarf eftir undanþágum eða hafa áhrif á innleiðingu EES-gerða. Það er ekki vandamál hinna EES-ríkjanna – það er vandamál okkar.
Annar stór galli er hvernig EES-regluverk er innleitt. EES-regluverk miðar að því að samræma leikreglur milli landa á afmörkuðum sviðum og örva þannig viðskipta- og efnahagstengsl. Þrátt fyrir þetta er iðulega lengra gengið hér á landi en þörf þykir og bætt inn séríslenskum íþyngjandi ákvæðum, sem nágrannalönd okkar gera ekki. Um þetta er fjallað í nýlegri skoðun Viðskiptaráðs: „Gömul vísa en ekki of oft kveðin: Regluverk á Íslandi er of íþyngjandi.“ Það sama gildir því hér – reglubyrði EES á Íslandi er því að miklu leyti okkar vandamál en ekki EES og því þarf að breyta.
Heimsmet í þyngslum regluverks?
Rannsóknir sýna að of íþyngjandi regluverk getur dregið úr almennri hagsæld. Í fyrrnefndri skoðun er til dæmis fjallað um að reglugerðabreytingum hafi fjölgað síðasta áratug og að aðgengi að þeim sé lélegt. Ennfremur kemur Ísland verst út í norrænum samanburði á lykilþáttum regluverks og þá mælist Ísland með mest íþyngjandi regluverk í þjónustugreinum meðal OECD-ríkja. Þess vegna er réttmætt að spyrja hvort Ísland eigi heimsmet í íþyngjandi regluverki.
Betri samningur – meiri lífsgæði
Til mikils er að vinna með bættri framkvæmd EES-samningsins hér á landi, sem getur falist í öflugri hagsmunagæslu og að innleiðing EES-regluverks sé ekki meira íþyngjandi en nauðsyn krefur. Annars vegar hinn augljósi ávinningur sem fólginn er í skilvirkara og fyrirsjáanlegra regluverki fyrir fólk og fyrirtæki. Hins vegar, sem er kannski ekki eins augljóst, verður EES-samningurinn einfaldlega hagfelldari og skilar landsmönnum enn meiri lífsgæðum en hann hefur nú þegar gert.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 19. júlí 2019