Viðskiptaráð Íslands

Stærstu gallar EES eru heimatilbúnir

Nú á 25 ára af­mæli EES-samn­ings­ins hef­ur umræða um þenn­an mik­il­væg­asta alþjóðasamn­ing Íslands aldrei verið meiri. Það er gott – samn­ing­ur­inn er ekki haf­inn yfir gagn­rýni og umræðan er nauðsyn­leg til að stuðla að sem bestri fram­kvæmd samn­ings­ins og að hún sé í sam­hengi við aðra stefnu­mót­un stjórn­valda.

Kost­ir EES ótví­ræðir

Kost­ir EES-samn­ings­ins eru marg­ir. Hann veit­ir ís­lensk­um al­menn­ingi og fyr­ir­tækj­um í 350 þúsund manna hag­kerfi tæki­færi til að eiga viðskipti við og vera í tengsl­um við fólk og fyr­ir­tæki í 500 millj­óna hag­kerfi. Sýnt hef­ur verið að samn­ing­ur­inn örvi viðskipti og stuðli að auk­inni sam­keppni, al­menn­ingi til góðs. Enn­frem­ur er samn­ing­ur­inn grund­vallar­for­senda þess að mörg, ef ekki öll, ís­lensk fyr­ir­tæki í alþjóðlegri sam­keppni geti starfað hér á landi. Um þetta er nán­ar fjallað víða, t.d. í um­sögn Viðskiptaráðs um þriðja orkupakk­ann.

Heima­til­bún­ir gall­ar

En fátt er svo með öllu gott að ekki boði nokkuð illt. Flókið og áhrifa­mikið fyr­ir­bæri eins og EES-samn­ing­ur­inn hef­ur óhjá­kvæmi­lega galla. Hags­mun­ir Íslands og Evr­ópska efna­hags­svæðis­ins í heild geta t.d. stang­ast á, sem sýn­ir að ís­lensk stjórn­völd og hags­munaaðilar þurfa að stunda öfl­uga hags­muna­gæslu á vett­vangi EES og ESB.

Þó að þriðji orkupakk­inn sé já­kvætt og nauðsyn­legt skref er umræðan um hann víti til varnaðar. Fjöl­miðlaum­ræða um orkupakk­ann var bók­staf­lega eng­in fyrr en árið 2018 sam­kvæmt Fjöl­miðlavakt­inni. Það er einu ári eft­ir að sam­eig­in­lega EES-nefnd­in færði hann und­ir EES-samn­ing­inn og níu árum eft­ir að pakk­inn var inn­leidd­ur í ESB. Það er svipað og ef laga­frum­varp færi ró­lega, þegj­andi og hljóðalaust í gegn­um Alþingi án um­sagna og umræðu en svo færi öll umræða af stað þegar blekið á lög­un­um væri þornað á Bessa­stöðum. Væri orkupakk­inn slæm­ur, sem hann er ekki, er lær­dóm­ur­inn því aug­ljós: Hags­muna­gæsla í tengsl­um við EES-sam­starfið þarf að vera mark­viss­ari og öfl­ugri. Bregðast þarf mun fyrr við ef kalla þarf eft­ir und­anþágum eða hafa áhrif á inn­leiðingu EES-gerða. Það er ekki vanda­mál hinna EES-ríkj­anna – það er vanda­mál okk­ar.

Ann­ar stór galli er hvernig EES-reglu­verk er inn­leitt. EES-reglu­verk miðar að því að sam­ræma leik­regl­ur milli landa á af­mörkuðum sviðum og örva þannig viðskipta- og efna­hag­stengsl. Þrátt fyr­ir þetta er iðulega lengra gengið hér á landi en þörf þykir og bætt inn sér­ís­lensk­um íþyngj­andi ákvæðum, sem ná­granna­lönd okk­ar gera ekki. Um þetta er fjallað í ný­legri skoðun Viðskiptaráðs: „Göm­ul vísa en ekki of oft kveðin: Reglu­verk á Íslandi er of íþyngj­andi.“ Það sama gild­ir því hér – reglu­byrði EES á Íslandi er því að miklu leyti okk­ar vanda­mál en ekki EES og því þarf að breyta.

Heims­met í þyngsl­um reglu­verks?

Rann­sókn­ir sýna að of íþyngj­andi reglu­verk get­ur dregið úr al­mennri hag­sæld. Í fyrr­nefndri skoðun er til dæm­is fjallað um að reglu­gerðabreyt­ing­um hafi fjölgað síðasta ára­tug og að aðgengi að þeim sé lé­legt. Enn­frem­ur kem­ur Ísland verst út í nor­ræn­um sam­an­b­urði á lyk­ilþátt­um reglu­verks og þá mæl­ist Ísland með mest íþyngj­andi reglu­verk í þjón­ustu­grein­um meðal OECD-ríkja. Þess vegna er rétt­mætt að spyrja hvort Ísland eigi heims­met í íþyngj­andi reglu­verki.

Betri samn­ing­ur – meiri lífs­gæði

Til mik­ils er að vinna með bættri fram­kvæmd EES-samn­ings­ins hér á landi, sem get­ur fal­ist í öfl­ugri hags­muna­gæslu og að inn­leiðing EES-reglu­verks sé ekki meira íþyngj­andi en nauðsyn kref­ur. Ann­ars veg­ar hinn aug­ljósi ávinn­ing­ur sem fólg­inn er í skil­virk­ara og fyr­ir­sjá­an­legra reglu­verki fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki. Hins veg­ar, sem er kannski ekki eins aug­ljóst, verður EES-samn­ing­ur­inn ein­fald­lega hag­felld­ari og skil­ar lands­mönn­um enn meiri lífs­gæðum en hann hef­ur nú þegar gert.

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 19. júlí 2019

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024