Viðskiptaráð Íslands

Sterkari saman

Þeir sem hafa komið nálægt rekstri fyrirtækja þekkja mikilvægi þess að hagræða. Oftar en ekki er sú hagræðing fólgin í því að sameinast öðrum fyrirtækjum og ná þannig fram stærðarhagkvæmni með betri nýtingu tækja, húsnæðis og mannauðs. Ekki er því að ástæðulausu sem samrunar og yfirtökur fyrirtækja voru 50.600 talsins á heimsvísu árið 2017.

Skýr vilji

Það liggur í augum uppi að aukin hagkvæmni með sameiningum getur átt við víðar. Rekstur sveitarfélaga er gott dæmi. Á litla Íslandi eru sveitarfélög hvorki færri né fleiri en 72 talsins og meira en helmingur sveitarfélaga telur innan við 1.000 íbúa, þrátt fyrir talsverðar sameiningar síðustu áratugi. Þess vegna var ánægjulegt þegar á dögunum birtust niðurstöður skoðanakönnunar í sex sveitarfélögum á Austurlandi þar sem 83% aðspurðra voru hlynntir einhverskonar sameiningum. Þar af vildu um 26% íbúa sameina allt Austurland í eitt sveitarfélag.

Til mikils að vinna

Þessi mikli vilji til sameininga ætti ekki að undra enda eru kostir sameininga margskonar. Augljósasti kosturinn er aukið hagræði af stjórnsýslu, sem er meira en tvöfalt dýrari á hvern íbúa sveitarfélaga með innan við 500 íbúa samanborið við 8000 eða fleiri íbúa. Ein ástæða þess er að stærri sveitarfélög geta betur nýtt sérhæfingu fólks. Þetta á ekki einungis við í stjórnsýslunni því allsstaðar á starfsviði sveitarfélaga eru verkefni sem kalla á fjölbreytta sérhæfingu sem lítil sveitarfélög eiga erfiðara með að sinna. Enginn er sérfræðingur í öllu en stórir hópar fólks geta haft sérfræðinga í allflestu. Þar að auki eru stærri sveitarfélög ekki eins berskjölduð fyrir sveiflum sem getur bætt rekstur og leitt til hagstæðari fjármögnunar.

Með framangreindu verður meira til skiptanna – annað hvort til að veita aukna og betri þjónustu eða leyfa íbúum að halda fleiri seðlum í eigin veski við hver mánaðarmót. Stærri sveitarfélög geta líka gert meira. Á Norðurlöndunum, þar sem sveitarfélög eru margfalt stærri en hér, taka þau að sér fleiri verkefni eins og málefni eldri borgara í meira mæli og rekstur framhaldsskóla. Þau sjónarmið sem oft heyrast um að vald og verkefni færist fjær eru því sumpart mótsagnakennd.

Hægt að leysa nýjar áskoranir

Að sjálfsögðu skapar sameining á nýjar áskoranir en ef vel er að málum staðið ætti að vera hægt að takast á við þær. Hætta er t.d. á að lítil einangruð byggðarlög verði jaðarsett við sameiningu og að lífi þeirra íbúa sé ráðið af fólki sem kannski hefur aldrei komið þangað. Til að leysa þetta en fyrst og fremst tryggja sanngjarna valddreifingu gætu öflug hverfisráð verið lausnin, eins og þekkist í Árborg, Reykjavík og víðar. Einnig blasir við að vegna þeirrar hagræðingar sem verður við sameiningar skapast svigrúm til að leysa aðrar áskoranir.

Eftir engu að bíða

Það hefur gengið hægt að sameina sveitarfélög síðustu ár og þeim mun aðeins fækka um tvö að loknum komandi sveitarstjórnarkosningum. Til að ná fram þeim ávinningi sem hefur verið rakinn hér að framan þarf að gera meira og á Austurlandi eru tækifærin sannarlega til staðar. Ekki skal fullyrt um nákvæma útfærslu sameininga sveitarfélaga en eitt er á hreinu: Saman er Austurland sterkara.

Konráð S. Guðjónsson, Vopnfirðingur og hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Austurfrétt, þann 26. apríl 2018.

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024