Viðskiptaráð Íslands

Stjórnleysi á vinnustað

Það var ekki laust við hakan dytti niður í gólf þegar viðmælandi minn í síðustu viku útskýrði fyrir mér hvernig öll gögn í fyrirtækinu hans væru aðgengileg starfsfólki – öllu starfsfólki - og hvernig launamál allra væru uppi á borðum. Allir hefðu kreditkort í nafni fyrirtækisins og hverjum starfsmanni væri í raun leyfilegt að taka hvaða ákvörðun sem er. Að auki væri fundarmenningin slík að ef viðkomandi þátttakanda fyndist fundurinn sér ekkert sérstaklega viðkomandi eða hjálplegur að þá mætti einfaldlega yfirgefa fundinn!

Ég gat ekki betur séð en að í þessu fyrirtæki ríkti algjört stjórnleysi. Þarna hlytu að starfa fullkomlega sjálfmiðaðir einstaklingar sem hefðu næg tækifæri – a.m.k. út frá ótakmörkuðu aðgengi að gögnum og ákvarðanavaldi – til að hugsa bara um sinn eigin framgang og hundsa stöðu fyrirtækisins. Samvinna og traust milli starfsfólks gæti vart þrifist í þessu umhverfi. Hálfgerð vorkunnartilfinning fór um mig í garð þessa ágæta manns enda harla ólíklegt að fyrirtæki með menningu af þessu tagi myndi lifa lengi.

Þessir fordómar snérust fljótt í höndunum á mér því þegar betur var að gáð var ekki að sjá annað en að þarna væri á ferð kraftmikið starfsfólk sem vann hörðum höndum – saman – á skipulagðan hátt – nánast með bros á vör! Hvað gat mögulega komið í veg fyrir að þau væru ekki bara að slæpast, hanga á Facebook eða strauja fyrirtækjakortið í tíma og ótíma þar sem eftirlitsleysi virtist hvort eð er vera hornsteinn þessa vinnustaðarmenningar?

Einkenni þessa 10 ára vinnustaðar er ástríða, forvitni og hugrekki til að takast á við ný verkefni. Lykiláhersla er á opin og náin samskipti og er starfsánægja með besta móti. Yfirmenn í þessu fyrirtæki skilja að Ísland hefur þróast í átt að þekkingarsamfélagi og það sem þekkingarstarfsmenn vilja er sjálfvald. Vald til þess að stýra eigin vinnu og hafa eitthvað um framgang sinn að segja. Sjálfstæð vinnubrögð og skipulag er líklegasta leiðin til að ná árangri í námi og sú hegðun ætti ekki að breytast þegar á vinnumarkaðinn er komið.

Samkvæmt viðmælanda mínum mætti klippa á það foreldrasamband sem virðist ríkja á mörgum vinnustöðum þar sem starfsfólk nánast eins og börn við foreldra þurfa að biðja yfirmenn um leyfi fyrir öllum sköpuðum hlutum. Komið sé fram við starfsfólk nánast eins og óvita sem ekki beri að treysta nema fyrir afar takmörkuðum verkefnum og þannig hrannist upp flöskuhálsar ákvarðana sem halda aftur af framförum og þróun fyrirtækja. Einmitt þegar þessu ætti að vera öfugt háttað.

Á þessum tiltekna vinnustað er tilgangur frelsisins að draga fram það besta í fólki og viðskiptavinum og færa því ábyrgðina til að taka réttu ákvarðanirnar: hvenær tími sé kominn á að kaupa nýja tölvu, hvenær rými sé fyrir launahækkanir, hvenær rétti tíminn sé til að fara í frí, hvenær draga þurfi saman fremur en að spýta í. Ábyrgð og ákvarðanavald er í höndum starfsfólksins. Öryggisnetið er horfið – hugsa þarf um eigin tilgang og starf líkt og um eigin rekstur væri að ræða. Geta má þess að tekjur þess fyrirtækis jukust um þriðjung í fyrra, hagnaður meira en tvöfaldaðist og meðallaun hækkuðu um fimmtung.

Mikið væri áhugavert ef fleiri fyrirtæki og stofnanir myndu tileinka sér slíka fyrirtækjamenningu og sjá hvaða áhrif það hefði á launaþróun, starfsánægju og framleiðni í starfi. Öryggisnetið liggi ekki lengur í fyrirframákveðnum römmum, krónutölum eða prósentum heldur í skilningi á því hvaða rými er fyrir hlutina hverju sinni – fyrir fyrirtækið sem og samfélagið í heild.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Viðskipamogganum 27. september 2018

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024