Stjórnvöld búa ekki til samkeppni

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á samkeppnishæfni Íslands.

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs

Viðskiptaráð birti nýlega niðurstöður IMD viðskiptaháskólans í Sviss á samkeppnishæfni 64 ríkja. Þar höldum við 16. sætinu milli ára. Samkeppnishæfni byggir á fjölmörgum atriðum sem er misauðvelt að hafa áhrif á. Í tilfelli Íslands er það smæðin sem stundum er okkur fjötur um fót, en í öðrum tilvikum getur hún verið styrkleiki. Stuttar boðleiðir, viðbragðsflýtir og sveigjanleiki eru meðal þeirra atriða sem geta unnið með okkur. Á móti kemur að við ráðum illa við mælikvarða í úttektinni sem ekki taka mið af höfðatölu, eins og fjölda birtra vísindagreina eða fjölda nóbelsverðlaunahafa.

Úttektin er byggð á haggögnum og svörum úr könnun sem lögð er árlega fyrir stjórnendur. Meðal þess sem stjórnendum íslenskra fyrirtækja finnst eftirsóknarverðast við Ísland er hátt menntunarstig, aðlögunarhæfni hagkerfisins og hæft starfsfólk. Sá þáttur sem fellur mest milli ára er stefnufesta og fyrirsjáanleiki. Endurspeglar það væntanlega þá óvissu sem stjórnendur upplifa, ekki síst í efnahagsmálum, þar sem kjarasamningar og umgjörð þeirra vega þungt, hver fundur peningastefnunefndar er sérstakt áhyggjuefni og hið opinbera gefur misvísandi merki þegar kemur að fjármálum ríkis og sveitarfélaga.

Þegar kafað er dýpra í svörin sést að tiltrú íslenskra stjórnenda á opinber fjármál, hagstjórn og peningastefnu hefur gefið verulega eftir milli ára. Þótt í sjálfu sér sé hér góður uppgangur, kröftugur hagvöxtur og atvinnustig gott, er áhyggjuefni að stjórnendur íslenskra fyrirtækja eru uggandi um stefnuna sem mörkuð hefur verið. Vissulega eru teikn um frekara aðhald í fjármálaáætlun hins opinbera til næstu fimm ára, en útgjaldavöxturinn hefur verið slíkur síðustu ár, að það lætur nærri að spyrja hvort réttur útgangspunktur hafi verið valinn. Útgjaldavöxtur sem réttlættur var með viðbrögðum vegna heimsfaraldurs hefur ekki gengið til baka og því erum við í raun að horfa upp á aðhald á ofvöxt. Við í atvinnulífinu höfum bent á mikilvægt hlutverk hins opinbera þegar kemur að því að slá á þenslu og vinna gegn verðbólgu. Á móti er bent á okkur, fyrirtækin í landinu og okkur sagt að við þurfum að axla ábyrgð á ástandinu, af því að hér ríki verðbólga og verkfæri til að berja hana niður séu vaxtahækkanir, sem verði haldið áfram að beita ef við höldum ekki að okkur höndum. Með öðrum orðum, að við eigum að taka á okkur hærri rekstrarkostnað, hækkandi aðfangaverð og launahækkanir, en hleypa þeim ekki út í verðlag. Leiðin til að fylgjast með þessu, í það minnsta hvað varðar dagvöru, er verðgátt sem var kynnt í tengslum við síðustu kjarasamninga. Mér varð hugsað til Pálma Jónssonar í Hagkaupum, þegar þessi verðgátt var opnuð fyrir skömmu, en nú í byrjun júnímánaðar voru liðin 100 ár frá fæðingu hans. Þegar hann hóf sinn verslunarrekstur var hið opinbera allt umlykjandi, innflutningshöft voru viðvarandi og verðlagningu var meira eða minna stýrt af verðlagsnefndum, stundum undir formerkjum verðstöðvunar sem augljóslega stoðaði lítt þegar verðbólga var iðulega vel yfir tveggja stafa tölu og stundum talin í þremur stöfum. Pálmi var talsmaður lægra vöruverðs og breytti verslun á Íslandi á forsendum einkaframtaksins, til hagsbóta fyrir neytendur en oft og tíðum í baráttu við ríkjandi stjórnvöld og verslunarvenjur. Bónus braut einnig blað í íslenskri verslunarsögu og hefur alla tíð rekið skýra stefnu um lágt verð. Svo má nefna framtak Krónunnar sem í fyrrasumar frysti verð á yfir 200 vörum og Samkaupa sem lækkuðu verð á um 400 vörum til að berjast gegn verðbólgu. Til þessa þurfti engin stjórnvaldsboð. Á sama tíma hafa íslensk stjórnvöld ekki dug til að framlengja tollfrelsi á úkraínskum kjúklingi.

Íslensk fyrirtæki, hvort sem um er að ræða matvöruverslanir eða önnur, eru í samkeppni um viðskiptavini og hafa engan áhuga á því að verðleggja sig út úr þeirri samkeppni. Um leið þurfa þau að leita leiða til að bregðast við því umhverfi sem hið opinbera skapar þeim, með sköttum, gjöldum og regluverki, sem kostar sitt, eins og þegar kemur að innleiðingu á jafnlaunavottun, nýjum reglum um umbúðir og umbúðagjöld, innleiðingu sjálfbærnireglugerða sem lagðar eru hér á með meira íþyngjandi hætti en í samkeppnislöndum okkar og svo mætti lengi telja. Að auki erum við einnig í samkeppni við umheiminn um vörur, fólk og fjármagn og útflutningsfyrirtækin keppa við risafyrirtæki á alþjóðlegum mörkuðum. Þess vegna skiptir máli að vera vakandi fyrir samkeppnishæfni, enda skapa þessi fyrirtæki þau verðmæti sem við treystum öll á til að standa undir rekstri samfélagsins.

Stjórnvöld búa ekki til samkeppni. Þau hafa aftur á móti mikil áhrif á samkeppnishæfni Íslands og það er til mikils að vinna að búa íslensku atvinnulífi umhverfi sem er eins gott, skilvirkt og hvetjandi og kostur er á. Velgengni atvinnulífsins er enda grundvöllur þess að Íslendingar geti áfram búið við framúrskarandi lífskjör.

Ari Fenger er formaður Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. júní

Tengt efni

Sameiningin sem endaði ofan í skúffu

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, fjallar um áform stjórnvalda ...
5. ágú 2020

Höldum kosningaþenslu í lágmarki

Þrátt fyrir vaxandi jákvæðni og uppsveiflu í íslensku viðskiptalífi undanfarna ...
8. nóv 2006

Fyrirtækjasamsteypur í íslensku umhverfi. Ræða eftir Þór Sigfússon á fundi FVH 13. maí 2004

Þegar skoðuð er útrás íslenskra fyrirtækja kemur í ljós að þau fyrirtæki sem náð ...
13. maí 2004