Klukkan á Íslandi slær korter í kjaraviðræður. Spjótum er þar helst beint að atvinnurekendum og hinu opinbera um að hækka laun og lækka skatta sem og auka húsnæðis- og vaxtabætur þeirra tekjulægstu, svo eitthvað sé nefnt. Minna hefur farið fyrir umræðu um hvaða þátt sveitarfélögin spili í þessu samningaferli og hvers konar tromp þau geymi á hendi. Margir hafa fundið það á eigin skinni hvernig fasteignagjöld, sem innheimt eru af sveitarfélögum landsins, hafa farið stighækkandi á undanförnum árum með hækkandi fasteignamati sem er bein afleiðing af hækkandi fasteignaverði. Fyrirtækin í landinu hafa ekki farið varhluta af þessum hækkunum enda er skatthlutfall þeirra t.d. 9 sinnum hærra af atvinnuhúsnæði en af íbúðarhúsnæði í Reykjavík.
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 42% frá 2016 og þar af var tilkynnt í júní um 17,2% hækkun fasteignamats milli ára fyrir árið 2019. Þetta þýðir að fyrirtæki sem árið 2016 átti fasteign sem metin var á 100 milljónir króna í Reykjavík og greiddi þá 1,65 milljónir í fasteignaskatta, mun á næsta ári greiða 2,33 milljónir. Þessi aukna skattbyrði og miklu sveiflur þyngir ekki bara róður eigenda atvinnuhúsnæðis heldur einnig þeirra sem leigja slíkt húsnæði og getur þrýst á kostnaðarverðhækkanir.
Hér er um faldar og auknar skattaálögur að ræða sem byggja á kerfishnútum sem höggva þarf á hið snarasta t.d. með innleiðingu fimm ára hlaupandi meðaltals fasteignamats. Gífurlegar hækkanir fasteignagjalda er afleiðing fasts prósentuhlutfalls á sveiflukennt en síhækkandi fasteignamat sem endurspeglar á engan hátt það gjald sem sveitarfélögin þurfa til að sinna tilætlaðri þjónustu.
Fremur en að stilla skattaálögum í hóf líta sveitarstjórnarmenn undan og njóta þeirra auknu skatttekna sem lægra vaxtastig og húsnæðisskortur hefur skapað. Meðvitaðir um hversu stórt hlutverk húsnæði spilar í efnahagslífinu ýta þeir undir verðbólgu og ójafnvægi – fremur en að skapa rými fyrir launahækkanir og bættari kjörum launþega.
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands