Viðskiptaráð Íslands

Það er dýrt að hækka laun á Íslandi

Allur alþjóðlegur samanburður ber með sér að efnahagsástand á Íslandi er með því besta sem þekkist. Á undanförnum árum hafa laun og kaupmáttur hækkað mun meira hér á landi en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Það kann að koma á óvart að laun á vinnustund eru hærri hér á Íslandi en í Danmörku, Þýskalandi—og meira að segja Noregi. Eina landið sem býður hærri laun en Ísland um þessar mundir er Sviss.

Það eru mikil lífsgæði fólgin í því að búa í samfélagi þar sem laun eru að jafnaði góð og lífsgæði mikil. Þetta er sameiginlegt keppikefli bæði vinnuveitenda og launþega, og á grundvelli þessa sameiginlega skilnings hefur mikill árangur náðst í kjaramálum á undanförnum áratugum.

Í aðdraganda komandi kjaraviðræðna hlýtur það að vera markmið allra að standa vörð um þá góðu stöðu sem náðst hefur. Ennfremur eru miklir samfélagslegir hagsmunir fólgnir í því að tryggja að samkeppnisumhverfi íslensks atvinnulífs sé gott, því öll verðmætasköpun framtíðarinnar byggist á því að íslensk fyrirtæki standist alþjóðlega samkeppni.

Nú heyrast háværar raddir vinnuveitenda um erfiðleika vegna hárra launagjalda og aukinnar erlendrar samkeppni. Þessar áhyggjur kunna að koma ýmsum á óvart í ljósi þess hversu gott efnahagsástandið er. En þær eru raunverulegar og í þeim felast alvarleg viðvörunarmerki fyrir íslenskt samfélag. Fyrirtækin í landinu sjá einfaldlega ekki fram á að geta borið kostnaðinn af þeim launahækkunum sem krafist er.

Í þessu samhengi þarf að líta til þess að kostnaður atvinnurekanda af því að hækka laun starfsmanns er mun meiri en hin raunverulega kjarabót sem launþeginn hlýtur. Til að vinnuveitandi geti greitt 500 þúsund krónur í mánaðarlaun þarf hún að leggja út um 740 þúsund krónur, þar sem bæði þarf að greiða tryggingagjald og mótframlag til lífeyris sem nemur um 120 þúsund af þessari upphæð. Því til viðbótar njóta starfsmenn orlofsréttinda og annarra fríðinda sem má áætla í þessu dæmi að séu um 120 þúsund kr.Ef við hugsum dæmið alla leið, og tökum inn í myndina skattbyrði launþegans, þá blasir við sú mynd að hann fær einungis útborgaðar um 350 þúsund krónur. Það er því ekki nema rétt tæplega helmingur af heildarlaunakostnaði sem á endanum skilar sé í vasa launþegans.

Það er dýrt að hækka laun á Íslandi. Of hár launakostnaður mun á endanum bitna harkalega á samkeppnishæfni landsins. Því miður er staðreyndin sú að Ísland verður æ oftar undir vegna óhagstæðra ytri rekstrarskilyrða. Íslensk verkfræðistofa lenti til að mynda í því nýverið að vera undirboðin af norskri verkfræðistofu. Þegar stjórnendur grennsluðust fyrir um hvernig á þessu gæti staðið þar sem launakostnaður í Noregi er hár kom á daginn að meirihluti starfsmannanna er staðsettur í Austur-Evrópu þar sem laun eru umtalsvert lægri á meðan verkstjórnunin fer fram í Noregi. Þetta dæmi sýnir að veruleg hætta er á því að verðmæt og vel launuð störf, jafnvel hátæknistörf, flytjist smám saman úr landi ef ekki er hugað að samkeppnisskilyrðum atvinnulífsins.

Ef við viljum ýta undir nýsköpun hér á landi og laða að fremur en fæla frá fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni þurfum við að huga vandlega að því hvernig hægt er að tryggja að íslensk fyrirtæki geti greitt alþjóðlega samkeppnishæf laun án þess að það raski undirstöðum rekstrarins. Ein leið er draga úr þeim mismun sem er milli útborgaðra launa og launakostnaðar vinnuveitenda með lækkun launatengdra skatta (tryggingagjalds, tekjuskatts og útsvars). Þar duga skammt áform ríkisstjórnarinnar um að lækka tryggingagjaldið úr 6,85% í 6,60%.

Umfram allt þarf þó að líta raunsæjum augum á það svigrúm sem íslenskt atvinnulíf hefur til launahækkana, og stefna ekki í voða þeirri öfundsverðu stöðu sem Ísland er í.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

Greinin birtist fyrst í Viðskiptamogganum, 19. apríl

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024