Þjóðtungan falin í ársreikningum?

Þegar efla á samkeppnishæfni Íslands til lengri tíma verður allt að vera undir. Inngrip ríkisins í atvinnurekstri fyrirtækja verða að vera vel rökstudd. Þetta á þó til að gleymast. Árið 2016 samþykkti Alþingi lög sem skylda fyrirtæki, hvort sem þau stunda viðskipti á alþjóðlegum markaði eða innlendum, til þess að skila ársreikningum á íslensku. Hafa lögin verið túlkuð á þann veg að upprunaleg útgáfa ársreiknings skuli vera á íslensku.

Hvernig kemur þetta lagaákvæði við alþjóðleg fyrirtæki með starfsemi á Íslandi? Oft eru fjármáladeildir slíkra fyrirtækja staðsettar í öðrum ríkjum og vinnsluaðilar ársreikninga erlendir og því nánast óframkvæmanlegt að vinna frumvinnu ársreikninga á íslensku. Í stjórnum margra fyrirtækja sitja erlendir einstaklingar, sem eðli málsins samkvæmt eiga erfitt með að leggja mat á ársreikninga sem settir eru fram á tungumáli sem þeir kunna ekki.

Þessi kvöð er sérlega íþyngjandi fyrir minni fyrirtæki sem eru að hasla sér völl á alþjóðlegum markaði. Slík félög, sem eru í leit að fjárfestum eða fjármagni á erlendri grundu, þurfa að framvísa ársreikningum á ensku og því skapast með þessu tvíverknaður og kostnaður sem sannarlega munar um fyrir minni fyrirtæki.

Framtíð íslensks viðskiptalífs liggur í alþjóðlegum fyrirtækjum og því er þetta sérstaklega alvarleg afleiðing laganna. Erlend samkeppni er gríðarlega hörð og minnstu íþyngjandi kvaðir geta haft áhrif á það hvaða fyrirtæki lifa af og komast á næsta vaxtarstig – verði okkar næstu Marel eða Össur.

Að sjálfsögðu eigum við að tryggja stöðu íslenskrar tungu en verður það gert í sérhæfðum afkima ársreikningsskila nokkurra fyrirtækja? Staðreyndin er sú að enskan er tungumál alþjóðlegra viðskipta og það eru miklir hagsmunir fólgnir í því að íslensk fyrirtæki séu alþjóðlega samkeppnishæf. Þótt íslenskan sé falleg tunga, hvort sem hún er í bókhaldsgögnum eða fagurbókmenntum, þá er það örugglega ekki á vettvangi ársreikningagerðar þar sem mikilvægustu orrusturnar um framtíð hennar ráðast.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Pistillinn birtist fyrst í Endahnúti Viðskiptablaðsins þann 15. febrúar 2018.

Tengt efni

Nýjar tillögur starfshóps gegn gullhúðun

Tillögur starfshóps miða að því að auka gæði lagasetningar við innleiðingu ...
19. jún 2024

„Við þurfum raunsæja nálgun“

Ávarp Ara Fenger, formanns Viðskiptaráðs, á Peningamálafundi Viðskiptaráðs sem ...
23. nóv 2023

Umsögn um sameiningu stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins

Umsögn Viðskiptaráðs um sameiningu stofnana umhverfis-, orku- og ...