Viðskiptaráð Íslands

Óheilbrigð umræða um heilbrigðismál

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, birti grein í Fréttablaðinu þann 3. febrúar í kjölfar viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um uppbyggingu heilbrigðisþjónustu. Í viljayfirlýsingunni kemur m.a. fram að opna þurfi fyrir möguleika á fjölbreyttum rekstrarformum í heilbrigðisþjónustu.

Formaður BSRB hefur margt út á það markmið að setja í grein sinni. Þar er fullyrt að rannsóknir sýni að aukinn einkarekstur í heilbrigðisþjónustu auki misskiptingu, leiði til brotakenndari þjónustu, verri lýðheilsu, verra aðgengi og minni hagkvæmni en opinber rekstur. Áhugavert væri að vita hvaða rannsókna er vísað til, enda hefur reynslan af einkarekstri bæði hérlendis og í nágrannaríkjunum verið þveröfug.

Hérlendis hefur eina einkarekna heilsugæslan á landinu, heilsugæslan í Salahverfi, staðið öðrum framar í þjónustu. Samkvæmt úttekt Gæða- og lýðheilsusviðs Landlæknisembættisins er „allt er varðar starfsemi, starfsmenn og þjónustu við notendur til fyrirmyndar.“ Jafnframt hefur „endurtekið komið fram í þjónustukönnunum að aðgengi er hvað best á heilsugæslunni í Salahverfi af öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu.“

Þessi árangur hefur náðst þrátt fyrir að kostnaðarþátttaka sjúklinga sé nákvæmlega sú sama og hjá heilsugæslum í opinberum rekstri. Í grein sinni gerir formaður BSRB enda engan greinarmun á fjármögnunog veitingu heilbrigðisþjónustu. Það að einkaaðili veiti heilbrigðisþjónustu breytir engu um kostnaðarþátttöku sjúklinga ef hið opinbera fjármagnar þjónustuna áfram, líkt og dæmið um heilsugæsluna í Salahverfi sýnir.

Önnur Norðurlönd hafa gengið lengra en Ísland í innleiðingu einkarekstrar í heilbrigðisþjónustu. Þannig brugðust Svíar við í kjölfar fjármálakreppu sinnar á tíunda áratugnum og Danir hafa einnig horft til slíkra aðgerða á undanförnum árum. Reynsla beggja þessara ríkja af auknum einkarekstri hefur verið jákvæð og hefur Samband danskra sveitarfélaga (d. Kommunernes Landsforening) lýst þessari þróun sem byltingu fyrir fjármál sveitarfélaga í Danmörku.

Heilbrigðismál eru einn af stærstu útgjaldaliðum hins opinbera og reksturinn að stærstum hluta í höndum þess. Við núverandi fyrirkomulag er hið opinbera því bæði greiðandi og veitandi mestallrar heilbrigðisþjónustu hérlendis og kraftar samkeppni verulega vannýttir. Í ofanálag hafa stjórnvöld bannað læknum, tannlæknum, sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfum, þroskaþjálfum, ljósmæðrum og heilbrigðisstofnunum að auglýsa starfsemi sína. Það kemur í veg fyrir að neytendur séu upplýstir um þá valkosti sem þeim standa til boða og njóti ávinnings samkeppni í heilbrigðisþjónustu

Aukin útboð á veitingu þjónustu til einkaaðila og afnám banns við auglýsingum á heilbrigðisþjónustu myndi leiða til aukinnar samkeppni í heilbrigðiskerfinu hérlendis. Slík samkeppni myndi bæta þjónustu og auka hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu til frambúðar án þess að kostnaðarþátttaka sjúklinga þyrfti að breytast. Því ber að fagna yfirlýsingu stjórnvalda um að aukna fjölbreytni í rekstrarformum í stað þess að finna henni allt til foráttu, enda reynslan af einkarekstri í íslenskri heilbrigðisþjónustu eindregið jákvæð.

Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 5. febrúar 2015. Greinina má einnig nálgast á vefsíðu Vísis.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024