Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Í framlagðri fjármálaáætlun kemur fram að áætlunin byggist í meginatriðum á fjármálastefnu 2022 – 2026 og síðustu fjármálaáætlun og því eiga fyrri umsagnir ráðsins um þau mál enn við að miklu leyti. Viðskiptaráð vill koma á framfæri eftirfarandi atriðum hvað varðar ríkisfjármálin á næstu árum:
- Útgjöld ríkissjóðs jukust verulega í heimsfaraldri og hafa aðeins gengið til baka að hluta til.
- Að mati Viðskiptaráðs er tilefni til kraftmeiri aðhaldsaðgerða á útgjaldahliðinni en boðað er í áætluninni.
- Aukið misræmi í tekjuöflun og útgjöldum gerir ríkisreksturinn ósjálfbærari.
- Vaxtagjöldin á þessu ári eru tæplega 50% hærri en í síðustu fjármálaáætlun og verða um 113 ma. kr.
- Batnandi afkoma í ríkisrekstrinum skýrist að mestu leyti af batnandi horfum en ekki aðhaldsaðgerðum. Hagtölur og spár fyrir árin 2022 og 2023 eru mun bjartari en á horfðist fyrir aðeins fáeinum mánuðum.
- Að mati Viðskiptaráðs felst ekki það sértæka aðhald sem ríkisfjármálin þurfa á að halda í framlagðri áætlun.
- Í ljósi þeirrar þenslu sem ríkir í efnahagslífinu er þörf á mun meira aðhaldi og endurskipulagningu ríkisfjármálanna. Þá vekur athygli Viðskiptaráðs að í fjármálaáætluninni er ekki minnst á endurmat útgjalda.
- Launahækkanir á Íslandi hafa undanfarinn áratug verið umfram verðmætasköpun og verðbólgumarkmið Seðlabankans en þrátt fyrir það hefur hið opinbera leitt launahækkanir undanfarin ár.
- Í umfjöllun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um þróun í efnahagsmálum á Íslandi segir að launakostnaður hins opinbera sé mun hærri á Íslandi en í öðrum þróuðum ríkjum og gætu því verið talsverð tækifæri til sparnaðar þar.
- Ófyrirséðum tekjuauka umfram áætlanir hefur verið varið í aukin útgjöld, líkt og má sjá í fjárlögum ársins 2023. Þrátt fyrir að aðhaldsstig opinberra fjármála sé að aukast slær það ekki á þenslu að því marki sem væri óskandi.
- Brýnt er að búa í haginn og verja ófyrirséðum tekjuauka í að bæta afkomu hins opinbera og stuðla að endurupptöku fjármálareglna innan settra tímamarka.
Lesa má umsögn Viðskiptaráðs hér