Viðskiptaráð Íslands

Viðskiptaráð í 100 ár – horft til framtíðar

Viðskiptaráð Íslands fagnar í ár aldarafmæli sínu. Tilgangur ráðsins allt frá stofnun þess hefur ætíð verið sá sami; að stuðla að umbótum í íslensku viðskiptalífi. Á tímamótum sem þessum er vert að staldra við og horfa yfir farinn veg. Að því tilefni hefur Viðskiptaráð ráðist í útgáfu hátíðarrits um sögu Viðskiptaráðs og viðskipta á Íslandi síðustu 100 ár sem og heimildarmyndar sem sýnd verður í Ríkissjónvarpinu síðar á árinu.

Höft á verslun og viðskipti, heimsstyrjaldir og kreppur hafa sett mark sitt á sögu íslensks efnahagslífs. Stórhuga og kraftmikið athafnafólk ásamt framsýnu stjórnmálafólki, og dugnaði og vinnusemi Íslendinga, hefur þó stuðlað að sjálfstæði og sjálfbærni íslensks atvinnulífs. Viðskiptaráð hefur beitt sér fyrir framförum í efnahagslífinu en jafnframt einsett sér að styðja við menntamál. Aðkoma ráðsins að stofnun og stuðningi við Verzlunarskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík hefur verið mikilvæg fyrir tengsl menntunar og viðskiptalífsins. Samvinna við alþjóðleg ráðgjafafyrirtæki á borð við McKinsey & Company í tengslum við títtnefnda Íslandsskýrslu fyrirtækisins um hvernig styrkja mætti stoðir hagvaxtar í kjölfar bankahrunsins hefur jafnframt verið þýðingarmikil.

Á þeim 100 árum sem Viðskiptaráð hefur starfað höfum við farið úr því að vera bændasamfélag í það að vera nútímalegt tæknivædd þjóðfélag. Læra má margt af reynslunni en mikilvægara er þó á þessum tímamótum að brýna fyrir okkur þörfina á að vera sífellt að þróast og þroskast sem samfélag. Stöðnun og þröngsýni eru ekki samferðamenn framtíðar. Ef Ísland ætlar að halda áfram að viðhalda góðum lífsgæðum fyrir þegna sína, þarf að sýna kjark til að horfa til lengri tíma, breyta kerfum og móta ný. Þar er viðskiptalífið engin undantekning.

Frá innri málum til alþjóðasýnar

Viðskiptaráð hefur verið ötull stuðningsaðili Samráðsvettvangs um aukna hagsæld sem vann úr tillögum sem lagðar voru fram í Íslandsskýrslu McKinsey árið 2012. Var umbótum í íslensku efnahagslífi skipt niður í fjóra flokka - opinbera, auðlinda, alþjóða- og innlenda þjónustugeirann - í þeirri vinnu og hafa geirarnir fjórir árlega verið umfjöllunarefni í aðdraganda Viðskiptaþings. Viðskiptaráð mun áfram starfa með þessar áherslur til hliðsjónar en hefur sett nýja stefnu um að líta meira út á við, á þá alþjóðlegu krafta sem móta nýja heimsmynd í viðskiptum. Viðskiptaráð mun einblína á fjögur þemu á komandi árum: Stafræna tækniþróun, menntun og mannauð, umhverfi og sjálfbærni og alþjóðlega samkeppni.

Áhersla á öflugan mannauð er beintengd umræðu um menntamál, enda forsenda þess að hugvitsdrifnar atvinnugreinar í þekkingariðnaði geti hér blómstrað. Íslenska hagkerfið hefur að jafnaði verið sveiflukennt, drifið áfram af mikilvægum auðlindagreinum, en að sama skapi skiptir miklu máli að fjölga stoðum undir hagvöxt og stuðla að fjölbreyttara atvinnulíf til að vinna á móti slíkum sveiflum. Undirbúa þarf komandi kynslóðir undir þær samfélagslegu breytingar sem fylgja alþjóðavæddari heimi og tæknivæðingu svo að hæfni einstaklinga sé í takt við þarfir samfélagsins. Stafræn tækniþróun gæti ýtt undir framleiðni og bætt þjónustu í mörgum atvinnugreinum til muna á Íslandi. Viðskiptaráð ætlar að leggja áherslu á stafræna tækniþróun á komandi vetri og stóð á dögunum fyrir verkkeppni fyrir háskólanema og frumkvöðla sem leituðu svara við spurningunni „Hvernig verður Ísland tæknivæddasta land í heimi árið 2030?“ Er þetta liður í átaki hjá ráðinu að virkja unga fólkið í umræðuna um framtíð Íslands.

Umhverfismál og sjálfbærni skipta auðlindaríkt samfélag líkt og Ísland gríðarlega miklu máli, þar sem upprunavottun, hreinleiki og gæði eru grunnur að alþjóðlegri markaðssetningu og sölu. Að lokum er ljóst að alþjóðlegar tengingar eru límið sem heldur fyrri þremur þáttunum saman, þar sem hið nýja umhverfi styttir boðleiðir fyrir upplýsingar, flæði fjármagns og framleiðslu milli landa og eykur sveigjanleika á vinnumarkaði. Starfsemi á viðskiptamörkuðum er við það að gjörbreytast – með auknum tækifærum. Það eru því margar ástæður til að líta bjartsýnum augum til framtíðarinnar ef leiðtogar stjórnmála og atvinnulífs, og við sem þjóð, tökum þessum breytingum opnum örmum enda fjölmörg tækifæri sem í þeim felast.

Leiðandi afl breytinga

Íslenskt viðskiptalíf hefur tekið þátt í að móta íslenskt samfélag og mun gera það áfram. Viðskiptaráð Íslands mun leggja sitt á vogarskálarnar til að efla viðskipti sem skila aukinni hagsæld til þeirra sem landið byggja. Enn á ný stöndum við frammi fyrir byltingu, sem mun kollvarpa hagkerfum og því hvernig hlutirnir hafa verið gerðir. Það eru því spennandi tímar framundan í íslensku samfélagi og viðskiptalífi. Þar skiptir máli að vinna saman sem heild og skilja sundurlyndið eftir í fortíðinni.

Höfundar eru Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður og Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024