Viðskiptaráð Íslands

Viðskiptum snúið á haus

Rétt tæp vika er liðin frá því að Evrópusambandið svaraði tollahækkunum Bandaríkjaforseta á evrópskar vörur með sambærilegum tollahækkunum á bandarískar vörur sem fluttar eru til Evrópu. Þar sem Ísland stendur utan tollabandalags Evrópusambandsins er ekki útlit fyrir að Ísland hljóti af beinan viðskiptaskaða. Þó er vert í þessu samhengi að minnast þeirra áhrifa sem viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum ollu á sínum tíma. Ísland sýndi þar samstöðu með NATO ríkjunum og hafði sú ákvörðun miklar afleiðingar, sérstaklega fyrir sjávarútvegsfyrirtæki sem horfðu á eftir stórum markaði. Þó svo að þær þvinganir hafi verið af öðrum toga má velta því upp hver staða Íslands sé í yfirstandandi tollastríði? Verður í boði að taka ekki afstöðu og treysta á fyrirliggjandi fríverslunarsamninga? Eða verða þeir hafðir að engu og við vinsamlegast beðin um að lýsa því yfir hvar við viljum búa eftir skilnaðinn?

Ísland er lítið land sem byggir hagsæld sína á stoðum frjálsra alþjóðlegra viðskipta. Forsenda aukinna utanríkisviðskipta okkar er aukin fríverslun en Ísland státar nú af fríverslunarneti sem nær til 71 ríkis. Það sem kemur á óvart þegar þetta fríverslunarnet er kannað er að Bandaríkin, sem hafa verið leiðandi í frjálsum heimsviðskiptum og okkar helsta viðskiptaþjóð frá seinni heimsstyrjöld, skuli ekki vera þar á meðal. Aftur á móti er land á borð við Kína sem áður hefur verið þekkt fyrir verndarstefnu ofarlega á blaði enda aðhylltast þeir nú frelsi í viðskiptum – að minnsta kosti í orði. Kannski sáu íslenskir ráðamenn fyrir hvernig viðskiptakænsku heimsveldanna yrði snúið á haus en Ísland varð fyrsta ríki innan Evrópu til að ljúka fríverslunarsamningi við Kína.

Hvaða leik smáríki á borð við Ísland skuli spila á þessum tímum er erfitt að segja til um enda mun öryggisnet fríverslunarsamninga duga skammt ef alþjóðlegt viðskiptaregluverk verður sniðgengið í tollastríði stórvelda og fyrirliggjandi samningar virtir að vettugi.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Endahnúti Viðskiptablaðsins þann 28. júní 2018

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024