25. ágúst 2016
Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til velferðarráðuneytisins vegna draga að frumvarpi um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að fæðingarorlof foreldra verði lengt og hins vegar að mánaðarleg hámarksgreiðsla úr fæðingarorlofssjóði verði hækkuð. Að mati Viðskiptaráðs er hækkun hámarksgreiðslu til foreldra í fæðingarorlofi til mikilla bóta en samræma ætti skerðingarhlutföll fyrir ólíka tekjuhópa. Ráðið leggst hins vegar gegn lengingu fæðingarorlofs úr níu mánuðum í tólf.
Umsögnina má lesa hér
Í umsögninni kemur meðal annars fram:
- Á meðan launamunur kynjanna er til staðar er lág hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði til þess fallin að hægja á breytingum í átt að auknu jafnrétti á vinnumarkaði.
- Ráðið gerir athugasemd við að fyrstu 300.000 kr. viðmiðunartekna verði óskertar en að 20% skerðing verði á viðmiðunartekjum umfram þá upphæð. Að mati ráðsins er ekki heppilegt að blanda markmiðum um aukinn tekjujöfnuð inn í stuðningskerfi fyrir foreldra.
- Að lokum leggst ráðið gegn því að fæðingarorlof verði lengt úr níu mánuðum í tólf. Telur ráðið að frekar ætti að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn fær leikskólavist með öðrum hætti.