Viðskiptaráð hefur sent inn umsögn um frumvarp um brottfall kröfu um ríkisborgararétt. Viðskiptaráð telur frumvarpið vera mikið heillaspor þar sem íslensk sérregla um að ríkisstarfsmenn þurfi að hafa íslenskan ríkisborgararétt eða ríkisborgararétt frá öðru EES-ríki er tímaskekkja sem skýtur skökku við í alþjóðavæddum heimi og er ekki til þess fallin að auka samkeppnishæfni landsins.
Viðskiptaráð hvetur auk þess til að íslensk útlendingalöggjöf verði tekin til heildstæðrar skoðunar með það að leiðarljósi að auðvelda til að mynda erlendum sérfræðingum að koma og starfa hér á landi. Skoðunin ætti hvort tveggja að beinast að fólki sem hingað kemur frá löndum innan og utan EES.