Viðskiptaráð skilaði inn umsögn um frumvarp til breytinga á samkeppnislögum. Viðskiptaráð fagnaði því þegar stjórnvöld tilkynntu í stuðningi sínum við Lífskjarasamningana síðastliðið vor að samkeppnislöggjöfin yrði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að gera hana skilvirkari. Viðskiptaráð hefur lengi talað fyrir breytingu á samkeppnislöggjöfinni hérlendis, og að hún sé færð í átt til þess sem gengur og gerist í okkar nágrannalöndum og Evrópu, en í íslenskum samkeppnislögum má finna ákvæði sem samkeppnislöggjöf okkar nágrannalanda geyma ekki, og stendur nú til að afleggja hluta þeirra ákvæða. Það er framför sem mun koma til með að auka skilvirkni samkeppniseftirlits á Íslandi.
Ef samkeppnislögin eiga að ná markmiði sínu, sem tryggja hagkvæma nýtingu framleiðsluþátta með eflingu virkrar samkeppni, þá er brýnasta verkefni löggjafanst að búa svo um að Samkeppniseftirlitið geti lokið þeim rannsóknum og athugunum sem lögin krefjast og geti tekið ákvarðanir í málum sem varða bannreglur laganna á sem skilvirkastan máta. Sömuleiðis er mikilvægt að samkeppnisreglur séu ekki of íþyngjandi og leggi þannig óþarfa höft á fyrirtæki ogg geri þeim erfitt fyrir við að leita réttar síns. Þannig er unnið gegn þeim markmiðum sem lögin stefna að, fyrirtækjum og neytendum til taps.
Á sama tíma og Viðskiptaráð styður frumvarpið í meginatriðum leggur ráðið til ákveðnar breytingar og viss atriði þar sem ganga hefði mátt lengra.