Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt nr. 90/2003 (204. mál).
Heilt yfir fagnar Viðskiptaráð frumvarpi þessu enda verið með því að afnema ákveðna tæknilega þröskulda í skattkerfinu sem Viðskiptaráð og fjölmargir aðrir hafa ítrekað lagt til að verði færðir til betri vegar. Má þar einna helst nefna svokallaða 20/50 reglu, sbr. 4., 12. og 13. gr. frumvarpsins, en annmarkar þeirrar reglu eru reifaðir ágætlega í greinargerð þess og umsögn skrifstofu opinberra fjármála. Þá má tiltaka breytingu 1., 5.-8. gr. og 14. gr. frumvarpsins, er varðar skattlagningu afleiðuviðskipta, en jákvæðu þættir þeirrar breytingar eru tíundaðir í umsögn Kauphallarinnar við frumvarpið.
Auk ofangreinds telur Viðskiptaráð það heppilega nálgun að miða nýjar milliverðlagsreglur við reglur OECD í stað þess að innleiða séríslensk viðmið. Skýrar og gagnsæar reglur sem byggja á alþjóðlegum tilmælum eru bæði til hagsbóta fyrir fyrirtækin m.t.t. samkeppnissjónarmiða og minni hættu á tvískattlagningu sem og fyrir ríkið m.t.t. sjónarmiða um skattasniðgöngu.