Sumarið er tíminn... til að undirbúa aldarafmæli. Skrifstofa Viðskiptaráðs er undirlögð hinum ýmsu verkefnum haustsins. Ber þar hæst aldarafmæli ráðsins þann 17. september 2017. Við fyllumst auðmýkt þegar litið er yfir farinn veg og ljóst er að störf ráðsins hafa haft áhrif á samfélagið og sáð jákvæðum fræjum fyrir hagsæld á Íslandi, á ólíkum skeiðum hagsögunnar. Á sama tíma horfum við til framtíðar og hugum að vegferð okkar næstu 100 árin. Já, slík er fyrirhyggjan.
Í smíðum er m.a. hátíðarrit og heimildamynd um sögu ráðsins og störf. Afmælishátíðin sjálf fer svo fram 21. september með glæsilegum viðburðum og dagskrá í Háskólabíói og Hörpu.
„Mestu efnahagsframfarir í sögu mannskyns hafa átt sér stað á síðustu hundrað árum og hafa lífsskilyrði gjörbreyst um heim allan. Þróun á sviði tækni og vísinda ásamt breytingum innan hagkerfa heimsins hafa umbylt heimsmyndinni. Íslendingar hafa ekki verið eftirbátar annarra þjóða þó að einstaka tímabil hafi verið okkur erfið. Höft á verslun og viðskipti, heimsstyrjaldir og kreppur hafa sett mark sitt á íslenskt efnahagslíf. Stórhuga og kraftmikið athafnafólk ásamt framsýnu stjórnmálafólki, og dugnaði og vinnusemi Íslendinga, hefur þó stuðlað að sjálfstæði og sjálfbærni íslensks atvinnulífs."
- brot úr ávarpi í hátíðarritinu
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs