Viðskiptaráð Íslands

Getum gert miklu betur!

Viðmið um góða stjórnarhætti hafa með reglubundnum hætti verið í almennri umfjöllun fyrrihluta þessa áratugar. Ljóst má vera að útgáfa Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Kauphallarinnar á leiðbeiningum á því sviði hefur átt drjúgan þátt í því. Því miður er það hins vegar svo, þegar rýnt er til fortíðar, að umræðan náði ekki þeim árangri sem vonast var eftir. Almennar viðtökur við leiðbeiningunum ollu útgáfuaðilum þeirra og öðrum vonbrigðum. Þá virðist sem eftirfylgni við þær hafi í of mörgum tilfellum verið meira í orði en á borði.

Að einhverju leyti kemur þó ekki á óvart að reyndin hafi verið þessi, enda skorti íslenskt atvinnulíf reynslu af því að góðir stjórnarhættir leiddu alla jafna til hagfellds rekstrarárangurs og að slakir stjórnarhættir leiddu til síðri árangurs. Vegna þessa má segja að væntingar útgáfuaðila til þess að viðskiptalífið tæki af skarið á þessu sviði, án sérstaks stuðnings, hafi að einhverju leyti verið óraunhæfar. 

Dapra reynslu síðustu ára ætti hinsvegar að nýta og draga af henni lærdóm.  Nýjar og viðameiri leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja, sem unnar voru í samstarfi við fjölda aðila, litu dagsins ljós um mitt síðasta ár. Líkt og kemur fram í inngangsorðum þeirra þá er þeim einungis ætlað að vera fyrsta af mörgum skrefum á þessu sviði – eftirfylgnin verður nú í aðalhlutverki.

Annað skrefið var stigið þegar útgáfuaðilar leiðbeininganna buðu íslenskum fyrirtækjum uppá kynningarfundi á efni þeirra og aðstoð við innleiðingu, sem stendur enn til boða. Þá hóf Háskólinn í Reykjavík að bjóða uppá námsskeið um stjórnarhætti fyrirtækja og hefur það fengið talsverðan meðbyr meðal stjórnenda fyrirtækja.

Þriðja skrefið fólst í því að Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins óskuðu eftir því við fjármálaráðuneytið að löggjöf á sviði ársreikningaskila yrði samræmd því sem gerist í helstu samanburðarlöndum. Miðar það að því að bæta ársreikningaskil fyrirtækja hérlendis, en mikið hefur vantað uppá til að þau teljist ásættanleg.

Fjórða skrefið var svo stigið nú í síðustu viku þegar útgáfuaðilar leiðbeininganna, í samvinnu við rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands, stóðu fyrir ráðstefnu um stjórnarhætti undir yfirskriftinni Getum gert miklu betur! Lagði fjöldi aðila hönd á plóg við undirbúning og framkvæmd ráðstefnunnar, innlendir jafnt sem erlendir, og eru þeim þakkir veittar fyrir. Í erindum framsögumanna og pallborðsumræðu var drepið á mörgu sem huga þarf að í framhaldinu.  Meðal þess var m.a. að:

  • Góðir stjórnarhættir hafa jákvæð áhrif á rekstur fyrirtækja, t.a.m. verðmæti og fjármagnskostnað, og geta því aukið samkeppnishæfni þeirra
  • Stjórnendur verði að meina og þá standa við það sem sagt er, áherslan á góða stjórnarhætti verður að endurspeglast í starfsemi fyrirtækja
  • Efla aðkomu smærri hluthafa og efla virkni hluthafafunda, t.a.m. með því að veita hluthöfum beinan aðgang að endurskoðendum
  • Öll fyrirtæki hafa tök á að fylgja leiðbeiningum um góða stjórnarhætti með einum eða öðrum hætti og ársreikningar fyrirtækja verða að geyma skýringar á frávikum sé þeim ekki fylgt að öllu leyti
  • Hlutverk stjórna og vinnuframlag stjórnarformanns þarf framvegis að vera viðameira en tíðkast hefur
  • Skilvirk löggjöf á sviði fyrirtækjarekstrar skiptir verulegu máli um árangur viðskiptalífsins og að beita verður viðurlögum við brotum
  • Rétt samsetning stjórna, frumkvæði í að kalla eftir upplýsingum og þekking stjórnarmanna á rekstri, lagalegri og samfélagslegri ábyrgð og á góðum stjórnarháttum skiptir mestu fyrir velgengni þeirra
  • Leiðbeiningar um stjórnarhætti hafa mikil áhrif, en þær þarf að uppfæra reglulega og þurfa að innihalda þá þætti sem mestu skipta
  • Efla þarf markvisst samstarf atvinnulífssamtaka, fyrirtækja, hluthafa, fjölmiðla, fjárfesta, háskólasamfélagsins og almennings á þessu sviði

Nú þegar má merkja að fyrirtæki eru í auknu mæli að taka til sín þessa þætti og tileinka sér viðmið um góða stjórnarhætti og er það vel. Reglulegar fyrirspurnir frá fyrirtækjum, aðsókn stjórnenda á áðurnefnt námskeið sem og ráðstefnuna ásamt mikilli dreifingu leiðbeininganna renna stoðum undir það.  Er það til marks um að sú hugarfarsbreyting sem kallað hefur verið eftir sé þegar að eiga sér stað. Við sem komum að atvinnulífinu með einum eða öðrum hætti eigum að hvetja til að áframhald verði þar á og vera hvort öðru góð fyrirmynd á þessu sviði.

Sagan sýnir hins vegar að frekari eftirfylgni er þörf og munu Viðskiptaráð Íslands og aðrir útgáfuaðilar leiðbeininga um góða stjórnarhætti ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum. Næsta skrefið er þegar ákveðið og verður það í formi úttektar á framfylgni fyrirtækja við leiðbeiningar um góða stjórnarhætti. Hefur áðurnefnd rannsóknarmiðstöð tekið það verk að sér og gert er ráð fyrir að fyrsta úttektin verði gefin út á næsta ári.

Þá hefur starfshópur stjórnar Viðskiptaráðs um sjálfbærni atvinnulífsins hafist handa við frekari verkefni. Er þar annars vegar um að ræða gagnagátt þar sem helstu upplýsingum um stjórnarhætti íslensks viðskiptalífs verður komið á framfæri á almennum vettvangi. Á grunni þessarar gáttar er svo ætlunin að gefa árlega út stjórnarháttavísitölu til að mæla árangur viðskiptalífsins á þessu sviði. Starfshópurinn mun víða leita fanga og samstarfs við undirbúning þessara verkefna. Ráðgert er að gagnagáttin verði tekin í notkun um mitt næsta ár og að vísitalan verði gefin út samhliða því.

Þegar kemur að innleiðingu góðra stjórnarhátt í íslensku viðskiptalífi, þá er ljóst að við getum gert miklu betur en á undanförnum árum.  Sú vegferð mun taka nokkurn tíma, en fyrstu skrefin hafa þegar verið stigin og ég er þess fullviss að okkur mun miða vel á þeirri leið.

Tómas Már Sigurðsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024