Viðskiptaráð Íslands

Athafnir verða að fylgja orðum

Í síðustu viku stóðu Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins, Kauphöllin og rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti fyrir vel sóttri ráðstefnu um stjórnarhætti fyrirtækja. Í pallborðsumræðum var m.a. rætt um með hvaða hætti mætti koma að úrbótum í stjórnarháttum fyrirtækja hér á landi, en yfirskrift ráðstefnunnar var: Getum gert miklu betur!

Þátttakendur í pallborði voru þau Vilhjálmur Bjarnason, framkvæmdastjóri Samtaka fjárfesta, Þóranna Jónsdóttir, framkvæmdastjóri samskipta- og viðskiptaþróunar Auðar Capital, Salvör Nordal forstöðumaður siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, Dr. Eyþór Ívar Jónsson, forstöðumaður rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands og Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.



Hljómar vel en virkar ekki
„Menn verða að meina það sem þeir segja og fara í raun eftir leiðbeiningum um stjórnarhætti“ sagði Salvör Nordal. Að hennar mati er alveg ljóst að flott umfjöllun um stjórnarhætti og samfélagsábyrgð í ársskýrslum fyrirtækja hafi ekki endurspeglast í starfsemi þeirra. Þá nefndi Salvör að hugtak líkt og samfélagsábyrgð væri afar viðamikið og því oft kastað fram til að hljóma vel, en hugur og verk yrðu að fylgja.

Halda þarf umræðunni á lofti
Eyþór Ívar Jónsson fjallaði stuttlega yfir þá fyrirmynd sem rannsóknarmiðstöðin við Háskóla Íslands horfir til við, sem er The Coalition for Good Governance í Kanada. Að mati Eyþórs þyrfti meira til en að setja reglur og að mæla eftirfylgni við þær, heldur þyrfti almennt að breyta viðhorfum í garð góðra stjórnarhátta. Þar skiptir ekki síður máli að skoða mikilvæga aðila á markaði, t.d. endurskoðendur og lífeyrissjóði, og að halda umræðunni um góða stjórnarhætti á lofti.

Rétt samsetning og verklag aðalatriðin
Þóranna Jónsdóttir sagði mestu skipta hvernig stjórnir haga störfum sínu dag frá degi og í því sambandi ætti hlutverk þeirra að vera mun víðtækara en verið hefur. Í því felst m.a. að kalla eftir upplýsingum, en Þóranna taldi að undanfarin ára hafi valdið legið talsvert mikið fyrir utan stjórnirnar.

Þá sagði Þóranna að viðamikil endurskoðun hérlendis og erlendis á leiðbeiningum um góða stjórnarhætti geti vaxið mönnum í augum, en ef rýnt er í efnið þá er í flestum tilvikum um grundvallarþætti að ræða. Eftirfylgni við leiðbeiningar á þessu sviði væri því ekkert stórmál, ef stjórnir væru á annað borð að gera það sem þær eiga að vera að gera.



Bera þarf virðingu fyrir hluthöfum
Aðspurður um það hvernig fjárfestar geti beitt sér fyrir því að góðir stjórnarhættir séu viðhafðir taldi Vilhjálmur Bjarnason grundvallaratriði að fyrirtæki bæru virðingu fyrir hlutafélagalögum. Þá nefndi hann að hluthafar væru nánast útilokaðir frá því að ná nokkru fram, nema í gegnum stjórnir fyrirtækja. Þeir hefðu því þann valkost einan að kjósa með fótunum.

Vilhjálmur taldi að þrennt þyrfti einna helst að koma til á næstu misserum, í fyrsta lagi að hluthafafundir væru virkir, í öðru lagi að fyrirtæki bæru virðingu fyrir lögum og hluthöfum og í þriðja lagi að hluthafar gætu haft beint samband við endurskoðendur fyrirtækjanna.

Mikilvæga reynslu skorti
Finnur Oddsson sagði helstu mistök þeirra sem stóðu að útgáfu leiðbeininganna á sínum tíma hafa verið þau að gera of miklar væntingar til atvinnulífsins um að farið yrði eftir þeim án aðhalds. Þá hafi jafnframt skort reynslu innan atvinnulífsins á góðu gengi þegar farið er eftir viðmiðum um góða stjórnarhætti og svo slæmu gengi þegar það er ekki gert, sú reynsla hefur að einhverju leyti orðið til nú.

Tók Finnur undir með Salvöru og sagði það grundvallaratriði að atvinnulífið vildi sjálft breyta vinnubrögðum og að það þurfi að skipta máli fyrir fyrirtæki að standa rétt að stjórnarháttum. Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Kauphöllinn munu haga sinni vinnu í samræmi við þetta m.a. með því að koma á framfæri með reglulegum hætti við fjárfesta, fjölmiðla, almenning, fyrirtækin sjálf o.fl. upplýsingum um fyrirkomulag stjórnarhátta. Með því væri búin til ástæða fyrir fyrirtækin að vilja tileinka sér viðmið um góða stjórnarhætti.

Ekki of mikla svartsýni
Í frekari umræðum meðal fundargesta og aðila pallborðsins kom m.a. fram það sjónarmið að víða væri horft til nýju leiðbeininganna innan atvinnulífsins og að veruleg breyting hafi orðið í framhaldi af umræðunni um mikilvægi góðra stjórnarhátta. Ekki mætti því vera of svartsýn á framvindu þessa verkefnis, þar sem mikið hafi áunnist upp á síðkastið.

Tengdar fréttir:
 - Bæta þarf stjórnarhætti til frambúðar
 - Góðir stjórnarhættir skipta máli

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024