Viðskiptaráð Íslands

Óljóst hlutverk samráðsnefndar

Í apríl s.l. tilnefndi fjármálaráðherra starfshóp sem ætlað var að móta og setja fram heildstæðar tillögur um breytingar og umbætur á skattkerfinu. Samhliða starfshópnum var sett á laggirnar samráðsnefnd sem hugsuð var sem vettvangur upplýsingamiðlunar og skoðanaskipta fyrir starfshópinn. Þar áttu sæti ýmsir aðilar vinnumarkaðarins, en hópnum var ætlað að skila áfangaskýrslu til fjármálaráðherra fyrir 15. júlí n.k.

Nú berast fréttir úr fjármálaráðuneytinu þess efnis að auka eigi skatta og aðrar álögur á atvinnulífið um 11 ma. kr. Áætlað er að lækka viðmiðunarfjárhæðir auðlegðarskatts og ráðast í aðrar sértækar skattahækkanir, en þetta var ákveðið af ríkisstjórninni fyrr í vikunni. Ekki er gert nánar grein fyrir þessum aðgerðum en nú er þegar ljóst að fyrri tilraunir ríkisstjórnarinnar til aukinnar tekjuöflunar, m.a. með þeim breytingum sem farið var í á skattkerfinu nú um áramótin, hafa engan vegin skilað tilætluðum árangri. Þar má helst nefna hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi sem ekki hefur skilað ríkinu þeim tekjum sem gert var ráð fyrir. Þá hafa aðrir skattstofnar gefið verulega undan.

Einkennilegt er að boða til samráðs við fjölda aðila um mótun tillagna á skattkerfisbreytingum þegar ríkisstjórnin virðist nú þegar hafa afgreitt þær fyrir sitt leyti. Óljóst er hvaða hlutverki áðurnefndri samráðsnefnd er ætlað í framhaldinu, en hana áttu að skipa fulltrúar fjölda hagsmunaaðila ásamt fulltrúum þingflokka. Ætla má að hvati þessara aðila til að setjast aftur að samráðsborði stjórnvalda verði að engu ætli þau að viðhafa vinnubrögð sem þessi. Í öllu falli eru skilaboð af þessu tagi – nú þegar róa þarf öllum árum að því að leysa umfangsmikinn vanda ríkisfjármála – afar óheppileg. Stjórnvöld þurfa að gera betur ætli þau að skapa samstöðu um erfiðar aðgerðir næstu missera.

Tengt efni

Einfalda megi skattkerfið

Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, fullyrti að einfalda …
16. janúar 2026

Myndband: Er ríkið farið að þjónusta sig sjálft?

Lísbet Sigurðardóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, fjallar um opnunartíma …
15. janúar 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs 2026

Aðalfundur Viðskiptaráðs Íslands fer fram þriðjudaginn 10. febrúar kl. 11:30 í …
13. janúar 2026