Ör vöxtur hefur einkennt íslenskan tækniiðnað undanfarið, sérstaklega hugverkaiðnaðinn, en áætluð þörf fyrir tæknimenntaða einstaklinga út í atvinnulífið er um 2-3.000 manns næstu þrjú árin. Íslenskt atvinnulíf árið 2015 tekur því af skarið og óskar eftir verk- og tæknifræðingum til starfa. Í boði eru spennandi störf í alþjóðlegu umhverfi með möguleika á erlendum tengslum. Bæði Háskólinn í Reykjavík og Háskóli Íslands bjóða upp á það nám sem er lykill ungs fólks að þessum störfum.
Nýtt samstarfsverkefni
Félags- og tryggingamálaráðuneytið ásamt Vinnumálastofnun hafa í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins ýtt úr vör nýju verkefni fyrir atvinnuleitendur sem áhuga hafa á tækninámi. Verkefnið byggist á því að Vinnumálastofnun mun greiða skóla- og skráningargjöld í eitt skólaár fyrir atvinnuleitendur sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og eru á atvinnuleysisskrá.
Gerðir hafa verið samningar við Háskólann í Reykjavík, Háskóla Íslands, Háskólann á Bifröst og Keili þar sem nemendur geta hafið nám til bakkalár- eða diplómagráðu, en einnig stendur til boða frumgreinanám. Nú þegar í haust er áætlað að 150 einstaklingar geti hafið nám við skólana.
Tækifæri fyrir ungt fólk
Samhliða þessu hefur verið ákveðið að kynna fyrirtækin fyrir áhugasömum atvinnuleitendum og hafa því fjölmörg fyrirtæki á þessu sviði boðist til að opna dyr sínar í þeim tilgangi. Fyrirtækin eru m.a. Bláa lónið, CCP, Héðinn, Ístak, Marel, Marorka, ORF líftækni, Roche NimbleGen, Stiki og Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar. Þau munu hýsa kynningarfundi um tækninám fyrir atvinnuleitendur og kynna þar verkefnið ásamt eigin starfsemi.
Hugmyndin með þessu samstillta átaki er að vinna með þau tækifæri sem sköpuð hafa verið í hugverkaiðnaði á undanförnum árum ásamt því að skapa ungu fólki ný tækifæri samhliða. Mun þetta styðja við áframhaldandi uppbyggingu á þessum iðnaði sem er löngu orðinn mikilvægur íslensku efnahagslífi.
Ástandið í dag
Áhyggjur eru nú meðal fyrirtækja hér á landi um vaxandi skort á tæknimenntuðu fólki, en það mun hamla vexti og uppbyggingu þeirra á næstu árum. Er verkefninu m.a. ætlað að snúa þessari þróun við.
Íslensk hugverkafyrirtæki hafa vaxið mun hraðar en búist hefur verið við og nú eru starfandi sterk og öflug sprota- og þekkingarfyrirtæki m.a. á sviðum: orku- og umhverfistækni, vél- og rafeindatækni fyrir sjávarútveg og matvælavinnslu, líftækni, heilbrigðistækni, upplýsingatækni og í leikjaiðnaði. Í þessum hópi eru fyrirtæki sem byggð hafa verið upp á síðustu 10-15 árum og búa yfir vel menntuðu starfsfólki með mikla þekkingu á sínu sviði.
Mikið vægi hugverkaiðnaðar hér á landi
Hugverkaiðnaðurinn er orðinn ein af stoðum íslensks viðskiptalífs og var fimmtungur af útflutningstekjum Íslendinga árið 2009. Þrátt fyrir þetta er fjöldi tæknimenntaðra hér á landi langt undir meðallagi miðað við nágrannalönd okkar. Þetta kemur fram í gögnum Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat), en þar eru þjóðir eins og Danir, Finnar og Írar mjög ofarlega á lista.
Ljóst er að hér eru enn mikil tækifæri og vaxtamöguleikarnir óþrjótandi. Mikilvægt er að hlúð sé að þessu umhverfi til að koma í veg fyrir það að fyrirtæki með þörf fyrir tæknimenntað fólk neyðist á komandi árum til að flytja út fyrir landssteinana. Þetta samstarfsverkefni er liður í því.
Nánari upplýsingar fyrir áhugasama má nálgast á vefsíðu Vinnumálastofnunar.