Samkeppnishæfni Íslands dalar milli ára en landið er nú í 31. sæti á lista Alþjóða efnahagsráðsins (e. World Economic Forum) yfir samkeppnishæfni landa. Fyrir ári síðan var Ísland í 26. sæti og því ljóst að mikil afturför hefur átt sér stað upp á síðkastið. Stærstu vandamálin hér á landi sem rætt er um í skýrslunni eru aðgengi að fjármagni, gjaldeyrishöft, verðbólga og skattkerfið. Þessi fjögur atriði eru stærstu áhrifavaldar þess hversu illa landið stendur í samanburði við aðrar þjóðir.
Í máli Dr. Seiichiro Yonekura, á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í síðustu viku, var sýnt fram á nauðsyn samstarfs milli atvinnulífs og stjórnvalda við að marka framtíðarstefnu fyrir efnahagslífið. Með samstilltu átaki hlutaðeigandi aðila skapast grundvöllur til að yfirstíga þann vanda sem íslenskt efnahagslíf er í um þessar mundir.
Vafalaust má rekja hluta af slakri samkeppnishæfni Íslands til þeirrar einhliða stefnu sem hefur einkennt ákvarðanatöku stjórnvalda upp á síðkastið. Stjórnvöld þurfa því, eins og kom fram í máli Dr. Yonekura, að leggja meiri áherslu á að skapa umræðuvettvang milli aðila í atvinnulífinu þegar ný stefnumörkun fer af stað. Raunverulegt samráð um væntanlegar tillögur stjórnvalda um frekari skattlagningu atvinnulífs og heimila væri upphaf á slíku ferli. Eingöngu þannig tekst að skapa umhverfi sem getur talist samkeppnishæft við samanburðarlönd okkar.
Sjá nánar um skýrsluna hér.