Viðskiptaráð Íslands

Vanhugsaðar skattkerfisbreytingar

Breytingar á skattkerfinu síðustu misseri hafa einkennst af fjótfærni af hálfu stjórnvalda. Komið hefur í ljós að margar þeirra hafa verið afar misráðnar og nauðsynlegt er að þær gangi til baka til þess að koma megi atvinnulífinu hér á landi af stað.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherraÁ opnum fundi Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins um skattamál í gærmorgun sagði fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, sig reiðubúinn að endurskoða sumar þær breytingar sem innleiddar voru - hafi þær verið misráðnar eða ef aðrar leiðir væru betri til að ná settum markmiðum. Um skattlagningu á innlánsreikninga í erlendri mynt sagði hann: „það má vera að sú aðferðarfræði sem verið er að prófa sé kannski ekki góð“.

Fjármálaráðherra tók vel í samstarf við atvinnulífið og fagnaði því að VÍ og SA legðu vinnu í skattamálin. „Ég fagna hressilegum skoðanaskiptum um þessi mál, ég virði ykkar sjónarmið og er jafnframt fús til uppbyggilegs samstarfs.“ Viðskiptaráð Ísland og fyrirtæki innan atvinnulífsins hafa gert ófáar tilraunir til samstarfs við stjórnvöld síðustu misseri og fagnar því ráðið þessum yfirlýsingum ráðherra.

Ráðherra tók einnig undir réttmæti gagnrýni á verklag stjórnvalda við breytingar á skattkerfinu og þarft væri að endurskoða það ferli. Viðskiptaráð benti m.a. á  í skoðun í júní að bæta þurfti verklag hjá hinu opinbera. Aðrir punktar sem ráðherra tók undir og eru í skýrslu VÍ og SA eru m.a.:

  • Bætt verklag við breytingar á skattalöggjöf
  • Skattaleg meðferð skuldaniðurfellinga fyrirtækja við okkar erfiðu aðstæður
  • Ívilnanir fyrir nýsköpunarfyrirtæki
  • Skattlagning gengishagnaðar á innlánsreikningum í erlendri mynt
  • Ákvæði um þunna eiginfjármögnun

„Þetta og fleira get ég nefnt sem allt er fullgilt að þarfnast skoðunar“ sagði ráðherra.

Skattahækkun ranghugmynd
Í ræðu sinni hélt ráðherra því fram að skattar hefðu ekki hækkað mikið þar sem þeir hefðu aðeins hækkað lítillega í hlutfalli við landsframleiðslu síðustu tvö ár. Þá benti ráðherra á að hækkun skatttekna, í hlutfalli við landsframleiðslu, hafi numið sem svarar um 2,3% af VLF. „Á sama tíma hafa frumgjöld ríkissjóðs lækkað um 4,5%. Þannig hefur lækkun útgjalda borið uppi aðhaldsaðgerðirnar og verið 2/3 hlutar þeirra en tekjubreytingar þriðjungur.“ Bætir hann við að þessar tölur sýni glöggt að staðhæfingar þess efnis að aðlögun ríkisfjármála hafi verið lítil og fyrst og fremst fólgin í hækkun skatta eru einfaldlega rangar.

Sérkennilegir útreikningar fjármálaráðherra
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri ViðskiptaráðsFinnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, stýrði fundinum í gærmorgun og gerði athugasemd við þessa útreikninga fjármálaráðherra. „Það hve undarlegir þessi útreikningar eru má glögglega sjá ef við gefum okkur að skattar á tiltekna vöru eða þjónustu hækka um 100%. Hækkunin veldur því að minna er selt af viðkomandi vöru eða þjónustu og tekjur ríkissjóðs dragast saman í hlutfalli við landsframleiðslu. Er þá skattahækkunin í raun skattalækkun? Þarna er alveg horft framhjá þeim afleiðingum sem sem skattahækkanir hafa á undirliggjandi skattstofna.“

Með sömu rökum mætti halda því fram að þegar skatttekjur tapast við það að fólk og fjármagn flýji land og leiti skjóls í öðrum skattalögsögum að þá hafi skattar lækkað.  Skattstofnar hafa veikst að undanförnu og skilar sú veiking minni tekjum í ríkiskassann. Það vekur nokkra furðu að stjórnmálamenn skuli halda þessu fram þar sem rök sem þessi virðast styðja frekar við máflutning atvinnulífsins og annarra um að þær skattahækkanir sem ráðist var í myndu ekki skila tilskildum árangri. Kostnaður breytinganna er hins vegar bersýnilegur í lömuðu atvinnulífi og töpuðum skatttekjum.

Markmiðið er að afla tekna á hagkvæman máta
Finnur bendir á að ekki megi gleyma því að markmiðið er það er að afla tekna á hagkvæman máta. Nauðsynlegt er að draga úr halla ríkissjóðs en samhliða því að laga þær brotalamir sem eru á kerfinu. „Ég fagna því að fjármálaráðherra taki undir málflutning okkur um að ræða þurfi nánar margar af þeim tæknilegu breytingum sem þarf að ráðast í.“

Pallborð stjórnenda og skattasérfræðinga

Gilda önnur lögmál um viðhald?
Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest og stjórnarmaður í Viðskiptaráði, tók í svipaðan streng og Finnur í pallborði fundarins. Benti Þórður á að rök fjármálaráðherra stæðust  ekki skoðun ef litið væri til átaksins Allir vinna sem felur í sér að veittar eru skattaívilnanir fyrir þá sem fara út í viðhald á húseignum. Þar viðurkenna stjórnvöld í raun að skattalækkanir auki umsvif í hagkerfinu. Spurði Þórður hvort önnur lögmál giltu um viðhald heimila en almennt í atvinnulífinu og benti á að miðað við rök fjármálaráðherra þá værum við að nálgast leiðarenda hvað skattheimtu varðar.

Hér má finna umfjöllun Viðskiptaráðs um tengd mál á síðustu misserum:

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024