Viðskiptaráð fagnar því frumkvæði sem nýjar tillögur verkefnisstjórnar Samráðsvettvangsins um breytingar og umbætur á skattkerfinu fela í sér. Endurskoðun á skattkerfinu sem miðar að aukinni skilvirkni og einfaldleika er löngu tímabært skref. Þrátt fyrir að skiptar skoðanir muni ríkja á meðal hagsmunaaðila um einstakar tillögur – og þar er Viðskiptaráð engin undantekning – er það von ráðsins að þær stuðli að málefnalegri og efnisríkri umræðu um leiðir til að auka hagkvæmni skattheimtu hérlendis.
Veigamiklir ágallar á skattkerfinu í dag
Íslenskt skattkerfi hefur neikvæðari áhrif á hegðun og lífskjör hérlendis en raunin þyrfti að vera. Viðskiptaráð benti á nokkra ágalla núverandi skattkerfis í kynningu á fræðslufundi VÍB:
Auk þessara atriða gerði ráðið nýlega úttekt á fasteignasköttum hérlendis þar sem eftirfarandi gallar komu í ljós:
Tekið á ýmsu en deila má um einstakar tillögur
Í tillögum verkefnisstjórnarinnar er tekið á ýmsum þeirra atriða sem nefnd eru hér að ofan. Þannig má til dæmis finna tillögur um að jaðarskattar á millitekjufólk verði lækkaðir umtalsvert, undanþágur frá virðisaukaskatti afnumdar og þrepin sameinuð, og fjármagnstekjuskattur lagður á raunávöxtun í stað nafnávöxtunar.
Ákveðnar tillögur eru þess eðlis að Viðskiptaráð slær varnagla við útfærslu þeirra. Þannig hefur ráðið til dæmis talað fyrir beinni gjaldtöku á ferðamannastöðum í stað hækkunar gistináttagjalds til að gjaldheimtan dragi úr átroðningi á vinsælustu ferðamannastöðunum og skapi hvata til uppbyggingar nýrra áfangastaða. Að sama skapi er mikilvægt að útfærsla annarra orku- og auðlindatengdra gjalda skaði ekki samkeppnishæfni umrædda atvinnugreina.
Hagkvæm skattheimta forgangsmál
Fyrirkomulag skattheimtu er eitt mikilvægasta hagsmunamál íslenskra fyrirtækja og einstaklinga. Í tillögum verkefnisstjórnarinnar kemur fram að fjórar af hverjum tíu krónum hérlendis fara til stjórnvalda í formi skatta. Það ætti því að vera efst á forgangslista stjórnvalda að tryggja að þessi umfangsmikla skattheimta hafi ekki neikvæðari áhrif á hegðun og lífskjör en þörf krefur.
Almenn skattastefna er stjórnmálalegt viðfangsefni, um það verður ekki deilt. Engu að síður hljóta flestir að geta sammælst um að framkvæmd og fyrirkomulag skattheimtu eigi að leiða til sem minnstrar sóunar. Breytingar sem miða að því væru í allra hag.
Það er von Viðskiptaráðs að framlagning tillagnanna leiði til málefnalegrar umræðu um endurbætur á fyrirkomulagi skattheimtu hérlendis. Ráðið hvetur sérstaklega þau stjórnmálaöfl sem nú eru í framboði til Alþingis til að gera grein fyrir sýn sinni á fyrirkomulag skattheimtu hérlendis enda veigamikill þáttur í samkeppnishæfni Íslands.