Í kjölfar bankahruns hefur mikið verið fjallað um endurreisn heimila, atvinnulífs og hagkerfis, en sitt sýnist hverjum um gang mála. Gjarnan veltur sú afstaða á því hvar menn eru í pólitík og hvort þeir koma úr atvinnulífinu eða ekki. Flestir geta þó verið sammála um að hraðari uppbyggingar er þörf. Við blasir þó að leiðin til endurreisnar hefur verið þyrnum stráð, en það væri að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um þá þyrna hér, hvort sem þeir taka á sig mynd milliríkjadeilna um innlánsreikninga, hringlanda í afstöðu stjórnvalda til atvinnuuppbyggingar, eldgosa eða dóma um lögmæti gengisbundinna lána. Þar að auki gefa nýlegar tölur Hagstofunnar til kynna að þau veiku merki sem sáust um hagvöxt í upphafi árs hafi verið tálsýn.
Þessir þyrnar gera reyndar meira en að torfæra nauðsynlegt endurreisnarferli, heldur birgja þeir sýn á fjöldamörg mikilvæg málefni. Afleiðingin er sú að þau eru ekki tekin til grundaðrar umræðu eða ná fram að ganga gagnrýnislítið. Eitt þeirra lítur að umsvifum hins opinbera í hagkerfinu og þátttöku í atvinnulífi.
Aukin opinber umsvif kalla á skattahækkanir
Það er ekki umdeilt að auknum ríkisumsvifum fylgja auknar skattaálögur og tilheyrandi neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi, þar sem minna svigrúm verður fyrir starfsemi einkaaðila. Um leið er það forsenda langtímahagsældar að kraftar einkaframtaksins séu nýttir enda er vöxtur í framleiðni einkageirans meiri en hjá hinu opinbera. Því má segja að þróun í átt að auknum umsvifum hins opinbera dragi úr hagvaxtarhorfum og grafi undan markmiðum um endurreisn hagkerfisins.
Frá hruni er hinsvegar ljóst að umsvif hins opinbera hafa vaxið og ítök ríkis í atvinnustarfsemi hafa aukist. Þetta endurspeglast m.a. í eignarhaldi á íslenskum fyrirtækjum undir forsjá banka, sem eru að einhverju eða mestu leti í eigu ríkisins. Mögulega má segja að hér sé um að ræða óhjákvæmilegar afleiðingar bankahrunsins en þó veldur stefna stjórnvalda í þessum efnum vonbrigðum og torfærir veginn til bata hagkerfisins og endurheimt lífskjara.
Fjölgun opinberra starfa
Á milli áranna 2008 og 2009 fjölgaði opinberum störfum um 300. Á sama tíma fækkaði störfum verulega á almennum markaði með tilheyrandi atvinnuleysi. Ástæðurnar eru margvíslegar, en meðal þeirra eru boðaðar áherslur stjórnvalda um að tilfallandi verkefnum ríkisstofnana skuli úthýst í sem minnstum mæli og stöðugt skjóta upp kollinum hugmyndir um frekari þátttöku hins opinbera á samkeppnismarkaði. Á liðnu sumri hafa t.a.m. verið reifaðar, í fullri alvöru, hugmyndir um að endurvekja Lyfjaverslun ríkisins, að ríkið hefji strandflutninga og að setja þurfi á stofn Ráðningarstofu ríkisins. Þar að auki hefur ekki komið skýrt fram hve lengi hið opinbera hyggist koma að eignarhaldi og rekstri banka og sparisjóða hérlendis.
Afturhvarf til fortíðar
Þó svo vandræðagangur hafi verið augljós í ýmsum ofangreindra verkefna, eins og t.a.m. ráðningum í áberandi opinberar stöður, þá hefur hann ekkert með slælega þjónustu einkaaðila að gera. Einkaaðilar hafa og munu verða fullfærir um að sinna þeirri þjónustu fyrir hið opinbera, fyrirtæki og heimili og gildir þá einu hvort þjónusta lýtur að verslun með lyf, ráðgjöf um ráðningar, banka- eða flutningastarfsemi. Sérfræðiþekkingin er til staðar innan einkageirans og afar dýrt og óskilvirkt yrði að byggja hana upp aftur á vegum hins opinbera. Um leið yrði rekstrargrunni kippt undan heilbrigðri atvinnustarfsemi, sem stendur undir opinberum tekjum og þeirri velferðaþjónustu sem þær borga.
Þó svo margt í íslensku atvinnulíf krefjist rýni í kjölfar hremminga síðustu missera, þá eru þessar hugmyndir fjarstæðukenndar og skýrt dæmi um afturhvarf til fortíðar. Á tímum erfiðleika í atvinnu- og efnahagslífi er afar brýnt að hið opinbera fylgi af festu eftir skynsamlegri og hagnýtri stefnu um eflingu atvinnustarfsemi. Það fer vel á því að þar markist opinber þjónusta við þau verkefni sem hinu opinbera fellur best að sinna og áhersla lögð á að lágmarka röskun sem opinber starfsemi skapar á fjármagns- og vinnumarkaði. Með þeim hætti styrkja stjórnvöld rekstrarumhverfi, efla atvinnulíf, draga úr atvinnuleysi og treysta þá tekjugrunna sem þjónusta hins opinbera byggir á.
Tálsýnin um hagvöxt
Nýlega voru birtar tölur um þróun hagkerfisins á undanförnum misserum sem benda til þess að sá efnahagsbati, sem veik merki sáust um í upphafi árs, hafi verið tálsýn. Skjótur bati hagkerfisins er sameiginlegt markmið allra aðila efnahagslífsins og ljóst má vera að lausnin á þeim vanda að umbreyta tálsýninni um hagvöxt í áþreifanlegan vöxt felst ekki í auknum opinberum atvinnurekstri.
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands