Viðskiptaráð Íslands

Úrlausn á skuldavanda heimila og fyrirtækja í forgang

Sú löggjöf sem nýlega var boðuð af efnahags- og viðskiptaráðherra kemur til með að draga úr óvissu um meðferð gengistryggðra bíla- og húsnæðislána heimila. Því ber að fagna þó deildar meiningar séu um hvort nægilega langt hafi verið gengið. Boðaðar aðgerðir eru þó skref í þá átt sem þarf að fara.

Frá bankahruni hafa gjaldþrot fyrirtækja aukist um nær helming og metur Seðlabankinn það svo að ígildi um 28 þúsund starfa hafi tapast í kreppunni. Kaupmáttur hefur dregist saman og eftirspurn í hagkerfinu í lágmarki auk þess sem fjárfesting hefur ekki verið minni í langan tíma.

Skuldavandi eftirspurnarinnar
Skuldaúrlausn heimila er ein forsenda þess að efla eftirspurn í hagkerfinu og styðja við fyrirtæki landsins enda eru hagsmunir heimila samtvinnaðir hagsmunum atvinnulífs með margvíslegum hætti. Atvinnulífið er nauðsynleg forsenda atvinnusköpunar og aukinna lífskjara og heimilin eru undirstaða þeirrar verðmætasköpunar sem gerir fyrirtækjunum kleift að halda uppi hagvexti. Eftir því sem lífskjör heimila batna og tekjur fyrirtækja aukast, þeim mun betur gengur að standa undir sameiginlegri þjónustu og því velferðarkerfi sem Íslendingar sækjast eftir.

Heimili og fyrirtæki eru í sameiningu uppspretta þeirrar eftirspurnar sem er lífæð hagkerfisins. Skuldavandi eftirspurnar dregur þrótt úr hagkerfinu og veikir þann efnahagslega bata sem er nauðsynlegur nú og á næstu misserum. Hagvöxtur er allra hagur og með markvissum skrefum stjórnvalda og fjármálakerfis sem miða að því að draga úr óvissu sem enn er til staðar um meðferð skulda heimila og fyrirtækja má leysa mörg af þeim afleiddu vandamálum sem nú er glímt við. Ekki er nægjanlegt að taka einungis á skuldavanda fyrirtækja eða heimila. Taka verður á vanda beggja stoða eftirspurnarinnar.

Forðumst uppvakninga í atvinnulífinu
Í upphafi árs gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn út skýrslu um endurskipulagningu skulda fyrirtækja í kjölfar fjármálakreppu. Í skýrslunni tilgreinir sjóðurinn tvö lykilatriði sem skal fylgja við endurskipulagningarferlið til að styðja við skjóta endurreisn hagkerfisins:

  1. Auðvelda upplausn fyrirtækja sem ólíklegt er talið að geti skilað viðvarandi hagnaði. 
  2. Stuðla að skjótri endurskipulagningu skulda hjá arðvænlegum fyrirtækjum og auðvelda aðgengi að nægilegri fjármögnun.

Ef tilmælum af þessum toga er ekki fylgt og ekki tekið markvisst á vanda illa staddra fyrirtækja er hætt við að doði leggist yfir atvinnulífið vegna fjölda uppvakninga (e.zombie companies) í röðum fyrirtækja. Víða um lönd, t.a.m. í Japan, má finna dæmi um að slík nálgun tefji fyrir endurreisn. Þó svo bankar sleppi til skemmri tíma við að sýna tap í bókum sínum, þá eru afleiðingarnar almennt óheppilegar fyrir atvinnulíf og bata hagkerfisins vegna þess að verðmætasköpun á grunni slíkra fyrirtækja er yfirleitt lítil sem engin. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að samfélagslegur skaði af langvarandi stöðnun sem þessari verði ekki reyndin hérlendis. Því verður að taka markvisst á vanda þeirra fyrirtækja sem eru lífvænleg svo flýtt sé fyrir endurreisn þeirra.

Frekari frestun á skuldaúrlausn ekki valmöguleiki
Þrátt fyrir að nú séu liðin tvö ár frá bankakreppunni þá ríkir enn óvissa um skuldastöðu heimila og fyrirtækja. Frestun á vandanum er eingöngu til þess fallin að lengja og dýpka efnahagslægðina og því er mikilvægt að hið opinbera sem og innlendar fjármálastofnanir taki af skarið og leysi úr þeim vandræðum sem mögulegt er að taka á í dag, samfélaginu til heilla.

Þó það sé ljóst að fáir hafi hag af því að ólífvænlegum fyrirtækjum sé haldið gangandi þá er það þjóðhagslegt hagsmunamál að til staðar séu skilvirk úrræði fyrir fyrirtæki sem eiga sér rekstrargrundvöll. Þannig er vörður staðinn um verðmætasköpun, atvinnustig og lífskjör. Skuldaúrlausn eftirspurnarinnar er því brýnasta hagsmunamál sem við stöndum frammi fyrir nú.

Við stöndum á slíkum tímamótum að nú verða hagsmunir heildarinnar, raunsæi og samstarfsvilji að ráða för. Stemma þarf stigu við frekari hrörnun hagkerfisins og vinna að skuldaúrlausn heimila og fyrirtækja með markvissum aðgerðum. Slíkar aðgerðir styðja við íslensk heimili og efla atvinnulífið til framtíðar.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024