Viðskiptaráð Íslands

Styrkjum fjárlagagerðina: Bindandi útgjaldaþak

Í upphafi mánaðarins kynnti ríkisstjórnin fjárlagafrumvarp ársins 2011 og hafa í kjölfarið spunnist umtalsverðar umræður um þær leiðir sem lagt er til að farnar séu. Hugmyndir um hvort ráðast eigi í niðurskurð eða skattahækkanir munu ætíð vera grundvöllur skoðanaskipta í þjóðfélaginu og skal engan undra að svo sé enda hafa báðar aðgerðir neikvæð áhrif á ólíka hagsmuni tiltekinna hópa. Ágreiningur um hvort áhersla eigi að vera á tekjuöflun eða útgjaldastjórnun ætti þó almennt ekki að koma í veg fyrir samstöðu á öðrum sviðum. Til að mynda ættu flestir að geta sammælst um mikilvægar úrbætur á ferli og framkvæmd fjárlaga, sem talsverðir annmarkar hafa verið á undanfarin ár. Slíkar úrbætur snúa að farsælli úrlausn stjórnvalda á stefnu sinni í ríkisfjármálum til lengri og skemmri tíma – þar fara hagsmunir allra saman.

Útgjaldaþak eykur gagnsæi og aga í ríkisfjármálum
Í nýlegri skoðun sem Viðskiptaráð gaf út mátti finna umfjöllun um nokkur atriði sem brýnt er að taka á til að styrkja fjárlagaferlið svo koma megi í veg fyrir að sú erfiða staða sem ríkissjóður er nú í endurtaki sig. Til að efla trúverðugleika fjárlagarammans ætti að innleiða bindandi útgjaldaþak fyrir hvert ráðuneyti yfir heilt kjörtímabil. Stjórnvöld hafa sett stefnuna á þetta fyrirkomulag, sem er vel, enda er það til þess fallið að auka gagnsæi og aga í ríkisfjármálum til lengri og skemmri tíma. Þar sem þakið er bindandi myndi það draga úr pólitískum þrýstingu á aukin útgjöld, óháð árferði í efnahagsmálum. Að auki myndi þetta fyrirkomulag auka framlag fjármálastjórnar ríkisins til jöfnunar á sveiflum í efnahagslífi og efla þannig tiltrú almennings og atvinnulífs á verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.

Samningar gerðir opinberir
Markvisst opinbert eftirlit með eftirfylgni ráðuneyta og forstöðumanna er ein forsenda þessa kerfis. Þannig þarf reglulega að taka út hvernig þeirri eftirfylgni er háttað og gera niðurstöður úttektarinnar opinberar líkt og nú gert er hjá Ríkisendurskoðun. Að sama skapi er mikilvægt að gera árangurssamninga einstakra ráðuneyta við stofnanir sínar opinbera, en það myndi m.a. gera aukið aðhald fjölmiðla og almennings mögulegt. Þau ráðuneyti og stofnanir sem ekki ná settu marki þurfa að mæta afleiðingum þess með afgerandi hætti, en að sama skapi væri unnt að fella inn í kerfið hvata til að ná settum markmiðum.

Fella ætti niður ónýttar fjárheimildir
Með því að áætla rekstrarkostnað stofnanna og ráðuneyta til lengri tíma er jafnframt dregið úr þörf á flutningi fjárheimilda milli ára. Fella ætti niður allar ónýttar fjárheimildir sem ekki eru markaðar tilteknum verkefnum. Þegar útgjaldaramminn tæki gildi myndu heimildirnar smám saman fjara út. Hvað ítrekaða framúrkeyrslu varðar, þ.e. uppsafnaðan halla tiltekinna stofnanna, þá þyrfti að draga þær að fullu frá fjárlögum næsta árs og viðkomandi stofnunum jafnframt sett afar ströng hagræðingarmarkmið til að heildarútgjöld þeirra myndu samræmast útgjaldaþaki næstu þriggja ára á eftir.

Óánægja opinberra aðila með fjárlagagerðina
Óánægjan með fjárlagaferlið endurspeglast einnig í viðhorfum forsvarsmanna ríkisstofnanna. Á nýlegum fundi á vegum Félags forsvarsmanna ríkisstofnanna voru kynntar niðurstöður könnunar þar sem kom fram að tæp 9% forsvarsmanna voru ánægðir með núverandi fyrirkomulag fjárlagagerðar. Þar var einnig tekið undir sjónarmið Viðskiptaráðs um að bæta þurfi áætlanagerð til lengri tíma, en um 90% forsvarsmanna voru hlynntir því að taka upp áætlanagerð til lengri tíma.

Brýnt er að hið opinbera horfi því bæði til þess hvernig taka megi á núverandi vanda og hvernig megi fyrirbyggja að staðan endurtaki sig. Skref í þeirri vegferð er að styrkja fjárlagaferlið til muna með því að innleiða bindandi útgjaldaþak.

Fyrri umfjöllun Viðskiptaráðs
Eins og áður sagði gaf Viðskiptaráð út skoðun í júní um ríkisfjármálin þar sem kynntar eru hugmyndir að bættum vinnubrögðum við fjárlagagerðina. Þá hefur ráðið hefur einnig gefið út skýrslur um fjármál hins opinbera síðustu misseri, Fjármál hins opinbera - aðrar leiðir færar sem kom út í desember í fyrra og Útþensla hins opinbera: orsakir, afleiðingar og úrbætur frá því í júní 2008.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024