Alþingi var sett á ný í upphafi mánaðarins en með því lauk lengsta löggjafarþingi Íslandssögunnar. Í stað heildarsamstarfs um lausnir á erfiðri stöðu heimila og atvinnulífs hefur pólitískur skotgrafarhernaður því miður í of mörgum tilvikum orðið ofan á. Þá skortir ríkisstjórninni forystu og getu til að koma brýnum verkefnum í framkvæmd hjálparlaust. Í samskiptum stjórnar og stjórnarandstöðu mætti einnig of oft ætla að þar ráði persónulegir hagsmunir framar hagsmunum Íslendinganna sem veittu þeim umboð sitt. Þessi sýn birtist nær daglega í stjórnun landsmála og á vafalaust stóran þátt í þeirri tilvistarkreppu og skorti á trúverðugleika sem hrjáir þingið á þessari stundu.
Ýtir undir málefnaleg samskipti
Í það heila eiga þó bæði stjórn og stjórnarandstaða hrós skilið fyrir það starf sem átti sér stað innan nefnda Alþingis á síðasta löggjafarþingi. Talsvert var leitað til hagsmunaaðila, innan atvinnulífs og meðal almennings, af hálfu nefnda til umsagnar og ráðgjafar við vinnslu frumvarpa og tillagna. Samstarf af þessu tagi er til þess fallið að ýta undir málefnaleg skoðanaskipti, draga að borðinu fleiri sjónarmið og auðvelda þar með nefndunum störf sín.
Bætt verklag nefnda er styrkleiki
Sérstaka athygli vekur jafnframt sú afgreiðsla sem frumvörp úr nefndum þingsins fengu á nýafstöðnu þingi. Öll frumvörp sem lögð voru fram af nefndum Alþingis voru afgreidd, sem er óvenjulegt miðað við meðferð slíkra frumvarpa síðustu ár. Bætt verklag og aukin lagasmíði nefndanna er styrkleiki sem vert er að viðhalda. Með virkara starfi nefndanna má gera ráð fyrir betri frumvörpum sem breiðari samstaða næst um og fá þar með skilvirkari afgreiðslu á þingi.
Skortur á samráði af hálfu framkvæmdavaldsins
Eins og áður segir þó virðist sem lengsta löggjafarþing til þessa hafi ekki borið þann árangur sem vonast var til. Skortur á samráði við hagsmunaaðila fyrirtækja og heimila af hálfu framkvæmdavaldsins og skökk forgangsröðun sem af því leiddi á þar stóran þátt. Til að gera vinnu stjórnvalda og Alþingis á nýju löggjafarþingi hnitmiðaðri og skilvirkari væri rétt að koma á fót formfastara samstarfi stjórnvalda, stjórnarandstöðu, atvinnulífs og almennings. Til þess er eflaust til fjöldi aðferða en ein gæti falið í sér einskonar skuggaþing atvinnulífs og almennings.
Árangur metinn með hliðsjón af heildarhagsmunum
Skuggaþingið myndi koma saman fyrir hvert löggjafarþing og leggja fram sameiginlegar áherslur atvinnulífs og heimila fyrir stjórn og stjórnarandstöðu til að hafa í huga í störfum sínum. Að sama skapi gæti skuggaþingið metið árangur þingsins að loknum þingstörfum með hliðsjón af hagsmunum samfélagsins í heild, bæði heimila og fyrirtækja. Að því gefnu að Alþingi tæki tillit til tillagna skuggaþingsins þá væri samstarf af þessu tagi til þess fallið að skapa meiri sátt um störf þingsins hverju sinni, sem ekki er vanþörf á, auk þess að veita þingmönnum í öllum flokkum talsvert aðhald.
Hér má nálgast nýjustu skoðun ráðsins:
Alþingi Íslendinga - Árangur af störfum þess metinn