Samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi rétt fyrir þinglok munu talsverðar breytingar verða á skattkerfi atvinnulífsins nú um áramót. Þar má einna helst nefna eftirfarandi atriði sem finna má í lögum nr. 164/2010:
Þessi þróun sem er nú framhaldið frá því í desember 2009 er bagaleg og mun koma til með að hafa veruleg áhrif á fjölda fyrirtækja og fólks, en Viðskiptaráð hefur gagnrýnt harðlega þessa stefnumörkun í umsögnum sínum og öðru starfi síðustu misseri eins og önnur atvinnulífssamtök. Þeirri gagnrýni verður viðhaldið á nýju ári samhliða því sem lagðar verða til lausnir, líkt og gert var t.a.m. með skattaskýrslu VÍ og SA í september síðastliðnum.
Jafnframt jákvæð atriði
Þrátt fyrir ofangreind atriði má þó tilgreina nokkur jákvæð atriði sem kveðið er á um í lögum nr. 165/2010 og munu koma til með að gagnast mörgum fyrirtækjum, t.a.m:
Greiðslufyrirkomulag opinberra gjalda og niðurfelling tekjuskatts
Þannig er í 58. gr. laganna kveðið á um dreifingu gjalddaga aðflutningsgjalda, vegna uppgjörstímabilsins nóvember og desember núna í ár, hjá þeim aðilum sem njóta greiðslufrests. Þannig skal þriðjungur af gjöldum þessa tímabilsins greiðast eigi síðar en 15. dag næsta mánaðar eftir lok tímabilsins, annar þriðjungur fyrir 15. dag annars mánaðar eftir lok tímabilsins og síðasti þriðjungurinn fyrir 5. dag þriðja mánaðar eftir lok tímabilsins.
Í 36. gr. er auk þessa að finna heimild til að færa til innskatts á virðisaukaskattskýrslu allan virðisaukaskatt vegna þessa tímabils þó einungis hluta af gjaldföllnum skatti hafi verið skilað á tímabilinu.
Þá er jafnframt í 37. gr. kveðið á um að lögaðilar og einstaklingar sem eru/hafa verið í atvinnurekstri og eru í vanskilum með virðisaukaskatt, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjald og þing- og sveitarsjóðsgjöld, sem gjaldféllu fyrir 1.1.2010 geti sótt um frest til greiðsluuppgjörs til 1.7.2011. Því miður féllst efnahags- og skattanefnd ekki á að færa tímamarkið til 1.1.2011, en líkt og Viðskiptaráð benti á var hér ekki tekið tillit til þess að skattskylda hefur í mörgum tilvikum skapast hjá fyrirtækjum sem farið hafa í gegnum endurskipulagningarferli á þessu ári.
Í 39. gr. er að finna heimild til handa tollstjóra að fallast á beiðni um niðurfellingu tekjuskatts að hluta, telji hann hagsmunum ríkissjóðs betur borgið með slíkri niðurfellingu. Gildir þetta um þá bæði skattaðila sem hafa fengið sértæka skuldaaðlögun samkvæmt lögum nr. 107/2009 og þá sem ekki hafa fengið slíka aðlögun. Sá hluti tekjuskattsins sem ekki er felldur niður fer á skuldabréf.
Frekari upplýsingar má jafnframt finna á heimasíðu Tollsins, sjá hér.
Skattlagning gengishagnaðar á innlánsreikningum
Önnur breyting til hins betra snýr að skattlagningu gengishagnaðar á innlánsreikningum, en sú skattlagning var tekin upp í fyrra og hefur reynst miklum erfiðleikum háð. Er það nú svo skv. 1. gr. ofangreindra laga að innleystur gengishagnaður af hvers konar innlánsreikningum og kröfum í erlendri mynt á því ári sem innlausn á sér stað skal færður til tekna og miðast við mismun á kaupgengi hlutaðeigandi erlends gjaldeyris frá 1. janúar 2010 eða síðar og á úttektar- eða greiðsludegi. Þá er jafnframt heimilt að jafna saman gengishagnaði og gengistapi hvers innlánsreiknings fyrir sig innan ársins.
Eftirgjöf skulda – hagkvæmari skattaleg meðferð
Samkvæmt b. lið 19. gr. laganna verður fyrirtækjum í endurskipulagningu heimilt í skattskilum sínum að færa á milli tekjuáranna 2010-2014 þann hluta af eftirgefnum skuldum sem eru umfram yfirfæranleg rekstrartöp, rekstrartap ársins, fyrningar og niðurfærslur. Skilyrði fyrir þessari yfirfærslu er að skattaðili hafi fyrnt að fullu að teknu tilliti til 42. gr. allar fyrnanlegar eignir sínar og nýtt mögulegar hámarksniðurfærslur á viðskiptakröfum og vörubirgðum. Þá er skilyrði að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2010 til og með 2014. Ríkisskattstjóri getur auk þess heimilað skattaðila að taka þátt í samsköttun og sameiningu við aðra skattaðila eða skiptingu upp í fleiri félög að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis.
Standi eftir í árslok 2014 eftirgjöf skulda sem er hærri en 500 m. kr. er skattaðila heimilt að færa það sem umfram er til tekna með jöfnum fjárhæðum á tekjuárunum 2015 til og með 2019. Sé eftirgjöf lægri en 500 m. kr. í lok árs 2014 færist hún ekki til tekna. Er þetta ákvæði hluti af samkomulagi um skuldaúrvinnslu lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem stjórnvöld, SFF, FA og Viðskiptaráð eiga meðal annarra aðkomu að, en allar helstu upplýsingar um það samkomulagið má finna hér.
Þá er kveðið á um það í 18. gr. laganna að sé kröfum breytt í hlutafé í stað þess að þær séu gefnar eftir skal litið á það sem fullnaðargreiðslu þeirra, hvort sem hluti hennar er felldur niður eður ei samhliða. Sé skipt á kröfu og hlutafé skal fara fram verðmat á hlutafénu og skuldari verður að tekjufæra mismuninn á því verðmati og bókfærðu verði kröfunnar.
Fjárfesting í nýsköpun – breytinga að vænta
Að lokum má nefna að breytingar voru gerðar á nýlega samþykktum lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki í þá veru að skattalegur hvati til handa fjárfestum að leggja fjármagn til slíkra fyrirtækja er felldur brott. Er þetta gert eftir ábendingar frá Eftirlitsstofnun EFTA, en Viðskiptaráð og fleiri eru í viðræðum við ráðuneytið um hvernig megi endurvekja þetta fyrirkomulag svo það haldi gagnvart skuldbindingum okkar skv. EES samningnum.
Frekari upplýsingar um þær breytingar sem verða á skattkerfinu um áramótin veitir Haraldur I. Birgisson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.