Á síðustu þremur Viðskiptaþingum hefur Viðskiptaráð fjallað um rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni hér á landi, endurreisnarstarf og áherslur til framtíðar ásamt stefnu í gjaldeyris- og peningamálum. Því miður hafa margir þessara þátta breyst lítið til hins betra og því væri vel unnt að endurtaka skilaboðin. Það væri hins vegar ekki í takt við brýnasta úrlausnarefni dagsins í dag, sem er að tryggja viðunandi hagvöxt hér á landi og bæta lífskjör landsmanna til framtíðar.
Það verður ljósara með hverjum deginum sem líður að þetta verkefni hvílir fyrst og fremst á herðum atvinnulífsins - atvinnulífið þarf að varða veginn. Það er því viðeigandi að á Viðskiptaþingi 2011 verði horft á grunnstoðir hagvaxtar ásamt því að fjalla um þau margvíslegu tækifæri til uppbyggingar sem byggja á grunni þeirra.

Þingið verður því að þessu sinni haldið undir yfirskriftinni „Tökumst á við tækifærin - Atvinnulíf til athafna, en samhliða þinginu verður gefin út fróðleg skýrsla um efni þess. Fjölbreytilegir framsögumenn verða á þinginu en að vanda mun forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, flytja erindi ásamt Tómasi Má Sigurðssyni, formanni Viðskiptaráðs.
Láttu þig ekki vanta - Viðskiptaþing 16. febrúar 2011!