Á morgun, miðvikudag, fer fram hið árlega Viðskiptaþing Viðskiptaráðs Íslands. Þingið er ein stærsta samkoma á ári hverju í íslensku viðskiptalífi og hefur það skapað sér mikilvægan sess í þjóðfélagslegri umræðu hér á landi. Það er kjörinn vettvangur til skoðanaskipta milli viðskiptalífs og stjórnmála, en þar koma saman forsvarsmenn breiðs hóps fyrirtækja í viðskiptalífinu, ráðherrar, alþingismenn og sendiherrar ásamt öðrum fulltrúm erlendra ríkja.
Er framtíð fyrir íslenskt atvinnulíf?
Yfirskrift Viðskiptaþings 2010 er: Er framtíð fyrir íslenskt atvinnulíf?, en meginefni þingsins varðar rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs ásamt sjálfbærni ríkisfjármála. Skráning fer fram hér á vef ráðsins, en skráningu lýkur klukkan 18 í dag.
Aðalræðumaður á þinginu er Dr. Richard Vietor prófessor við Harvard Business School, en hann mun í erindi sínu fjalla um uppbyggingu efnahagsáætlana sem miða að samkeppnishæfni þjóða. Með erindi sínu mun Dr. Vietor veita gestum þingsins góða mynd af leiðum til endurskipulagningar efnahagslífs og hlutverki stjórnvalda við uppbyggingu efnahagsáætlana.
Ríkisfjármálaskýrsla og viðhorfskönnun
Til umfjöllunar á Viðskiptaþingi 2010 verða meðal annars niðurstöður könnunar sem Capacent Gallup framkvæmdi fyrir Viðskiptaráð þar sem leitað var eftir viðhorfum forsvarsmanna fyrirtækja til helstu áhrifaþátta rekstrarumhverfis fyrirtækja. Gefin verður út skýrsla sem byggir á könnuninni en meðal þess sem fjallað var um eru úrræði fjármálastofnana vegna rekstrarvanda fyrirtækja, afstaða til gjaldmiðils og evrópumála og breytingar á skattaumhverfi.
Í tengslum við þingið verður einnig gefin út skýrsla um ríkisfjármál þar sem m.a. er rýnt í nýlegar skattabreytingar ríkisstjórnarinnar. Í skýrslunni kemur fram að lykilatriði sé að langtímastefna stjórnvalda stefni að því að aðlögunin fari fram í ríkari mæli með hagræðingu í ríkisrekstri fremur en stöðugum skattahækkunum. Niðurstaða könnunar þingsins sýnir svo ekki verður um villst að skattahækkanir muni reynast skammgóður vermir í baráttunni við skuldavanda ríkissjóðs.
Fækkun starfsfólks og samkeppni við hið opinbera
Í áðurnefndri könnun kemur fram að 45% forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja áætla að skattabreytingar stjórnvalda muni leiða til fækkunar starfsfólks í fyrirtækjum þeirra. Einnig telja 40% forsvarsmanna fyrirtækja í íslensku atvinnulífi opinberar stofnanir eða fyrirtæki í opinberum rekstri vera í samkeppni við sitt fyrirtæki.
Í könnuninni kemur einnig fram breytt viðhorf forsvarsmanna fyrirtækja til aðildar að Evrópusambandinu, en tæplega 60% forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja telja hagsmunum íslensks viðskiptalífs betur borgið utan Evrópusambandsins. Jafnframt var spurt um viðhorf atvinnurekenda til krónunnar en þar töldu forsvarsmenn um 51% fyrirtækja að viðskiptalífinu væri betur borgið með annan gjaldmiðil, en 37% aðspurðra töldu heillavænlegast að halda sig við krónuna.
Viðhorf atvinnulífs
Fulltrúar íslensks atvinnulífs munu taka þátt í pallborðsumræðum um málefni þingsins undir stjórn Eggerts Benedikts Guðmundssonar, forstjóra HB Granda. Þátttakendur í pallborðsumræðum eru: Ari Kristinn Jónsson (Rektor HR), Hermann Guðmundsson (Forstjóri N1), Rakel Sveinsdóttir (Framkvæmdastjóri CreditInfo), Svava Johansen (Forstjóri NTC) og Þorsteinn Pálsson.
Þingið hefst klukkan 13 og stendur til 16.30. Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu má nálgast hér.