Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, hélt erindi á árlegum degi félags innri endurskoðenda þann 25. mars síðastliðinn. Erindi Finns bar yfirskriftina Vinnubrögð atvinnulífsins, hvar stöndum við og hvert er ferð heitið? og fór hann þar yfir mikilvægi þess að stjórnir og stjórnendur tileinkuðu sér góða stjórnarhætti. Markviss eftirfylgni við leiðbeiningar á því sviði væri um margt svipuð því og fylgja öryggisvinnubrögðum í hættulegum atvinnurekstri.
Finnur sagði aðstæður, hvort heldur á vinnustöðum eða almennt, oft og tíðum styðja við röng vinnubrögð. Röng vinnubrögð væru auðveldari, fljótlegri og fælu í sér minni fyrirhöfn. Hér er t.a.m. vísað til þess að ekki sé farið að öryggisleiðbeiningum, hvort sem þær lúta að verkferlum eða vinnubrögðum. Það væri því verkefni stjórnenda fyrirtækja að láta öryggisvinnubrögð skipta máli og forðast þannig slys.
Ef horft væri almennt á atvinnurekstur þá sagði Finnur leiðbeiningar um góða stjórnarhætti af svipuðum toga og öryggisvinnubrögð. Eftirfylgni við leiðbeiningarnar krefðist aukins vinnuframlags og því auðveldara að hafa uppi röng vinnubrögð. Takist hins vegar vel til mætti koma í veg fyrir fjölda „slysa“ á borð við innherjaviðskipti, markaðsmisnotkun, slæm áhrif á viðskiptasambönd og ýmsar neikvæðar afleiðingar fyrir hagsmuni starfsmanna, eigenda og lánadrottna. Þá eru óátaldar ýmsar rekstrartruflanir, lögsóknir og samfélagslegur kostnaður.
Eftirfylgni við leiðbeiningar af þessu tagi er þó aðeins fyrsta skrefið. Aðrar „öryggisreglur“ þarf til að stunda eftirlit, mælingar og endurgjöf, t.a.m. á sviði upplýsingaskila, fjölbreytni stjórna, innra eftirlits og löggjafar á vinnumarkaði. Að þessu hefur starf Viðskiptaráðs miðað síðustu ár, en það hefur m.a. falið í sér samstarf um að efla ársreikningaskil, kynningarfundi, ráðstefnu, námsskeiðshald með Háskólanum í Reykjavík, samstarf um aukna fjölbreytni í stjórnum og aukin upplýsingaskil í gegnum Fyrirtækjagátt Viðskiptaráðs. Þá hefur ráðið, SA og Kauphöllin í samstarfi við Rannsóknarmiðstöð við HÍ sett á laggirnar formlegt úttektarferli á sviði stjórnarhátta. Markmiðið með þessari vinnu er að umgjörð atvinnurekstrar ýti undir góð vinnubrögð atvinnulífs er varða stjórnarhætti, fjölbreytni og gagnsæi. Markvisst aðhald innri endurskoðenda er mikilvægur þáttur þess að þetta markmið náist.
Tengt efni: