Viðskiptaráð Íslands

Efnahagslegar afleiðingar Icesave

Í gær stóðu Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Félag atvinnurekenda fyrir opnum fundi um Icesave þjóðaratkvæðagreiðsluna og vænt áhrif niðurstaðna hennar á efnahagsþróun. Um 130 manns sóttu fundinn sem haldinn á Hilton Reykjavík Nordica. Fundarstjóri var Elín Hirst. Á fundinum tóku til máls:

  • Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður og fulltrúi samninganefndar Íslands
  • Dóra Sif Tynes, lögmaður og fulltrúi Áfram hreyfingarinnar
  • Jón Helgi Egilsson, verkfræðingur og fulltrúi Advice hreyfingarinnar
  • Friðrik Már Baldursson, prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík
  • Ragnar Árnason, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands
  • Gylfi Zoega, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands
  • Auk ofangreindra var Guðmundur Björnsson verkfræðingur hjá GAMMA í pallborði.


Mikilvægi hagvaxtar
Friðrik Már Baldursson talaði um mikilvægi þess að umræðan um Icesave byggði á málefnalegum skoðanaskiptum. Í því ljósi benti hann á að tölurnar sem hér um ræðir væru ekki það háar í stóra samhenginu þegar horft væri til þess hve kostnaðarsöm stöðnun hagkerfisins er fyrir lífsgæði í landinu. Til að viðhalda lífsgæðum hér á landi þyrfti hagvöxtur að lágmarki að vera 3% á næstu árum, en kostnaður af töpuðum hagvexti á fáeinum árum gæti hæglega numið  200 mö. kr.

Matsfyrirtækið Moody‘s hefur sagt að væntanlega muni það færa Ísland niður í svokallaðan ruslflokk ef samningurinn verður ekki samþykktur. Friðrik sagðist ekki vilja vera með svokallaðan hræðsluáróður hvað þetta varðar, en áhrif af slíkri lækkun gætu orðið alvarleg. Benti hann á að skýr fordæmi fyrir neikvæðum áhrifum af verra lánshæfismati væru til staðar sem sjá mætti t.d. af því að skuldatryggingarálag hefur hækkað umtalsvert á Spáni, í Portúgal og hjá fleiri ríkjum undanfarin misseri sökum verra lánshæfismats. Því væri ljóst hve áhrifin gætu orðið neikvæð.

Friðrik sagði Icesave deiluna að mörgu leyti einfalt reikningsdæmi. Lausn á Icesave og lánafyrirgreiðsla Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) og Norðurlöndunum hefur verið tengd lausn deilunnar. Benti hann á að íslenska ríkið hefði að öllum líkindum farið í þrot ef ekki hefðu fengist fyrrgreind lán á síðustu árum. Synjun muni þar að auki almennt auka óvissu og hafa slæm áhrif á afnám gjaldeyrishaftanna. Lausn deilunnar dregur úr óvissu og mun hafa jákvæð áhrif á hagkerfið og liðka fyrir afnámi hafta.

Áhrif gjaldeyrishafta á Icesave
Ragnar Árnason sagði að umtalsverð óvissa ríkti um skuldbindingar ríkissjóðs ef Icesave samningurinn yrði samþykktur. Þá væri víst að um töluverðar fjárhæðir væri að ræða eða á bilinu 30 til 60 milljarðar. Hann benti í því samhengi á að kostnaður við Kárahnjúkavirkjun var 120 milljarðar og tónlistarhúsið Hörpu tæpir 30 milljarðar.

Í erindi sínu fjallaði Ragnar m.a. um þá áhættuþætti sem til staðar eru í núverandi samningi. Einn stærsti áhættuþátturinn við Icesave samninganna, að mati Ragnars, er veiking krónunnar umfram  9%. Slík veiking gæti orðið kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð. Í því samhengi benti hann á að tengsl Icesave og afnáms gjaldeyrishafta. Núverandi gjaldeyrishöft væru að hafa mjög slæm áhrif á uppbyggingu atvinnulífs og brýnt væri að afnema þau sem fyrst. Hinsvegar gæti verið erfitt að afnema þau sökum áhrifa á skuldbindinga ríkissjóðs vegna Icesave ef samningurinn yrði samþykktur. Afnám haftanna gæti veikt gengi krónunnar sem myndi auka kostnað ríkissjóðs umtalsvert.

 

Afturhvarf til umræðuhefðar fyrri ára
Gylfi Zoega benti á í sínu erindi að það væri óásættanlegt að ríkið haldi upp óvissu um fjármögnun sína á næstu árum. Ríkið þyrfti að endurfjármagna skuldir sínar á komandi árum og því mikilvægt að tryggja aðgengi hins opinbera að langtímafjármögnun. Synjun samninganna myndi skapa aukna óvissu um þá fjármögnun sem og auka kostnað. Slík stefna væri meira í anda þess sem íslensku bankarnir gerðu árið 2007, þ.e. gera alltaf ráð fyrir því að fjármögnun fáist á ásættanlegum kjörum. Gylfi benti einnig á að mikilvægt væri að allir sérfræðingar gætu talað frjálst um málefni líðandi stundar án þess að vera settir í einhverjar hreyfingar með og á móti. Það væri einnig afturhvarf til fyrri tíma að setja hluti fram með þeim hætti að allir verði að tala í takt.

Gylfi benti jafnframt á að vissulega væru eftirstöðvar Icesave skuldarinnar töluverðar en ekki mætti gleyma því að erlendir kröfuhafar hafa tapað um 7.000 milljörðum á íslenska bankahruninu. Þeir hefðu tapað margfalt meira en nokkurn tímann íslenska ríkið. Gylfi benti á að fjölmörg stór mál biðu enn afgreiðslu sem þyrfti að flýta. T.a.m ætti eftir að leysa úr þeim vanda er snýr að 460 milljarða jöklabréfaeign erlendra aðila. Sá vandi væri mun alvarlegri en Icesave deilan enda væru engar eignir til staðar á móti skuldbindingunni ólíkt stöðunni í Icesave deilunni.

Að lokum benti Gylfi á að eitt stærsta vandamál hagkerfisins nú um stundir væri sú óvissa sem ríkti um eiginfé fyrirtækja. Slæm eiginfjárstaða hefði neikvæð áhrif á hagvöxt þar sem of mikil áhætta er til staðar um burði fyrirtækja til að ráðast í fjárfestingar. Draga þyrfti úr þeirri áhættu sem til staðar er með því að útkljá Icesave deiluna.

Tengdar fréttir frá fundinum (mbl.is):

Tengt efni

Björn Brynjúlfur í stjórn HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024