Á laugardag fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave samninginn sem samþykktur var af Alþingi í febrúar. Til að kynna mismunandi sjónarmið í tengslum við samninginn og áhrif hans á efnahagsþróun hér á landi stóð Viðskiptaráð Íslands fyrir opnum upplýsingafundi í gær á Hilton Reykjavík Nordica í samstarfi við Samtök atvinnulífsins, Samtök Iðnaðarins og Félag atvinnurekenda.
Á fundinum kynnti Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður og fulltrúi samninganefndar Íslands, Icesave III samninginn efnislega og fór yfir greinargerð nefndarinnar sem birt var í tilefni af nýju mati skilanefndar Landsbanka Íslands. Jóhannes tók fram að framsetning á áhrifum gengis íslensku krónunnar á kostnað við samninginn sé í mörgum tilfellum röng. Gengisvísitölugólf samningsins er miðað við geng krónunnar í apríl 2009 og öll lækkun á gengi núna hefur því ekki áhrif á skuldbindinguna nema það fari niður fyrir apríl gengið. Heildarinnstæður einstaklinga á Icesave reikningunum voru 1.150 milljarðar króna, en þar af er sá hluti sem lágmarksinnstæðutryggingin náði yfir 660 milljarðar. Fari málið fyrir dómstóla má allt eins ætla að áliti Jóhannesar að líklega krafa verði áðurnefndir 1.150 milljarðar króna. Þá nefndi Jóhannes einnig að honum þætti einkennilegt ef málið myndi tapast fyrir EFTA dómstólnum að stjórnvöld myndu láta sig það engu varða og bíða eftir að Bretar og Hollendingar myndu höfða mál hér á landi. Það væri afskaplega ólíklegt.
Þarf að skýra þá mynd sem upp kæmi ef samningnum er hafnað
Dóra Sif Tynes fulltrúi Áfram hreyfingarinnar fjallaði um hina svokölluðu dómstólaleið. Hún sagði skipta miklu að skýra þá mynd sem upp kæmi ef samningnum verður hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardaginn, en að sögn Dóru hefur forseti ESA gefið það út að ef takist að ganga frá málinu með samningum þá verði samningsbrotamál ekki höfðað gegn Íslandi fyrir EFTA dómstólnum. Verði niðurstaða atkvæðagreiðslunnar önnur er líklegra en ella að slíkt mál verði höfðað og það mun þá aðeins fjalla um hvort stjórnvöld hafi mismunað innstæðueigendum milli landa, en ekki um gildi neyðarlaganna hér á landi. Hún áréttaði að dómstólaleiðin væri afskaplega áhættusöm, töluvert umfram það að samþykkja fyrirliggjandi samning. Munurinn gæti numið einhverjum hundruðum milljarða króna.
Jón Helgi Egilsson fulltrúi Advice hreyfingarinnar fjallaði um áhættuna af samningnum, t.a.m. þá gjaldeyrishættu sem innbyggð er í samninginn. Hann fór yfir það hvernig staða Breta og Hollendinga væri ef innstæðukerfið hefði virkað samkvæmt tilskipun ESB, en þá hefðu löndin tvö fengið um 674 milljarða upp í kröfur sínar. Með þeim samningi sem kosið verður um í þjóðaratkvæðagreiðslu á laugardag er heildarupphæðin til Breta og Hollendinga 1.175 milljarða króna vegna forgangs innstæðna fram yfir aðrar kröfur, sem kom til vegna neyðarlaganna. Þá ræddi hann um að höfða þyrfti mál hérlendis og að venja væri í málum sem slíkum að sá sem hefði uppi kröfuna þyrfti að hafa orðið fyrir skaða, en raunin í þessu tilviki væri að þessir aðilar hefðu ekki orðið fyrir skaða m.a. vegna neyðarlaganna. Hins vegar urðu ýmsir almennir kröfuhafar fyrir skaða, t.a.m. íslenskir lífeyrissjóðir, verðbréfasjóðir ofl.
Fundarstjóri var Elín Hirst, en auk Jóhannesar Karls, Dóru Sifjar og Jóns Helga kynntu Friðrik Már Baldursson prófessor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, Ragnar Árnason prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands og Gylfi Zoega prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands hagrænar afleiðingar samningsins. Að loknum erindum framsögumanna tók við pallborð þar sem auk þeirra tók til máls Guðmundur Björnsson verkfræðingur hjá GAMMA. Nánari umfjöllun um erindi þeirra má finna hér: Efnahagslegar afleiðingar Icesave