Viðskiptaráð Íslands

Kostnaður kreppunnar: 3.400 milljarðar?

Miðað við núverandi horfur í efnahagsmálum er hætt við því að batinn í hagkerfinu verði afar veikur í og kostnaðarsamur í alþjóðlegum samanburði. Í skoðun Viðskiptaráðs sem ber heitið Velferðartap án vaxtar- stöðnun ekki kostur er það m.a. reiknað út að uppsafnað velferðartap vegna tapaðs hagvaxtar getur numið allt að 3.400 milljörðum til 2020. Í þessu samhengi er rétt að benda á að landsframleiðsla Íslands var rétt rúmlega 1.500 milljarðar árið 2009. Fjárhæðirnar sem hér um ræðir eru gríðarlega háar þar sem áhrif veikari vaxtar koma betur í ljós eftir því sem fram í sækir.

Veikur bati í alþjóðlegu samhengi - meðal neðstu þjóða
Í nýlegri spá AGS (World Economic Outlook) um þróun hagkerfa heimsins til ársins 2016 kemur Ísland afar illa út og eru hagvaxtarhorfur einna dekkstar hér á landi. Af spánni má ráða að raunveruleg hætta sé á því að efnahagsbatinn verði það veikur að uppsafnað velferðartap geti hæglega 2 til 3 þúsund milljörðum líkt og nefnt er hér að framan.

Þegar horft er til alls tímabilsins, frá 2008 til 2016, þá er meðalhagvöxtur hér á landi um 0,8% sem er níundi slakasti árangurinn af þeim 183 löndum  sem spáin nær til. Meðalhagvöxtur þeirra ríkja sem spáin nær til er tæplega 4%. Litlu breytir ef horft er til „endurreisnaráranna“, þ.e. 2010 til 2013 þá fæst sama  niðurstaða  eða níunda neðsta sæti. Ef menn vilja teygja sig enn frekar og horfa  til 2011 til 2016 þegar öll áhrif og eftirköst kreppunnar ættu að vera komin fram þá er hagvöxtur enn afar veikur og er Ísland þá í 144 sæti af 183 löndum. Hvernig sem horft er á  þessar tölur þá er ljóst að batinn er langt frá því að vera viðundandi.

Bati hagkerfisins er mikilvægur til að endurheimta þau lífskjör sem tapast hafa  sem og viðhalda þeirri lífskjaraaukningu sem hagkerfið hefur burði til að veita. Í Peningamálum Seðlabankans frá því 20 apríl síðastliðinn kemur fram að sú  framleiðsla og lífskjör sem hafa tapast yrði að fullu endurheimt um mitt ár 2014. Það er vissulega jákvætt. Hinsvegar ber að forðast að falla í þá gryfju að stefna á stöðnun með það að markmiði að viðhalda ákveðnum lífskjörum heldur á  markmiðið að vera að stuðla að og viðhalda stöðugri lífskjaraaukningu frá ári til  árs. Stöðnun er ekki kostur í stöðunni.

Að óbreyttri stefnu
Nú þegar skammt er til loka formlegs samstarf stjórnvalda og AGS í efnahagsmálum er  endurskipulagning íslensks hagkerfis á vissum krossgötum.  Brotthvarf sjóðsins dregur ekki úr þörf á ráðdeild í ríkisrekstri né heldur á að  umsvif í hagkerfinu aukist. Þvert á móti. Staða efnahagsmála er enn erfið og  hagvöxtur lætur á sér standa. Af þeim sökum er afar brýnt að forgangsröðun  verkefna sé skýr og miði að hagsmunum heildar og verðmætasköpun til lengri  tíma. Einleikur stjórnvalda í skattamálum, sífelldar breytinga á lagaumhverfi  rekstrar og óvissa um stefnumörkun í grunngreinum íslensks atvinnulífs gengur  þvert á þessi markmið og er til þess fallið að draga úr sterkum bata.

Öll óvissa og óstöðugleiki sem þessar áherslur skapa hefur skaðleg áhrif á hagvöxt og því hafa vinnubrögð stjórnvalda að mörgu leyti haft neikvæð áhrif á uppbyggingu hagkerfisins og hagvaxtarhorfur komandi ára. Yfirlýsing stjórnvalda í tengslum við kjarasamninga vekur þó vonir um breytta stefnu stjórnvalda í skattamálum. Í yfirlýsingunni er m.a. vísað til skýrslu Viðskiptaráðs og SA frá því síðastliðið haust þar sem fjölmörgum vanköntum á skattkerfinu er lýst. Ekki er vanþörf á að takast á við breytingar á skattkerfinu ef markmið nýundirritaðra kjarasamninga um aukinn hagvöxt og fjárfestingu eiga að nást. Umfjöllin hér að framan sýnir hve mikilvægt markmið það er að auka hagvöxt hérlendis til að hindra að velferðartap kreppunnar nemi ekki nokkur þúsund milljörðum til ársins 2020.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024