Þessi grein er ein margra í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands til árlegs Viðskiptaþings. Skýrslan í ár ber heitið Tökumst á við tækifærin - atvinnulíf til athafna og pdf útgáfu skýrslunnar má nálgast á þessari slóð.
Vegna smæðar þjóðarinnar hafa íslenskir læknar þurft að sækja sér framhaldsmenntun til útlanda. Í því samhengi er vert að minna handhafa pólitísks valds á að það er ekki fyrir þeirra tilstilli að hinir íslensku læknar hafa valið sér bestu menntastofnanir beggja vegna Atlantsála og víðar. Það er þetta fólk, sem hefur á eigin vegum og verðleikum aflað sér framhaldsmenntunar og valið að snúa heima til Íslands, sem hefur lagt grunninn að þeirri heilbrigðisþjónustu sem við viljum gjarnan stæra okkur af í alþjóðlegum samanburði. Í þennan suðupott þess besta sem þekkist í nútíma læknisfræði heimsins hafa síðan bæst aðrar vel menntaðar heilbrigðisstéttir sem hafa komið með réttu kryddin og gert heilbrigðisþjónustuna að því sem við höfum búið við.
Á síðustu áratugum hefur Íslendingum tekist að bæta við sem grunnstoð í þjóðskipulaginu mjög öflugri heilbrigðisþjónustu – að sumra mati þrátt fyrir kerfið en ekki vegna þess. Það er á þessari grunnstoð sem PrimaCare hyggst byggja upp þjónustu sem sniðin er að erlendum sjúklingum. Í alþjóðlegu samhengi geta Íslendingar sýnt fram á heilbrigðistölfræði sem á sumum sviðum stenst samanburð við það besta sem þekkist.
Byggjum á traustum stoðum
Áform PrimaCare snúast um að nýta sérstöðu Íslands og Íslendinga og samtvinna nokkra þá þætti sem styrkur okkar felst í. Með tilliti til þess markaðstækifæris sem viðskiptahugmyndin byggir á er staðsetning landsins mjög ákjósanleg, mitt á milli austurstrandar Bandaríkjanna og Norður-Evrópu. Eins og einn erlendur viðmælandi hafði á orði munu „misvitrar ákvarðanir íslenskra stjórnmálamanna munu a.m.k. ekki megna að breyta legu landsins“. Afmörkuð, viðurkennd og vel skilgreind hágæða læknisþjónusta á mjög samkeppnishæfum verðum, þar sem áhersla verður lögð á heildarlausn fyrir viðkomandi sjúklinga og aðstandendur er einn af styrkleikum verkefnisins.
Íslendingar hafa búið við það lán og borið til þess gæfu að læra á landið og auðlindirnar. Það hefur ekki verið þrautalaust og deilt hefur verið um aðferðirnar. Stoðirnar hafa ekki verið margar en þær hafa verið traustar og á þeim byggjum við nú í eftirleik hrunsins. Eftir því er kallað að finna nýjar leiðir og skjóta fleiri stoðum undir tilveru Íslendinga og framtíðar efnahag þjóðarinnar. Því virðist það skjóta skökku við þegar sumir gagnrýnendur þess að nýta sér þá stoð sem heilbrigðisþjónustan getur verið nýjum hugmyndum um atvinnusköpun og gjaldeyrisöflun, tala gegn því að starfsemi þessi verði að veruleika. Oftar en ekki er málflutningurinn settur fram á þann hátt að verið sé að vernda eitthvert tiltekið núverandi fyrirkomulag sem mikil hætta er talin á að líði undir lok ef hin nýja starfsemi kemst á laggirnar.
Það er eðlilegt að fara fram með varfærni og benda á hvar getur verið ástæða til að staldra við. Til þess er rökræðan. Finna leiðir til að leysa þau vandamál sem upp kunna að koma. Finna leiðir til að ýta undir nýjungar, auka fjölbreytni, fjölga tækifærum og gera það án þess að skaða aðra hagsmuni. Við höfum vítin til að varast og læra af. Við höfum vel menntað fólk sem hefur aukið við kunnáttu sína bæði í ríkisreknum og einkareknum háskólum hérlendis sem erlendis. Sá grunnur er traustur og ekki er að sjá að annað formið sé marktækt betra en hitt. Því ættum við að vera vel í stakk búinn til að taka upp jákvæða rökræðu um ný tækifæri og finna leiðir til að leysa úrlausnarefnin. Það hlýtur að vera æskilegra ef hægt er að gera það á annan hátt en að reyna að koma í veg fyrir að ný tækifæri verði að veruleika. Framþróun hefur aldrei byggt á úrtöluröddum og þeim sem tala kjark úr fólki.
Gunnar Ármannsson, Primacare