Samkvæmt skýrslu IMD-viðskiptaháskólans í Sviss um samkeppnishæfni hagkerfa þá eru Hong Kong og Bandaríkin jöfn í efsta sæti listans að þessu sinni. Ísland er í 31. sæti sæti yfir samkeppnishæfustu hagkerfi heims og fellur um eitt sæti milli ára. Vandinn sem Ísland glímir við er umtalsverður. Efnahagsbati hagkerfisins hefur t.a.m. verið veikur sem kemur nokkuð skýrt fram í niðurstöðum könnunarinnar. Efnahagsleg frammistaða Íslands í samanburði við önnur lönd er slök, sérstaklega þegar horft er til efnahagsástands innanlands þar sem Ísland rekur lestina í hópi tæplega 60 landa. Veikleika má einnig finna á öðrum stöðum, t.d. í umgjörð stofnanna og fjármálum hins opinbera. Í öllum þessum flokkum hefur einkunn Íslands lítið breyst á milli ára. Af myndinni hér að neðan má sjá að stöðnun ríkir í flestum undirþáttum í samkeppnishæfni þjóðarinnar. Þeir styrkleikar sem voru til staðar fyrir ári standa óbreyttir en það er áhyggjuefni að ekki hafi tekist að færa aðra veikleika frá fyrra ári til betri vegar.
Athugið að öll röðun landa er á skala þar sem 1 táknar efsta sæti og 59 táknar neðsta sæti.
Réttur félagsskapur?
Af töflu 1 hér að neðan má sjá nokkur af þeim löndum sem metin eru með svipaða samkeppnishæfni og íslenska hagkerfið. Ríkin teljast sum hver nokkuð vanþróaðri en Ísland og bjóða upp á lakari lífskjör fyrir sína borgara. Að því leiti til má segja að Ísland sé ekki í réttum félagsskap. Þau lönd sem nú fá svipaða einkunn og Ísland eru m.a. Tæland, Tékkland, Indland, Eistland, Pólland og Kasakstan. Þar eru þó einnig þróaðri lönd sem lent hafa tímabundnum erfiðleikum í kjölfar efnahagskreppunnar eða búa almennt við lakari samkeppnishæfni, t.d. Frakkland, Írland, Portúgal og Ítalía.
Tafla 1 - Sæti nokkurra landa á lista IMD
Athugið að öll röðun landa er á skala þar sem 1 táknar efsta sæti og 59 táknar neðsta sæti.
Ólíkt þeim löndum sem hafa svipaða samkeppnishæfni og Ísland þá eru samfélagslegir innviðir meðal þeirra bestu sem um getur. Þar er t.a.m. tekið tillit til heilsu, menntamála, grunninnviða svo sem aðgengi að vatni, menntun, vegakerfi og rafmagni. Allt eru þetta þættir sem flestir Íslendingar telja sjálfsagða en eru það ekki í sumum þeim ríkjum sem hafa svipaða samkeppnishæfni í ofangreindri töflu. Flest þau ríki eru í 40. til 50. sæti hvað þessa grunninnviði varða. Grunnforsendur er því til staðar á Íslandi til að bæta samkeppnishæfni landsins nokkuð hratt á komandi árum ef rétt er á málum haldið.
Samanburður við Norðurlöndin
Líkt og áður segir eru samfélagslegir innviðir meðal þess sem best gerist og er Ísland þar í 9. sæti líkt og í fyrra, aðeins fáum sætum á eftir hinum Norðurlöndunum. Það sem sker Ísland úr hópi annarra Norðurlanda er slæm staða efnahagsmála og lítil skilvirkni hins opinbera. Þrátt fyrir að efnahagsleg frammistaða okkar helstu samanburðarlanda hafi ekki verið meðal þeirra tíu efstu þá eru öll ríkin þrátt fyrir það á meðal 15 samkeppnishæfustu hagkerfa í könnuninni. Danmörk er t.a.m. í 40. sæti yfir efnahagslega frammistöðu en er samt sem áður í 12. sæti í könnuninni. Efnahagsleg frammistaða og skilvirkni hins opinbera eru hins vegar umtalsvert lakari hérlendis sem skýrir að mestu þann mun sem er á löndunum. Að auki er skilvirkni atvinnulífs almennt meiri í þessum löndum.
Tafla 2 - sæti landa á lista IMD sem bjuggu áður við svipaða samkeppnishæfni
Athugið að öll röðun landa er á skala þar sem 1 táknar efsta sæti og 59 táknar neðsta sæti.
Búum að sterkum innviðum
Sá grunnur sem samkeppnishæfni Íslands byggir á er sterkur og góður grundvöllur uppbyggingar til framtíðar. Sterkir innviðir í samfélaginu auðvelda vöxt á komandi árum og skapa gnótt tækifæra. Af ofangreindri töflu má sjá að ef vel til tekst að bæta efnahagslega frammistöðu íslenska hagkerfisins – með auknum umsvifum atvinnulífs – þá ætti að vera hægt að bæta samkeppnishæfni hagkerfisins nokkuð á komandi árum.
Könnun IMD staðfestir að staða Íslands í samburði við aðrar þjóðir er verri en hingað til. Þetta kemur fáum á óvart, en spurningin er hinsvegar hvernig við getum nýtt upplýsingar af því tagi sem hér koma fram. Við gerum það með því að horfa til styrkleika sem Ísland býr óumdeilanlega að. Það þarf að standa vörð um grunn innviði, sem eru sterkir og gott veganesti til uppbyggingar framtíðar. Þó er ekki síður mikilvægt að horfa til þess sem betur má fara og þar er úttekt IMD greinargóður leiðarvísir sem á erindi til allra þeirra sem áhuga hafa á efnahagsþróun og vegferð íslenska efnahagskerfisins til næstu missera.“
- Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs
Um IMD World Competitiveness Yearbook (WCY)
Skýrslan er unnin af svissneska viðskiptaháskólanum Institute for Management Development (IMD) en hann er talinn einn fremsti viðskiptaháskóli í Evrópu. IMD gefur árlega út skýrslu um samkeppnishæfni þjóða sem kallast IMD World Competitiveness Yearbook (WCY) sem talin er leiðandi í umfjöllun um samkeppnishæfni þjóða í heiminum og hefur verið gefin út óslitið frá árinu 1989. Skýrsla IMD um samkeppnishæfni þjóða byggir á fjórum megin stoðum:
Skýrslan er byggð á yfir 300 hagvísum auk viðhorfskönnunar meðal stjórnenda í atvinnulífinu. Haggögnin vega 2/3 á móti 1/3 sem byggir á viðhorfskönnuninni. Alls eru 59 hagkerfi metin í könnuninni í ár og eru þau öll vestræn eða önnur þróuð hagkerfi. Allnokkru færri ríki eru í könnun IMD en sambærilegri könnun frá World Economic forum en það má rekja til mun meiri áherslu IMD á hrágögn en minni áherslu á viðhorfskannanir. Sú áhersla gerir það að verkum að færri ríki uppfylla skilyrði um þau gögn sem eru tiltæk. Að sama skapi eru þau ríki sem eru í könnun IMD flest þróuð ríki sem skipa efri hluta beggja lista.
Upplýsingasíða Viðskiptaráðs um IMD
Viðskiptaráð Ísland er samstarfsaðili IMD á Íslandi. Verkefni Viðskiptaráðs tengist gagnaöflun og framkvæmd viðhorfskönnunar meðal stjórnenda í íslensku atvinnulífi. Á eftirfarandi vefsvæði, www.vi.is/imd sem tileinkað er niðurstöðum könnunarinnar má finna m.a.:
Nánari upplýsingar veitir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri og Björn Þór Arnarson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, í síma 510-7100. Fjölmiðlahorn Viðskiptaráðs má finna hér.