Ný úttekt IMD viðskiptaháskólans á samkeppnishæfni Íslands sýnir að þremur af fjórum meginþáttum úttektarinnar hefur hrakað umtalsvert frá hruni. Af 59 þátttökulöndum situr Ísland nú í 34. sæti í skilvirkni atvinnulífs, 40. sæti í skilvirkni hins opinbera og 52. sæti í efnahagslegri frammistöðu. Einungis einn af fjórum meginþáttum, samfélagslegir innviðir, telst enn til styrkleika, en þar situr Ísland í 9. sæti listans. En þessum þætti er einnig ógnað.
Einn mikilvægasti þáttur efnahagslegra innviða fyrir samkeppnishæfni er það vinnuafl sem til staðar er. Þar skiptir máli hversu vel menntað vinnuaflið er og hve mikið af fólki með tæknilega, vísindalega og verkfræðilega þekkingu er til staðar sem fyrirtæki geta ráðið til vinnu. Ísland gefur eftir í báðum þessum flokkum – landið situr 28. sæti af 59 hvað varðar menntunarstig ungs fólks og í 48. sæti hvað varðar hlutfall útskrifaðra háskólanema úr raunvísindum og verkfræði.
Úr þessu þarf að bæta. Lágt menntunarstig vinnuafls og lágt hlutfall raunvísinda og verkfræðimenntaðra dregur úr nýsköpun og hagvexti til lengri tíma liðið og áratugi gæti tekið að vinda ofan af slíkri þróun. Samfélagslegir innviðir eru einn mikilvægasti þáttur samkeppnishæfni til lengri tíma litið og Ísland má ekki við því að þeim hraki frekar.
IMD viðskiptaháskólinn í Sviss hefur starfrækt rannsóknarstofnun um samkeppnishæfni þjóða heims frá árinu 1989. Stofnunin metur árlega samkeppnishæfi um 60 landa með það að leiðarljósi að gefa stjórnvöldum, fyrirtækjum og stofnunum upplýsingar um styrkleika og veikleika hagkerfanna. Nánari upplýsingar um niðurstöðurnar í ár má lesa hér.